Jöfnun á húshitunarkostnaði

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 13:02:00 (5061)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í svari mínu áðan verður þeim tilmælum beint til orkufyrirtækjanna að þau taki frekari þátt en þau hafa gert í viðleitni til að jafna húshitunarkostnaðinn. Hv. 4. þm. Austurl. gerði áðan kynduga athugasemd svo ég noti hans eigið lýsingarorð. Það er eins og hann muni ekki að í þáltill. fólst einmitt nokkuð merkilegt nýmæli, nefnilega að Alþingi setti hinum þingkjörnu stjórnarmönnum í Landsvirkjun það verkefni að vinna að þessu máli. Og ég leyfi mér að inna eftir því hvort vitað sé að þeir sem sitja í stjórn Landsvirkjunar fyrir stjórnarandstöðuna hafi hreyft orkuverðsjöfnunarmálinu innan þeirrar stjórnar. Ég tek skýrt fram að ég tel að þeir hefðu þar nokkrar skyldur hefði þetta verið samþykkt en það var ekki gert. (Gripið fram í.) Ég bið virðulegan þingmann að sitja á strák sínum í þessu máli. Ég tel að þar hafi ekki komið fram vilji til að beita þessari nýju aðferð og málið var þess vegna lagt, eins og hv. þm. nefndi, í hendur framkvæmdarvaldsins. Þar mun ég vinna að því eftir því sem fjárhagslegt vit og skynsemi stendur til. Við erum ekki að tala um að mál séu leyst með einföldum viljayfirlýsingum úr ræðustólum. Við þurfum að finna fjármuni til þess að sinna þessu án þess að setja rekstrarkjör og eignarstöðu þessara fyrirtækja í hættu. Þess vegna var það skynsamlegt hjá hv. 6. þm. Vestf. að nefna til sögunnar langtímaverðlagsstefnu Landsvirkjunar og reyndar er það mál sem huga þarf að, sérstaklega ef breytingar í skynsemisátt á skipulagi orkumála verða hér gerðar á næstu árum, hvernig jöfnunarþættinum í sambandi við orkuna verði best fyrir komið. Ég tel að ríkisvaldið eigi að einangra þann þátt og taka hann inn á fjárlög en láta fyrirtækin sem allra mest bera ábyrgð á sínu starfi, sínum rekstri og sínum eignum upp á þær tekjur sem þau afla sér sjalf. Þannig er þessu enn ekki fyrir komið hjá okkur en það er næsta mál.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég nefna vegna þess sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, 6. þm. Vestf., að það er vissulega rétt að gjaldskrár hækkuðu á árinu sem liðið er. Það er þó svo að gjaldskrá hjá RARIK fyrir 30 þús. kwst. notkun á ári er lægri í krónum talið 1. febr. 1992 en hún var í ársbyrjun 1991. Þetta á við um 30 þús. kwst. notkun. Sú tala var valin af framkvæmdarvaldinu til þess að styðja sem best við bakið á þeim sem eru í minna húsnæði sem yfirleitt er ávísun á erfiðari kjör. Þarna var um val að ræða sem ég tel að hafi verið stutt rökum til þess að nýta takmarkaða fjármuni sem best, einmitt í jöfnunarskyni en ég skildi spurningu hv. 6. þm. Vestf. þannig að það væri það sjónarmið sem hún bæri fyrir brjósti.