Fjöldi leiguliða og fullvirðisréttur

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 10:43:00 (5006)

     Steingrímur J. Sigfússon (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki ræða efni þessarar fsp. Ég vil hins vegar ræða svör hæstv. landbrh. hér og framkomu hans við þingið, m.a. þann hroka sem hann sýndi í seinna svari sínu. Ég á því satt best að segja ekki að venjast og ég held ekki aðrir hv. alþm. að ráðherrar, til viðbótar því að svara ekki því sem þeir eru spurðir um, geri sér far um það og leggi lykkju á leið sína í ræðustólinn til að reyna að lítilsvirða fyrirspyrjendur. Eða hvað átti það að þýða af hálfu hæstv. landbrh. að bera það upp á fyrirspyrjanda að hann sé með öllu ókunnugur í landbrn.? Ég er alveg viss um það hvor hefur eytt fleiri klukkustundum innan veggja þar, sá sem hér talar eða núv. hæstv. landbrh. Það er enginn vafi á því.
    Herra forseti. Ég tel það ákaflega miður að hæstv. ráðherra skuli ekki hafa í sér uppburði til þess að viðurkenna þá ef staða mála er sú að ekki eru efnislegar forsendur til að svara fsp. sem hér hefur verið borin fram. Það er t.d. að mínu mati sjálfsagt mál ef ráðherrar telja sig ekki hafa aðstæður til þess að

svara fyrirspurnum innan þess tíma sem ætlaður er fyrir það samkvæmt þingsköpum að þá fari þeir fram á lengri frest og gjarnan held ég að bæði forseti og fyrirspyrjandi geti orðið sammála um að veita hann ef slíkt er óhjákvæmilegt til að afla upplýsinga. En að svara hér engu, koma með skæting í garð fyrirspyrjanda eða þess sem tók að sér fyrir hönd fyrirspyrjanda að mæla fyrir fsp. og heimta svo aðra fsp. þar sem beðið sé um skriflegt svar til þess að svara því sem um hefur verið beðið, það er auðvitað sérkennileg framkoma.
    Það var ekki verið að biðja hæstv. landbrh. um að gefa jarðaskrána út tvisar á ári. Það er misskilningur hjá hæstv. ráðherra. Fyrirspyrjandi var að reyna að afla upplýsinga um það hvar þessi framkvæmd væri á vegi stödd og því miður er það niðurstaða þessarar umræðu fyrir utan framkomu hæstv. landbrh. sem er ekki alveg ný af nálinni hér í þessum ræðustóli og var svona lítið ,,exemplar`` um það að hæstv. ráðherra hefur ekki breytt ýkja mikið um eðli frá því fyrir um ári síðan eða rúmlega það þegar hann stóð við tilteknar aðstæður hér í þessum ræðustóli og varð frægur að endemum fyrir með þjóðinni. En hitt er öllu alvarlegra að efnisleg niðurstaða er sú að hæstv. landbrh. getur ekki svarað skýrum spurningum sem lagðar eru fyrir hann hér á Alþingi eins og ráðherrum ber skylda til að gera og að sjálfsögðu eiga þeir að sýna þinginu þá virðingu að reyna að gera það eftir bestu getu og útskýra ef þeir eru ekki færir um að veita svör hvers vegna það er með málefnalegum hætti en ekki með skætingi eins og hér var í frammi hafður áðan.