Sala á veiðiheimildum

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 11:03:00 (5016)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Það er rétt að ítreka hér enn og aftur að þegar frv. var lagt fram á þinginu árið 1990 var gert ráð fyrir því í frv. að um væri að ræða tilkynningarskyldu, bæði að því er varðar sölu á skipum með aflaheimildum og eins að því er varðar sölu aflaheimildanna einna og sér. Alþingi breytti þessu í meðferð frv. og það voru þingmenn þáv. stjórnarflokka sem breyttu frv. á þann veg að það yrði um að ræða forkaupsrétt ef skip með aflaheimild væri selt en ekki ef um væri að ræða sölu á aflaheimildunum einum og sér. Þessi breyting er mjög skýr og undan henni verður ekki vikist. Menn geta ekki eftir á sagt að þingmenn þáv. stjórnarflokka hafi verið að hugsa eitthvað annað. Það var þetta sem þeir samþykktu. Ráðherra á hverjum tíma er skylt að framkvæma lögin eins og Alþingi hefur samþykkt þau og þar geta menn ekki vísað í einhverjar aðrar óræðar hugsanir.
    Ég vil svo líka rifja það upp að þingmenn sömu stjórnarflokka samþykktu að endurskoðun skyldi fara fram á lögunum og hún fer nú fram samkvæmt því ákvæði laganna. Fyrr á þessu þingi stóðu þingmenn upp hér í löngum röðum og fluttu langar ræður um það að sjútvrh. væri beinlínis óheimilt að koma fram með breytingar á einstökum þáttum áður en heildarendurskoðuninni lyki. Mér var nánast borið það á brýn hér, m.a. af hv. fyrirspyrjanda, að hafa brotið lög vegna þess að ég kom fram með breytingar á lögum um Hagræðingarsjóðinn áður en heildarendurskoðuninni væri lokið. En nú er það borið fram hér sem gagnrýniatriði að ég skuli ekki taka eitt atriði út úr þessum lögum og leggja til breytingar að kröfu hv. þm. áður en endurskoðuninni er lokið. Hér rekur sig hvað á annars horn og málflutningurinn gengur í sitt hverja áttina eftir því í hvaða viku hv. þm. stjórnarandstöðunnar eru að tala. Það er ekki mikið samræmi í gagnrýni af þessu tagi.
    Ég tel, eins og hér hefur reyndar komið fram í umræðunum hv. þm., að það séu mörg álitaefni varðandi ákvæði af þessu tagi og það sé ekkert einhlítt að ákvæðið eins og það er í dag sé það besta. Mér er nær að halda að það hafi verið skynsamlegra fyrirkomulag sem var í frv. í upphafi eins og þáv. hæstv. sjútvrh. lagði það fyrir þingið, en ég tel rétt og skylt að þau sjónarmið sem hér hafa komið fram og annars staðar í þjóðfélaginu séu grandskoðuð og þegar heildarendurskoðun á lögunum hefur farið fram þá meti menn hvaða tillögur verði lagðar fyrir þingið og eftir því vinnulagi verður farið.