Staða karla í breyttu samfélagi

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 13:16:00 (5065)

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég skil vel þann fyrirvara sem hæstv. félmrh. gerði í lok máls síns varðandi það hvað hún mundi gera með tillögur eða niðurstöður nefndarinnar. Það get ég vel skilið í ljósi þess sem við heyrðum frá 1 / 7 hluta nefndarinnar, þ.e. einum nefndarmanni. Það er svo mál út af fyrir sig hvort menn gefa gaum að slíku og telja það efni til að fjalla um á Alþingi Íslendinga. Ég hef áhyggjur þegar slík sjónarmið koma frá mönnum eða í þessu tilviki einstaklingi sem er sýndur sá trúnaður að vera settur í stjórnskipaða nefnd og túlkar mál sitt með þeim hætti sem ég vitnaði til og var það þó aðeins brot af, að mínu mati, mjög brengluðu mati á stöðu mála og í rauninni sett fram þannig að hér var verið að hafa mikið alvörumál að fíflskaparmáli. Þetta tel ég hljóti að vera umhugsunarefni fyrir þann ráðherra sem stendur fyrir nefndarstarfi með þessum hætti.
    Það sem ég óttast er að þetta nefndarstarf leiði ekki til jákvæðrar niðurstöðu, þ.e. það sé tekið á vandamálum sem vafalaust hefur verið hugmynd ráðherrans að gert væri með þeim hætti að það laðaði til lausna í samstarfi kynja þar sem samstarf er auðvitað skilyrði fyrir farsælli lausn en verði ekki notað til þess að skerpa andstæður eins og mér sýnist að sé stefnt að með þeim málflutningi sem þarna var uppi hafður og kjamsað á í fjölmiðlum. Ég tel að í rauninni hljóti áhyggjur okkar fyrst og fremst að beinast að stöðu kvenna í samfélaginu og því sem þar hallar á í vaxandi mæli einmitt núna þessi missirin, m.a. fyrir tilverknað ríkisstjórnar Íslands og þeirra ákvarðana sem meiri hluti þingmanna hefur tekið á Alþingi Íslendinga. Það eru umræðuefni, það ætti að vera verkefni fyrir stjórnvöld og ráðherra jafnréttismála og svo auðvitað að skoða mál sem tilgangurinn var með með þessu nefndarstarfi og reyna þá að stuðla að því að það sé gert með sæmilegum hætti þannig að það laði fram sjónarmið sem séu líkleg til að vera jákvæð en ekki til að skerpa andstæður sem eru nógu skapar fyrir. Ef umræða um þessi mál gæti orðið til þess að þarna yrði breyting á tel ég ómaksins vert að hafa borið fram þá fsp. sem ég hef hér flutt. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svör hennar, efnisleg svör hennar við þessari fsp., og ég er ekki í vafa um að hún mun hafa áhyggjur af þeim sjónarmiðum sem hér var vitnað til.