Jöfnun á húshitunarkostnaði

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 12:55:00 (5057)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Ekki veit ég hvað dugir til þess að Landsvirkjunarrisinn vakni af sínum væra blundi og fari að huga að því að standa við sinn hlut í því að lækka húshitunarkostnað á landsbyggðinni. Það liggur auðvitað fyrir að það var grundvallaratriði í þeirri þáltill. sem ekki náði afgreiðslu á Alþingi, því miður, að Landsvirkjun tæki á í því að lækka húshitunarkostnaðinn á hinum svokölluðu köldu svæðum. Því miður hefur hið gagnstæða gerst. Á síðasta ári hækkaði Landsvirkjun sín gjaldskrárverð þrívegis, alls um nær 16% eins og fram kom í svari hæstv. iðnrh. við fsp. minni hér á Alþingi 21. nóv. sl. Þannig má segja að Landsvirkjun hafi gert hið gagnstæða við það sem til var ætlast í þessari þáltill. Það er auðvitað rétt að hæstv. ríkisstjórn stóð við sinn hluta málsins með því að auka niðurgreiðslurnar og það er vel og ég fagna því. En hitt stendur eftir að Landsvirkjun hefur ekki staðið við sinn hlut og það blasir við að afskriftarpólitík Landsvirkjunar gerir það að verkum að það er verið að leggja auknar og óréttlátar og tilefnislausar byrðar á þá sem nú nota orkuna frá Landsvirkjun. Nauðsynlegt er að brugðist sé mjög harkalega við því hvernig Landsvirkjun virðist leika hér nánast einleik í þessu máli, alveg án tillits til stefnu stjórnvalda og vilja þingsins í þessum efnum.