Akstur utan vega

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 11:55:00 (5035)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég vil ítreka það sem áður hefur komið fram af minni hálfu í þessu efni að hér er um að ræða viðfangsefni sem ástæða er til að taka föstum tökum. Ég vil hins vegar taka undir það sem fram kom hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. að það sem skiptir meginmáli í þessu efni er að fá þá sem hafa ánægju af ferðum um hálendið á jeppabifreiðum til þess að taka þátt í þessu starfi og það er mitt mat að það hafi þegar skilað mjög verulegum árangri og vel flestir þeirra sem ferðast með þessum hætti um hálendið virði þær almennu leikreglur sem við teljum eðlilegt að setja. Því miður eru þar alltaf frávik en ég held að umræðan um þessi efni hafi vakið menn til umhugsunar og flestir þeirra sem ferðast um hálendið á þennan veg leggi sig fram um það að ganga vel um náttúru landsins. Þess vegna legg ég á það áherslu að þetta starf byggi á því að viðhalda þessari umræðu, viðhalda þessari vitund fólks og þeim metnaði að ganga vel um náttúruna.
    En við megum ekki ganga á þann veg fram í málinu að við fælum fólk frá því að njóta útivistar og njóta þeirrar náttúrufegurðar og þeirrar dýrðar að vera á fjöllum uppi og ferðast þar um á bifreiðum eftir þeim almennu leikreglum sem við viljum þar um setja. Það eru sannarlega margir sem njóta þessa og sem betur fer í vaxandi mæli, alltaf stærri hópar sem hafa ánægju af því að ferðast um hálendið og við eigum að hvetja til þess og fagna því, en fyrst og fremst að virkja þann metnað Íslendinga að ganga vel um landið sitt.