Akstur utan vega

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 11:49:00 (5032)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir að það er eðlilegt að reglur um umferð á hálendinu utan vegar séu skýrar. Hins vegar vil ég minna á það að þetta mál verður ekki leyst með boðum og bönnum. Ég bendi á það að fyrir 15--20 árum var akstur torfærubifreiða utan vega mikið vandamál. Það hefur breyst til batnaðar, ekki með tilkomu reglna eða banna að ofan heldur vegna þess að þeir sem nota þessi farartæki hafa, ef svo má að orði komast, komið á siðbót innan frá og það er í raun hin eina lausn að þeir sem ferðast um hálendið hafi frumkvæðið og þeir skapi þær reglur innan sinna vébanda sem leysa þetta mál.
    Ég vil, virðulegi forseti, að lokum nefna það að einmitt þetta, akstur á vel búnum farartækjum um hálendi landsins, hvort heldur er að sumri eða vetri, er eitt af því sem gerir lífið á Íslandi sérstakt og getur skapað lífsstíl sem hvergi annars staðar þekkist.