Öryggi í óbyggðaferðum

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 11:16:00 (5022)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég verð að lýsa ánægju minni með að það skyldi þó hafa komið einhver niðurstaða frá þessari tveggja manna nefnd sem var sett á laggirnar en ég verð hins vegar að lýsa vonbrigðum með að ekki skuli vera búið að gera meira en raun ber vitni varðandi þetta mál. Ég vil taka undir það hjá hæstv. dómsmrh. að ég tel ekki eðlilegt að setja á ferðabann, en það er tekið fram sérstaklega í greinargerð með tillögunni að það var ekki meiningin með þessari tillögu, enda held ég að það mundi engan veginn vera hægt. Hins vegar væri kannski í undantekningartilvikum hægt að banna fólki að fara í ákveðnar ferðir nema þá ef það væri vel tryggt og vel útbúið en það yrði þá að athuga sérstaklega.
    Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að efla tilkynningaþjónustuna. Það getur vel verið að það sé rétt að setja tilkynningaskyldu í vissum tilvikum en ég held að ferðamenn, sem fara inn á óbyggðir og í einhverjar hættuferðir eða ferðir sem hugsanlega gætu verið hættuferðir, vilji gjarnan fá að tilkynna sig. Og að mínu mati er tilkynningaþjónustan, sem nú er starfrækt ef ég man rétt á vegum Hjálparsveitar skáta, allt of lítið kynnt þannig að menn vita of lítið um hana. Ég held því að ef hún væri efld og henni væri hjálpað að auglýsa sig þá mundu mjög margir nota hana og það gæti komið í veg fyrir ýmis óhöpp vegna þess að um leið og fólk tilkynnti sig, þá gæti það aflað upplýsinga, fengið upplýsingar um útbúnað, um hvaða hættu ferðin sem það er að fara gæti e.t.v. haft í för með sér. Ég held því að það sé eðlilegt að reyna að taka niðurstöðu nefndarinnar og fjalla nánar um hana hjá þeim aðilum sem hafa fjallað um þetta mál.
    Mig langar aðeins til að inna hæstv. dómsmrh. eftir því hvort farið hefur verið með þessar tillögur til t.d. hjálparsveitanna sem eru mjög mikilvægur þáttur í björgunarstarfi hér á landi og skiptir mjög miklu máli að þær séu með í þessu máli. Mig langar jafnframt að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort þessar tillögur séu aðgengilegar þannig að það sé mögulegt fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér þessi mál

og fara betur ofan í saumana á þeim og að fá aðgang að niðurstöðum þessarar nefndar. Ég hefði sjálf mjög mikinn áhuga á því.