Orkusáttmáli Evrópu

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 12:37:00 (5052)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Austurl. ber upp fjórar spurningar. Hann spyr fyrst um þátttöku Íslendinga í framhaldsvinnu á grundvelli draga að orkusáttmála Evrópu. Þar eru starfandi fjórir vinnuhópar sem eru annars vegar að undirbúa grunnsamning, á ensku ,,basic agreement``, við þennan orkusáttmála og svo bókanir, ,,protocols``, við hann hins vegar sem eiga að verða lögformlega bindandi plögg eftir að hafa hlotið staðfestingu þar til bærra yfirvalda í aðildarlöndum að orkusáttmálanum. Þessir fjórir hópar eru: Vinnuhópur tvö sem vinnur að grunnsamningnum, vinnuhópur þrjú sem vinnur að bókun um bætta orkunýtingu, vinnuhópur fjögur sem vinnur að bókun um kolvetni í orkugjöfum og vinnuhópur fimm sem vinnur að bókun um kjarnorku. Starf í þessum vinnuhópum hófst í lok liðins árs. Þátttöku Íslendinga í þessari vinnu hefur verið háttað þannig að sendiráð Íslands í Brussel hefur safnað saman öllum fram komnum gögnum á þeim fundum sem þessir vinnuhópar hafa haldið og sent þau iðnrn. og orkumálastjóra. Orkumálastjóri, Jakob Björnsson, hefur setið tvo fundi í þeim vinnuhópi sem mestu máli skiptir að mínu áliti, þeim sem fjallar um grunnsamninginn. Við erum í samráði og samstarfi við Norðurlöndin, einkum Noreg í þessu máli og munum halda því áfram. Þetta mál er því á dagskrá ráðherrafunda og embættismanna nefndarfunda norrænu ráðherranefndarinnar á sviði orkumála en í henni sitja starfsmenn iðnrn., Kristmundur Halldórsson og Jón Ingimarsson. Með þessu hef ég einnig svarað annarri af spurningum hv. þm., nefnilega þeirri spurningu hverjir það eru sem starfa að þessum undirbúningi. Grunnsamningurinn er undirstöðuskjal í þessum samningi og það af skjölunum sem ég hef nefnt sem mestu máli skiptir.
    Í öðru lagi spyr hv. þm. í hverju starfið sé fólgið og hverjir eigi þar hlut að máli, sem ég hef þegar svarað, og að hvaða áföngum sé stefnt á þessu ári. Hugmyndir og tillögur um texta þessara samninga og bókana eru lagðar fram í fyrsta lagi af sérstakri undirbúningsskrifstofu þessarar ráðstefnu um orkusáttmála Evrópu sem hefur vinnustað í Brussel. Í öðru lagi er þar fjallað um tillögur einstakra aðildarlanda og í þriðja lagi um tillögur ríkjasambanda eins og Evrópubandalagsins og Samveldis sjálfstæðra ríkja, fyrrverandi Sovétríkjanna. Vinnan er fólgin í því að kanna og ræða þessi atriði og meta hvernig íslenskum hagsmunum verður best borgið í hverju máli. Grunnsamningurinn mun væntanlega taka lengstan tíma, að því talið er, enda er hann meginskjalið í málinu. Það er stefnt að því í orði kveðnu að ljúka honum um mitt þetta ár. Ég tel hins vegar mjög ólíklegt miðað við núverandi stöðu mála að það muni takast. Mér finnst ýmislegt benda til þess að menn hafi þar færst of mikið í fang í upphafi og verði að takmarka sig meira til að ná samkomulagi, þ.e. upp hafi verið lagt með samkomulag um fleiri atriði en líkur séu til að samkomulag náist um. Slíkar breytingar á grunnsamningnum munu taka verulegan tíma.
    Í þriðja lagi spyr hv. fyrirspyrjandi hver séu helstu álitamálin sem uppi séu í þessari vinnu eða þeirri sem fram undan er. Ég er búinn að lýsa því að mikið sé óunnið við að ræða og stilla saman fram

komnum hugmyndum og tillögum sem eru ,,legíó``. Álitaefnin eru mörg og fjalla um flest meginsvið málsins. Þess vegna býst ég við að vinnan við að ganga frá bæði grunnsamningnum og bókununum þremur geti tekið lengri tíma en menn töldu í upphafi. Ég ætla að nefna nokkur dæmi, virðulegi forseti, um álitaefni í grunnsamningnum. Þar er í fyrsta lagi ákvæði um framkvæmd reglunnar um fullveldi ríkja og fullveldisyfirráð þeirra yfir sínum orkulindum sem hv. þm. nefndi reyndar og ég tel mikilvægt skilyrði fyrir okkar aðild af þessu tagi. Í öðru lagi nefni ég ákvæði um afnám hafta í viðskiptum með orku og bann við mismunun eftir þjóðerni eða uppruna orkunnar. Í þriðja lagi ákvæði um aðgang að orkumörkuðum. Þessi tvö ákvæði sem ég nefni síðast eru Íslendingum, sem hugsanlegum orkuútflytjanda, mjög mikilvæg. Ég nefni í fjórða lagi ákvæði um flutninga, ,,transport``, og gegnumflutninga, ,,transit``, á orku og orkuafurðum. Ég nefni í fimmta lagi ákvæði um umhverfismál er snerta vinnslu, umbreytingu, flutning, dreifingu og notkun á orku og orkuafurðum. Ég nefni í sjötta lagi ákvæði um eflingu fjárfestinga, meðhöndlun þeirra og verndun. Ég nefni í sjöunda lagi ákvæði um meðferð á deilumálum milli aðila sáttmálans. Ég nefni í áttunda lagi ákvæði um tilhögun á stjórnsýslu við framkvæmd grunnsamningsins.
    Hv. þm. spyr enn að hve miklu leyti verði um lagalega bindandi ákvarðanir að ræða samkvæmt fyrirliggjandi hugmyndum og hvers eðlis þær lagakvaðir muni verða. Þar vil ég nefna í örstuttu máli að gert er ráð fyrir að bæði grunnsamningurinn og bókanirnar við orkusáttmálann verði lagalega bindandi eftir að þau hafa verið staðfest af yfirvöldum í aðildarlöndunum á sama hátt og aðrir alþjóðasamningar sem þurfa að hljóta staðfestingu yfirvalda til að öðlast gildi eins og t.d. hafréttarsáttmálann.
    Sjálfur orkusáttmálinn sem undirritaður var 17. des., eins og hv. fyrirspyrjandi réttilega nefndi, er aftur á móti stefnumarkandi yfirlýsing aðildarríkjanna án lögformlegrar skuldbindingar.
    Í svari við þriðju spurningunni er ég þegar búinn að lýsa helstu efnisatriðum og ég vil, með leyfi forseta, að lokum segja þetta: Við verðum að skoða orkumálin á Íslandi í alþjóðlegu samhengi. Það þekkjum við auðvitað af langri reynslu með samninga um orkusölu til stóriðju en hugmyndir um orkusölu beint til útflutnings gera það auðvitað enn brýnna. Og ef við horfum fram á við og lítum á það stórverkefni á næstu áratugum að tengja Ísland við orkukerfi Evrópu með sæstreng að þá getum við ekki gert þann draum að veruleika nema með því að tryggja að íslensk orka hafi hindrunarlausan aðgang að orkukerfi Evrópu. Þar kemur ekki síst til skjalanna orkusáttmáli Evrópu sem hér er kominn til umræðu.