Jöfnun á húshitunarkostnaði

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 12:59:00 (5060)

     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þar kemur fram að hann hefur fullan hug á því að vinna áfram að þessu máli. Hann tók einnig vel í þá aukafyrirspurn sem ég kom með um að Þjóðhagsstofnun kæmi með greinargerð um málið. Ég vil líka benda á það eins og kom fram í máli hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar að Landsvirkjun hækkaði taxta sína þrisvar á árinu 1991 um 5% í hvert skipti. Hún hækkaði þá sem sagt um 16% en á sama tíma hækkaði framfærslukostnaðurinn ekki nema 14--15%. Taxtar Landsvirkjunar hækkuðu umfram framfærslukostnað.
    Jafnframt því sem niðurgreiðslur ríkissjóðs voru á síðasta ári miðaðar við 30 þús. kwst. notkun á íbúð á ári þá höfðu þær þó áður verið miðaðar við 40 þús. kwst. En orkuverðsjöfnunarnefnd, sem hæstv. ráðherra vitnaði til áðan, lagði reyndar til að miðað væri við 35 þús. kwst. Hæstv. ríkisstjórn lækkaði sem sagt viðmiðunina enn þá meira eða í 30 þús. kwst. notkun. Það sem stendur eftir og hefur ítrekað komið fram í umræðum um þessi mál á Alþingi er að orkureikningar á þessum svæðum hafa ekkert lækkað í krónum talið þó að verðbólgan sé í lágmarki. Og það er náttúrlega það sem fólk í dag horfir á, það misvægi sem hér er í gangi og þess vegna erum við þingmenn sífellt að minna á þetta mál vegna þess að ég m.a. tel að eitt stærsta málið í því að jafna aðstöðu byggða úti um landið sé að jafna húshitunarkostnaðinn.