Aðgerðir gegn börnum í Río de Janeiro

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 12:16:00 (5044)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 634 legg ég fram litla fsp. um stórt og ógnvænlegt mál. Það hefur sjálfsagt ekki farið fram hjá neinum að hingað til lands hafa borist fréttir um að glæpasveitir, sem jafnvel hafa skjól af stjórnvöldum, vinni skipulega að því að útrýma vegalausum börnum í Brasilíu. Þá er ég að tala um að þær vinni að því að útrýma þeim í bókstaflegri merkingu. Það má kannski segja að þetta sé ekkert nýtt heldur hafi fréttirnar borist vegna fyrirhugaðrar umhverfisráðstefnu í Río de Janeiro. Þingnefnd í Brasilíu sendi frá sér skýrslu fyrir ekki mjög löngu síðan og þar kom fram að a.m.k. 7 þúsund börn hafi verið drepin á sl. fjórum árum af sveitum sem jafnvel er talið að fyrrv. lögreglumenn skipi að stærstum hluta. Þess má reyndar geta í framhjáhlaupi að talið er að í Brasilíu séu, samkvæmt fréttum sem ég hef undir höndum, í allt um 7 millj. vegalausra barna.
    Það er skemmst frá því að segja að samkvæmt fréttaskeyti sem ég hef undir höndum kemur fram --- það fréttaskeyti var sent út í tengslum við heimsókn Gro Harlem Brundtland til Brasilíu --- að engir hafi verið handteknir vegna þessara morða. Þetta er mjög ógnvænlegt mál sem hefur verið í umræðu hér í fjölmiðlum og þess vegna spyr ég hæstv. umhvrh.:
  ,,1. Hefur umhverfisráðherra aflað sér upplýsinga um sannleiksgildi frétta sem borist hafa um að í Río de Janeiro sé litið á vegalaus börn sem umhverfisvandamál sem verði að uppræta fyrir umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í borginni í júní nk.? Þau séu með öðrum orðum drepin með skipulögðum hætti.
    2. Ef svo er, hvaða upplýsingar hefur hann fengið og frá hverjum? Telur hann upplýsingarnar gefa tilefni til að endurskoða þátttöku Íslendinga í ráðstefnunni?``