Útboð

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 11:58:00 (5036)

     Fyrirspyrjandi (Guðjón Guðmundsson) :
    Virðulegi forseti. Fsp. mín til hæstv. viðskrh. er svohljóðandi:
    ,,Hyggst ráðherra flytja frv. til laga um útboð þar sem kveðið verður á um réttindi og skyldur þeirra sem starfa á útboðsmarkaði?``
    Það hefur lengi verið nokkuð almenn skoðun þeirra sem starfa á útboðsmarkaði, einkum þeirra sem fást við tilboðsgerð, að mikill misbrestur sé á framkvæmd útboða og útboðsmálum almennt og algengar eru kvartanir þess efnis að viðurkenndar reglur um útboð séu virtar að vettugi. Umkvörtunarefni þessi eru margvísleg en oftast eru þau frá verktökum sem hafa talið er að réttur þeirra hafi verið fyrir borð borinn af verkkaupum eða öðrum aðilum. Þessum aðilum hefur reynst erfitt að leita réttar síns, fyrst og fremst vegna þess að engin löggjöf er til um útboð og framkvæmd þeirra hér á landi.
    Á 44. iðnþingi Íslendinga sem haldið var á síðasta ári var samþykkt ályktun um útboðsmál þar sem hvatt er til þess að hið fyrsta verði hafist handa við samningu frv. til útboðslaga og að slík lög líti dagsins ljós fyrir þinglausnir vorið 1992. Lög þessi hafi að geyma helstu grundvallarreglur um réttindi og skyldur þeirra sem starfa á útboðsmarkaði ásamt skýringum helstu hugtaka.
    Reglur um framkvæmd útboða eru mjög ófullkomnar. Helst er þar stuðst við íslenskan staðal 30, en sá staðall gildir um almenna útboðs- og samningsskilmála um verkframkvæmdir. Þessi staðall var fyrst gefinn út árið 1969 og er hann fyrst og fremst sniðinn fyrir þá sem bjóða út eða bjóða í verk við byggingarframkvæmdir og var hann saminn af fulltrúum helstu hagsmunaaðila á þessu sviði. Hann hefur verð endurútgefinn tvisvar, síðast árið 1988. Í staðlinum er að finna helstu hugtakaskýringar og reglur sem gilda eiga um útboð. Staðallinn hefur ekki lagagildi og er hann því aðeins skuldbindandi í samskiptum aðila ef þeir hafa komið sér saman um það.
    Í nútímaviðskiptum aukast útboð stöðugt. Þeim sviðum viðskipta fjölgar sífellt þar sem samningar komast á milli aðila á grundvelli útboða. Útboð tryggja heilbrigða og eðlilega samkeppni ef rétt vinnubrögð eru viðhöfð, þ.e. ef allir aðilar standa jafnt að vígi við tilboðsgerðina og bjóðendur ganga ekki of langt í niðurboðum öllum aðilum til tjóns. Ein af meginforsendum þess að Íslendingum takist að hasla sér völl á alþjóðlegum markaði er að hér á landi séu leikreglur á þessu sviði eins og gerist hjá samkeppnisþjóðum okkar. Að öðrum kosti er hætta á að þróunin verði okkur andstæð, samkeppnisstaðan versni enn frekar og tækifæri til markaðssóknar glatist.
    Atvinnulífið á Íslandi á mikið undir því að eðlilegt viðskiptasiðferði sé í heiðri haft á útboðsmarkaði. Það skortir verulega á að svo sé, enda hafa þeir engu að tapa, eins og málum er nú háttað, sem ekki fylgja leikreglum. Þess vegna er það mjög brýnt að lögfestar verði reglur um útboð.
    Virðulegi forseti. Fyrr í vetur hugðist ég flytja frv. til laga um útboð og hafði undirbúið það nokkuð. Ég sló því á frest þegar ég komst að því að hæstv. viðskrh. væri að huga að flutningi slíks frv. Þess vegna leikur mér hugur á að vita hvernig það mál stendur.