Sala á veiðiheimildum

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 10:51:00 (5010)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda gilda um sölu skipa og framsöl aflahlutdeildar ákvæði 11. gr. laga um stjórn fiskveiða. Er það frv. var flutt hér á vorþingi 1990 var gert ráð fyrir því í 3. mgr. 11. gr. frv. að hygðist útgerð selja fiskiskip sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni bæri henni að tilkynna fyrirhugaða sölu opinberlega, m.a. með tilkynningu til sveitarstjórnar á útgerðarstað skips og viðkomandi útvegsmannafélags og skyldi aflahlutdeild skips ekki fylgja í sölunni væri bindandi samningur um sölu skipsins gerður innan mánaðar frá birtingu tilkynningarinnar. Sambærileg ákvæði voru í 4. mgr. 11. gr. frv. um tilkynningarskyldu varðandi fyrirhugað framsal aflahlutdeildar til skips í eigu annarrar útgerðar. Með þessari tilkynningarskyldu var samkvæmt athugasemdum með greininni ætlunin að gefa heimamönnum ráðrúm til að bregðast við áformum um sölu skips eða aflahlutdeildar úr byggðarlagi. Hins vegar fólust ekki í þessum tillögum neinar beinar hömlur eða kvaðir varðandi sölu skips eða aflahlutdeildar sem útgerð hygðist framselja og ekki var gert ráð fyrir neinum beinum íhlutunarrétti sveitarstjórna.
    Þegar drög að frv. voru kynnt á þingum hagsmunaaðila haustið 1989 varð mikil umræða um hvort og þá hvernig ætti að setja kvaðir eða hömlur á flutning skipa eða aflaheimilda milli byggðarlaga. Þegar frv. kom svo til umfjöllunar á Alþingi voru þessi atriði einnig meðal þeirra sem mesta umfjöllun hlutu.
    Við 2. umr. í efri deild Alþingis komu fram breytingartillögur við 11. gr. frv. Lutu þær annars vegar að því að í stað ákvæða um tilkynningarskyldu vegna fyrirhugaðrar sölu á fiskiskipum í 3. mgr. 11. gr. kæmi beinn forkaupsréttur sveitarfélags þegar selja ætti fiskiskip til útgerðar sem heimilisfesti á í öðru sveitarfélagi. Hins vegar lutu þær að því að fella niður áðurnefnda tilkynningarskyldu vegna sölu á aflahlutdeild í 4. mgr. 11. gr. frv. Þess í stað var bætt inn í málsgreinina ákvæðum þess efnis að framsal aflahlutdeildar skyldi háð samþykki ráðherra ef það skip sem framselt er til hefði ekki fyrir aflahlutdeild af þeirri tegund sem framseld er. Þessar brtt. hlutu samþykki Alþingis og voru ekki gerðar frekari breytingar á 11. gr. frv. við meðferð þess í þinginu.
    Af skýru orðalagi laganna og með hliðsjón af framansögðu er fullljóst að forkaupsréttur sveitarfélaga nær til þess ef selja á fiskiskip sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni til útgerðar sem heimilisfesti á í öðru sveitarfélagi en seljandi.
    Þá er ljóst að sveitarstjórn á ekki forkaupsrétt eða annan íhlutunarrétt vegna flutnings aflahlutdeildar milli skipa enda þótt þau séu gerð út frá sitt hvoru byggðarlaginu.
    Sameining aflaheimilda á færri skip er grundvöllur núverandi fiskveiðilaga. Ef við ætlum í alvöru að minnka fiskiskipaflotann, sem langflestir eru sammála um að sé of stór, þá verður það ekki gert nema heimildir til að flytja aflaheimildir saman á færri skip séu sem minnst takmarkaðar. En eins og Alþingi er kunnugt um er í samræmi við ákvæði laga um stjórn fiskveiða starfandi nefnd sem m.a. hefur það hlutverk að endurskoða gildandi lög um stjórn fiskveiða. Nefndin á að skila tillögum sínum fyrir næstu áramót.
    Þegar nefndin hefur skilað áliti sínu mun ég meta hvort tilefni sé til að leggja til breytingar á gildandi lögum, m.a. um þetta efni. Ég mun því ekki leggja til neinar breytingar, hvorki á 11. gr. né á öðrum greinum laganna fyrr en nefndin hefur lokið störfum. Það er vissulega svo að þetta atriði er einn af fjölmörgum þáttum þessara laga sem endurskoðunarnefndin hefur til meðferðar og þarf að endurmeta í ljósi reynslunnar. En ég hef talið óskynsamlegt að fara fram með einstakar breytingar á lögunum fyrr en endurskoðunarstarfinu er að fullu lokið og því á samkvæmt ákvæðum laganna að vera lokið fyrir árslok.