Sala á veiðiheimildum

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 10:55:00 (5011)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Það fer auðvitað ekkert á milli mála að á sínum tíma var hugsunin á bak við 11. gr. sú einfaldlega að torvelda sölu kvóta úr byggðarlagi þannig að komið yrði í veg fyrir að af hlytist röskun fyrir atvinnulíf viðkomandi byggðarlags. Ég verð að segja það eins og er að ég hef alltaf haft mjög miklar efasemdir um gildi þessa ákvæðis og hef raunar haft nokkrar áhyggjur af því að þetta gæti virkað hreinlega öfugt. Dæmi: Útgerðarfélag úr litlu og veiku byggðarlagi ákveður að gera kauptilboð í skip úr stóru og ríku byggðarlagi. Þá getur það brugðist þannig við að viðkomandi sveitarfélag sem hefur á því efni kýs að neyta forkaupsréttar síns og koma í veg fyrir að útgerðarfélagið í byggðarlaginu, sem þarf virkilega á kvótanum að halda til þess að efla sjálft sig og atvinnulíf viðkomandi byggðarlags, getur komið í veg fyrir það að þessi viðskipti eigi sér stað. Síðan getur gerst hið öfuga að útgerðarfélag úr stóru byggðarlagi gerir tilboð í kvóta skips innan veiks byggðarlags og hið veika byggðarlag hefur enga möguleika á því að nýta sér þetta ákvæði og þess vegna flyst meiri kvóti frá þessu litla byggðarlagi. Þess vegna hef ég alltaf haft miklar efasemdir um þetta ákvæði og tel að það þurfi að endurskoða það m.a. í þessu ljósi þegar endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar á sér stað.