Akstur utan vega

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 11:40:00 (5029)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég spyr á þskj. 627 um framkvæmd ályktunar Alþingis frá 11. maí 1988, um akstur utan vega. Þá var samþykkt tillaga frá Alþingi um að dómsmrh. skipaði nefnd með fulltrúum allra flokka sem fjölluðu um þetta mál, þ.e. að samræma lög og reglur um akstur torfærutækja og annarra vélknúinna ökutækja utan vega og merktra slóða. Þetta þótti öllum mjög mikilvægt mál á sínum tíma og ég reikna með að öllum þyki það jafnmikilvægt mál nú.
    Fulltrúi Kvennalistans, Sigrún Helgadóttir, var í þessari nefnd og var fundað nokkuð í upphafi, fljótlega eftir að nefndin var skipuð, en formaður nefndarinnar var Árni Gunnarsson, þáv. alþm. Ég minnist þess að fulltrúi Kvennalistans í þessari nefnd fór til Bandaríkjanna og var þar í eitt ár og nefndin fundaði aldrei á meðan hún var í burtu þannig að hún hélt bara áfram í nefndinni þegar hún kom aftur, en hún var varla boðuð á fund, ef ég man rétt einn fund eftir þetta fyrsta ár.
    Um það bil ári eftir að þessi tillaga var samþykkt spurði hv. þáv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir um framkvæmd tillögunnar. Þá kom fram í máli þáv. dómsmrh. að tekið yrði á þessum málum eða alla vega var lofað bót og betrun en enn hefur ekkert heyrst og enn hefur fulltrúi Kvennalistans a.m.k. ekki verið boðuð á fund. Mér þykir það mjög alvarlegt að ekki skuli vera gert neitt í þessu máli, sérstaklega með tilliti til þess að alltaf berast fréttir um það hvernig farið er með landið með akstri utan vega. Er ég hérna með nýlegt dæmi þar sem er frásögn af ferð sem á að fara þvert yfir landið og til þess að lýsa því hvað þetta sé nú góð ferð, þá segir í lýsingunni:
    ,,Ökumenn eru allir mjög vanir svona ferðum og hafa mikla reynslu í akstri utan vega og uppi á jöklum.``
    Samkvæmt lögum er akstur utan vega bannaður þannig að þarna gera menn sér enga grein fyrir hvað er leyfilegt í þessum efnum. Ég tel því mjög nauðsynlegt að þessi nefnd verði endurvakin, en spyr um framkvæmd ályktunarinnar. Kannski eru þeir að gera eitthvað í dómsmrn. þrátt fyrir að þessi nefnd hafi lognast út af.