Norræna ráðherranefndin 1991--1992

117. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 13:56:00 (5067)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Hér er fram haldið umræðu um norræn málefni á grundvelli þriggja skýrslna sem dreift var á þingi fyrir allnokkru síðan. Við fyrri hluta þessarar umræðu hafði ég fjarvistarleyfi frá þingfundi og átti ekki kost á því vegna fjarveru að taka þátt í umræðunni. Mér var ekki ljóst að mælendaskrá væri tæmd en síst hefði ég á móti því að komast skjótt inn í þessa umræðu og þar er vissulega af mörgu að taka.
    Mér skilst að í fyrri hluta umræðunnar hafi einhverjir hv. ræðumenn beint máli til þess sem hér stendur vegna nýafstaðins Norðurlandaráðsþings og atriða sem því tengjast. Ég hef ekki gefið mér tíma til að fara nákvæmlega yfir umræðuna svo að það verður ekki byggt á neinum tilvitnunum sem ég kann að víkja að þeim þáttum. En þar sem ég tel mig vita nokkurn veginn á hvaða grunni sá málflutningur var byggður kem ég kannski aðeins að því. En það eru hrein aukaatriði í sambandi við þau efni sem við hljótum að ræða varðandi Norðurlandaráðsmálefnin sem tengjast nýafstaðinni umræðu á Norðurlandaráðsþingi fyrir um það bil mánuði síðan. Það er sú umræða og það sem tengist henni sem ég ætla að gera að uppistöðu í mínu máli nú. Auðvitað tengist hún með vissum hætti þeirri umræðu sem hér fór fram síðustu tvo daga um skýrslu hæstv. utanrrh. Við hljótum hins vegar að þrengja svolítið sjónarhornið þegar við ræðum um norræn málefni afmarkað en þó getum við ekki rætt þau án skýrra tengsla við þá umræðu sem snertir Evrópu alla. Því vænti ég þess, virðulegur forseti, að mér leyfist í umræðu um þessa skýrslu að víkja að málum í því samhengi jafnhliða þar sem þetta er svo nátengt og samofið.
    Þetta 40. þing Norðurlandaráðs sem haldið var í Helsinki 3.--6. mars var að formi til með hefðbundnu sniði. Almenn umræða með mikilli þátttöku var að vanda í upphafi þingsins og síðan umræða og afgreiðsla á málum frá nefndum ráðsins. Síðasta þingdaginn var sérstök umræða um Norðurlönd eftir 1992. Hún var vissulega mjög skyld hinni almennu umræðu þar sem Evrópumálin voru meginumræðuefni. Það var hins vegar nýmæli á þinginu að þar flutti ræðu sérstakur boðsgestur forsætisnefndar ráðsins sem var Helmut Kohl, kanslari Þýskalands, fyrsti þjóðarleiðtoginn sem kemur inn á þennan vettvang sem gestur og ávarpar Norðurlandaráð með þessum hætti. Ég tel að koma hans og það uppátæki að bjóða honum til þingsins hafi verið mjög táknræn. Út af fyrir sig ætla ég ekki að gagnrýna það að Helmut Kohl kom á þennan vettvang, það var auðvitað fróðlegt fyrir menn að heyra hans málflutning, ekki síst vegna þess að hann talaði þar býsna skýrt og miklu skýrar en forsætisráðherrar Norðurlanda gerðu margir hverjir á þinginu eins og ég kem aðeins að síðar.
    Þess var minnst á þinginu að Norðurlandaráð hefur starfað um fjörutíu ára skeið og haldinn sérstakur hátíðarfundur af því tilefni. Esko Aho, forsætisráðherra gestalandsins, Finnlands, þar sem við þinguðum, var hátíðarræðumaður þarna á fundinum. Undirtónninn í hans ræðu var vissulega fróðlegur og umhugsunarverður. Þar kom fram endurkast frá stöðunni í finnskum stjórnmálum þessa dagana en finnski forsætisráðherrann hafði einmitt verið upptekinn við það um þetta leyti að knýja finnska stjórnmálamenn til að skrifa upp á ásetning ríkisstjórnar sinnar um að senda inn umsókn um aðild Finnlands að Evrópubandalaginu. Það kom glöggt fram í þessari hátíðarræðu. Mér fannst það mjög á mörkunum að nota tilefnið með þessum hætti en þetta var skilmerkilega og vel flutt af þessum tiltölulega unga forustumanni í finnskum stjórnmálum. Þarna var sett fram spurningin um það hvort þjóðríkið sé orðið úrelt fyrirbæri. Það er sannarlega athyglisvert að slíkt skuli vera eitt meginþema í hátíðarræðu á Norðurlandaráðsþingi. Hins vegar er það alveg réttmætt í ljósi þeirra atburða sem eru að gerast á Norðurlöndunum mörgum hverjum og er umræðuefni þar, þ.e. spurningin um að leggja af þjóðríkin í þeirri mynd sem við þekkjum þau og gangast undir sprota Evrópustórveldis sem er í uppsiglingu. Því neita fáir að það ríki er að

koma til undir ægishjálmi sameinaðs Þýskalands. Það var því táknrænt að það var ríkisleiðtogi Þýskalands sem var þarna kominn til að flytja hátíðarræðu og gera mönnum nokkuð ljósa kostina sem þeim væru búnir sem ætluðu að koma undir þennan hjálm.
    Það er rétt, finnst mér, að nefna það af því að ég ætla að leyfa mér að fjalla hér um hvernig málatilbúnaður var á þinginu að því er snertir Evrópumálin og þar sem ég á sæti í þeirri nefnd Norðurlandaráðs sem skilaði af sér afurðum til þingsins, þ.e. efnahagsnefndinni sem nú er aðeins þrettán manna en nefndarmenn voru rúmlega tuttugu fram að síðasta ári er breytingar voru gerðar. Ég er nú eini íslenski fulltrúinn í þessari nefnd en við áttum áður tvo fulltrúa.
    Í sambandi við aðaldagskrármálin þá lágu fyrir þinginu skjöl varðandi framtíð norræns samstarfs sem hér greinir: Það var í fyrsta lagi yfirlýsing forsætisráðherra Norðurlanda frá 2. mars ásamt áfangaskýrslu persónulegra fulltrúa þeirra. Í öðru lagi var tillaga norrænu ráðherranefndarinnar um norræna samvinnu eftir 1992 og hæstv. samstarfsráðherra Norðurlanda er tengiliðurinn inn í það samhengi. Í þriðja lagi var meginviðhorf forsætisnefndar Norðurlandaráðs, þ.e. forsætisnefndar ráðsins, um norrænt samstarf eftir 1992, kallað skjal II og lá fyrir á aukaþinginu í Mariehamn á Álandseyjum 11. nóv. sl. Í fjórða lagi var álit meiri hluta og minni hluta efnahagsnefndar Norðurlandaráðs um ráðherraráðstillöguna og um tillögur sem fjallað hafði verið um af flokkahópum, einkum sósíaldemókrötum og hægri mönnum um framtíð norræns samstarfs.
    Mjög örar breytingar urðu á framsetningu um þetta efni stuttu fyrir þingið. M.a. kom tillaga hægri manna fram daginn áður en þingið hófst sem og yfirlýsing forsætisráðherranna. Það var auðvitað fremur óheppilegt að þessi málatilbúnaður skyldi renna svona saman og koma svona seint fram. Það var efnahagsnefndin sem þurfti að funda um þessi efni eftir að þingið hófst og skilaði ekki endanlegum tillögum sínum fyrr en, að mig minnir, á fimmtudag í þingvikunni. Þá var hún klofin í meiri hluta og tvo minni hluta sem þar skiluðu tillögum. Ég var fulltrúi annars þessa minni hluta og hlýt hér að gera grein fyrir því með hvaða hætti ég stóð þar að málum. Mér finnst Alþingi rétti vettvangurinn til að gera grein fyrir því. En áður en að því kemur vil ég fjalla nokkuð um önnur málsskjöl sem þarna liggja fyrir.
    Í yfirlýsingu forsætisráðherra Norðurlanda segir m.a., og þar styðst ég við eigin þýðingu sem verður að teljast lausleg þó að ég hafi reynt að vanda til hennar, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Í náinni framtíð koma fleiri Norðurlönd til með að semja um aðild að EB. Þar af leiðandi er nauðsynlegt að endurmeta norrænt samstarf út frá þeim aðstæðum að öll eða flest Norðurlönd séu meðlimir EB. Norræn samvinna nær nú til að heita má allra samfélagssviða. Nánari tengsl Norðurlanda við EES/EB-samstarfið, leiðir til þess að úrlausn allmargra mála sem snerta frelsin fjögur og sumpart einnig tengd svið gerist fyrst og fremst annars staðar en á norrænum vettvangi.`` --- Ég vil vekja athygli þingheims á þessu orðalagi úr yfirlýsingu forsætisráðherranna. Það er ekkert annað en að allt EES/EB-sviðið muni fyrst og fremst gerast annars staðar en á norrænum vettvangi. --- ,,Hið sérnorræna samstarf kemur til með að þjappast saman á færri sviðum. Þróun samráðs á sviði utanríkis- og öryggismála og áframhaldandi samráð um mikilvæg evrópsk efni eru tvö meginatriði fyrir ríkisstjórnina sem forsætisráðherrarnir vilja leggja sérstaka áherslu á. Með hliðsjón af því að Norðurlöndin hafa ólík tengsl og skuldbindingar á þetta samráð að vera á frjálsum grunni og ekki bindandi.`` --- Takið eftir því. --- ,,Það er ekki á dagskrá að hafa norræna talsmenn í evrópskum samstarfsstofnunum.``
    Í framhaldi af þessu leggja forsætisráðherrarnir áherslu á að auka samstarfið milli ríkisstjórna Norðurlanda ,,til að unnt sé að gæta sameiginlegra norrænna hagsmuna innan ramma evrópskrar samvinnu``. Í þessu skyni er rætt um í fyrsta lagi að auka hlut forsætisráðherranna í norrænni samvinnu og hafi þeir til skiptis forustu í sínum hópi. Í öðru lagi beri stig af stigi að aðlaga hina ýmsu norrænu samstarfsvettvanga, eða ,,fora`` eins og það er kallað á þessari samskandínavísku, að hinni nýju evrópsku samvinnu. Þetta á jafnt við um þingmannasamstarf og starf á vegum norræna ráðherraráðsins.

    Orðrétt segir: ,,Það er mikilvægt að núverandi form séu sumpart löguð að kröfum sem leiða af þátttöku í áframhaldandi evrópskum samruna og séu sumpart sniðin að sveigjanlegra og óformlegra samstarfi.``
    Gert er ráð fyrir að persónulegir fulltrúar ráðherranna ljúki starfi sínu fyrir fund forsætisráðherranna á Borgundarhólmi 17.--18. ágúst 1992.
    Þá vil ég nefna hér tillögu norræna ráðherraráðsins. Í tillögu þess, þ.e. ríkisstjórnarvængs hins norræna samstarfs, sem er dagsett 17. jan. 1992, er gerð úttekt á norrænu samstarfi með sérstöku tilliti til væntanlegs EES-samnings. Farið er yfir samstarfssviðið, málaflokk eftir málaflokk og þeim gefnar einkunnirnar óbreytt, minni áhersla eða ,,nedprioritering`` eins og það er kallað á stofnanaskandinavísku og aukin áhersla eða ,,opprioritering`` með tilliti til áframhaldandi samstarfs. Svið sem leggja þurfi á aukna áherslu eru m.a. talin vera umhverfismál í heild sinni og innan menningarmálasviðs einkum fjölmiðlar og æskulýðsmál. Svið sem leggja megi minni áherslu á í norrænu samhengi eru m.a. talin vera stór hluti á sviði atvinnu- og efnahagsmála, þar með taldar fiskveiðar, orkumál og flutningar. Svið sem EES-samningur hefur lítil áhrif á og þar sem gert er ráð fyrir óbreyttu samstarfi eru m.a. menningar- og menntamál, rannsóknastarfsemi og samvinna um löggjafarmálefni. Þá er fjallað um aðlögun norrænna stofnana að þessum breytingum, m.a. um embættismannanefnd og skrifstofu, án þess að gerðar séu beinar tillögur þar að lútandi á þessu stigi. Víða í tillögum ráðherraráðsins er vísað á óformlegt samstarf í formi svokallaðrar NETVERK-samvinnu sem tekið geti við af formlegu samstarfi, m.a. á sviði fjármála og atvinnumála.
    Ég vek athygli á að þessi NETVERK-framsetning felur í sér óskuldbindandi óformlegt samstarf og það er í rauninni ekki hægt að átta sig á því hvert verið er að vísa í því samhengi. Ekki er aðeins verið að vísa í frjáls félagasamtök, samtök atvinnulífs o.s.frv., heldur einnig það sem verið hefur viðfangsefni hins opinbera þáttar í þessu samhengi milli norrænna ríkja á Norðurlandavettvangi, að færa það í svona algjörlega óformlegt NETVERK-samstarf.
    Gert er ráð fyrir að efla samstarf Vestur-Norðurlanda eða Vestnorden eins og það er kallað. Um það efni liggur fyrir sérstök úttekt frá vinnuhópi sem Jón Júlíusson var formaður fyrir og kallast sú skýrsla ,,Vestnorden, fremtid, forslag til tiltak for styrking af det Vestnordiske samarbeide.`` Hún er dagsett 27. nóv. 1991.
    Samnorrænu fjárlögin eiga að endurspegla ákveðin áherslusvið og að skera niður fjölda verkefna eða ,,projekter`` er áherslan í þessari tillögu ráðherraráðsins. Skera á niður fjölda verkefna sem fá fjárhagsstuðning, segir í þeirri álitsgerð.
    Síðan ætla ég að víkja að umfjöllun og áliti efnahagsnefndar Norðurlandaráðs. Efnahagsnefnd Norðurlandaráðs, sem ég á sæti í eins og ég hef greint frá, hefur fjallað um efnið ,,Norðurlönd eftir 1992`` frá því vorið 1991. Það var reyndar vinna sem fór af stað á sumarfundi nefndarinnar sem haldinn var í Vestmannaeyjum. Þá var settur niður fimm manna vinnuhópur með einum fulltrúa frá hverju landi og átti ég sæti í honum sem fulltrúi héðan eða sjálfskipaður í rauninni sem eini íslenski fulltrúinn í nefndinni. Skiluðu fjórir úr hópnum, þar á meðal undirritaður, áliti í formi tillögu til Norðurlandaráðs um eflingu norræns samstarfs. Þetta er þingskjal eftir Norðurlandaskráningu A 974/E og lá tillagan fyrir aukaþinginu í Mariehamn í nóvember 1991 þar sem henni var vísað ásamt fleiri hugmyndum í framhaldsúrvinnslu. Eftir aukaþingið hefur efnahagsnefndin fjallað um tillögur ráðherraráðsins og tillögur flokkahópa sem voru að berast alveg fram að þinginu í Helsinki. Efnahagsnefndin fékk m.a. álit annarra nefnda ráðsins á ráðherraráðstillögunni. Drög að nefndaráliti sem fyrir lágu um ráðherraráðstillöguna 17. febr. sl. og undirbúin voru af ritara nefndarinnar voru þess eðlis að undirritaður, sá sem hér stendur, hefði ekki þurft að gera við þau margar athugasemdir. Þá kom hins vegar fram tillaga frá flokkahópi sósíaldemókrata og síðan einnig frá flokkahópi hægri manna sem breyttu öllum viðhorfum og málsmeðferð í nefndinni á síðasta stigi dagana fyrir þingið. Þessar tillögur höfðu það sameiginlegt að norrænt samstarf var sett í samhengi Evrópusamrunans, EES-samnings og líklegrar aðildar Norðurlanda, annarra en e.t.v. Noregs og Íslands, að Evrópubandalaginu, svo

ég vitni í framsetninguna eins og hún var á þessum tíma af hálfu þessara flokkahópa. Talað er þarna um Norðurlönd og, með orðréttri tilvitnun í texta, ,,sem svæði innan Evrópu``. Þetta hugtak kemur víða fram í þessu sambandi og talað um norræna samvinnu sem svæðissamstarf innan Evrópubandalagsins.
    Við umræður 1. mars um þessar tillögur í nefndinni kom fram harður ágreiningur um vinnubrögð, þ.e. undirbúning að nefndaráliti. Formaður nefndarinnar flutti tillögu um það að vinnuhópur, skipaður einum fulltrúa frá hverjum flokkahópi, fjallaði um drög að nefndaráliti en sú tillaga var felld, tillaga formannsins sem er ættaður úr Miðflokknum sænska, og þess í stað samþykkt tillaga sósíaldemókrata um fjögurra manna vinnuhóp sem skipaður var tveimur krötum, einum hægri manni og einum frá miðflokkahópnum. Með þessu var því hafnað af meiri hluta efnahagsnefndarinnar að leita að samnefnara til að freista þess að skila einni niðurstöðu. Klofningur í nefndinni var þar með innsiglaður.
    Carl I. Hagen, fulltrúi frjálshyggjuhópsins, hafði áður en þetta gerðist lagt fram drög að séráliti þess efnis að leggja bæri niður formlegt samstarf Norðurlanda og Norðurlandaráð ekki seinna en 1996. Óskaði hann ekki eftir sæti í vinnuhópnum þannig að menn höfðu ekki þann kross að bera. Málið snerist því um það hvort sá sem hér stendur, sem fulltrúi úr hópi vinstri sósíalista, ætti að eiga þar sæti. Því var hafnað og síðan kom og var kokkað utan nefndar að sjálfsögðu í þessum vinnuhópi breiðfylkingar hægri manna, miðflokksmanna og sósíaldemókrata, álit þar sem m.a. er að finna eftirfarandi yfirlýsingar. Ég tek strax fram að þetta er álit sem stutt var af öllum íslensku fulltrúunum á þinginu nema fulltrúa Kvennalistans og þeim sem hér talar án athugasemda. Þar segir m.a. orðrétt: ,,Að svæðisbundið samstarf Norðurlanda sé mikilvæg viðbót við samstarf í EES og/eða EB.`` --- Viðbót eða ,,supplement``.
    Í öðru lagi ,,að í samningaviðræðum um aðild að EB verði leitt í ljós hvernig norrænt samstarf verði aðlagað EB-rétti.`` Takið eftir vel eftir þessu. Ég tek eftir að ýmsir leggja við hlustir, m.a. hv. 2. þm. Austurl. Þetta var stutt af miðflokkahópnum og fulltrúa Framsfl. á þinginu athugasemdalaust: ,,Í samningaviðræðum um aðild að EB verði leitt í ljós hvernig norrænt samstarf verði aðalagð að EB-rétti.`` Og enn er kveðið: ,,Að krafturinn [þ.e. intensitet] og möguleikar í samstarfi Norðurlanda geti aukist ef öll Norðurlönd verða meðlimir í EB.`` Það er matið að á þeim forsendum geti krafturinn aukist. Ég er svo sem ekkert hissa þó að alþýðuflokksmenn og sjálfstæðismenn sem eru að hluta til komnir með hugann inn í þetta samstarf hafi verið þarna uppáskrifendur. En að Framsfl., íslenski miðflokkurinn, standi þarna að án athugasemda voru mér nokkur tíðindi og reynsla.
    Og áfram segir: ,,Það liggur í eðli samrunans að einnig einkennandi norræn málefni`` --- ég hef reynt að þýða orðin ,,nordiske mærkesager`` sem einkennandi norræn málefni --- ,,á ákveðnum sviðum þarfnast að vissu marki aðlögunar og þróunar eftir því sem samrunanum þokar fram.``
    Í sjálfum ályktunartexta meiri hluta nefndarinar, sem kratar, hægri menn og fulltrúar miðflokkahópsins mynduðu, stendur m.a. orðrétt að Norðurlandaráð mæli með því ,,að byggja upp norræna samvinnu um frelsin fjögur með hliðsjón af því að komið verði á fót Norðurlöndum án landamæra innan ramma EES-samningsins og síðar EB-aðildar fyrir öll eða flest Norðurlönd.``
    Það var um þetta sem hin stóra breiðfylking á þingi Norðurlandaráðs var að greiða atkvæði. Þetta er kjarninn. Þetta er gert áður en menn eru búnir að gera upp málin í þjóðþinginu. Áður en flokkar á Íslandi hafa tekið formlega afstöðu til mála, þá eru menn að skrifa upp á það á þessum fjölþjóða vettvangi, aðlaga það norræna samstarf sem hefur verið samstaða um í utanríkisstefnu Íslendinga, að færa það undir merki EB-réttar, EES-samnings og aðildar að Evrópubandalaginu.
    Tillaga þessi, sem þetta var brot úr, gerir ráð fyrir að ráðherraráðið umsemji og þrói áfram tillögu sína sem þarna er í mótun og ég rakti yfirlýsinguna áðan og einnig eins og Norðurlandaráð leggur til og í ljósi hugmynda forsætisráðherra landanna. Eins og Norðurlandaráð leggur til er þessi samþykkt að tillögu meiri hluta efnahagsnefndar Norðurlandaráðs um að færa þetta allt undir merki EB-réttar. Hvað eru menn að gera á þessum

vettvangi? Ekki draga hugmyndir forsætisráðherra Norðurlanda úr þessum áherslum.
    Í því áliti sem ég skilaði sem minnihlutaáliti, og þar sem ekki var tekið undir álit og tillögur meiri hlutans, var mælt með því að Norðurlandaráð feli norræna ráðherraráðinu og ríkisstjórnum Norðurlanda eftirfarandi. Ég les þann texta, með leyfi forseta:
  ,,1. Að leggja áherslu á að efla norrænt samstarf óháð tengslum hinna ýmsu landa við EB. Það getur ekki verið aðalhlutverk Norðurlandaráðs að aðlaga sig Evrópusamveldinu eða smækka sjálft sig niður í norrænt útibú í Brussel.
    2. Að setja í forgang eftirfarandi samstarfssvið innan norrænnar samvinnu: Menningarmál, umhverfismál, atvinnumál, samfélagsmál, Evrópumál.
    3. Að styrkja áhrif þingkjörinna fulltrúa á norræna samvinnu með því að ákveða skýr, pólitísk norræn markmið. Ráðherranefndin verður að skipuleggja samstarfið þannig markvisst að Norðurlandaráð geti haft raunveruleg áhrif á töku ákvarðana.
    4. Að móta norrænar framkvæmdaáætlanir í nokkrum meginmálaflokkum, m.a. í atvinnumálum og skipulagsþætti (infrastruktur), heilbrigðis- og félagsmál og samvinnu við Eystrasaltslöndin og Kóla-svæðið.
    5. Að styrkja samvinnu í utanríkismálum á sameiginlegum áhugasviðum.
    6. Að haga starfi þannig að ráðherraráðið safni mikilvægustu áætlunum sínum á einn stað, t.d. í C-2 skjal (en það er sem sagt framtíðaráætlun sem lögð er fram frá ári til árs um þróun norræns samstarfs) sem fært er til nútíðar hverju sinni til að bæta yfirsýn og skapa skýra mynd fyrir pólitíska umræðu um þróun norræns samstarfs.
    7. Að láta kanna afleiðingar þess fyrir norræna samvinnu að fleiri Norðurlönd en nú er verði meðlimir í EB á sama tíma og önnur standi áfram utan þess.
    8. Að sem afleiðing af efldu samstarfi Norðurlanda verði fjárlagaramminn stækkaður á komandi árum og ráðið beiti sér fyrir að það taki aukna ábyrgð á norrænu fjárlögunum.``
    Þetta var tillaga mín sem gekk til atkvæða á þinginu, tillaga sem við í svonefndum flokkahópi vinstri sósíalista stóðum einhuga að og ég kem hér að því hvernig atkvæði féllu á þinginu um þessi meginmál.
    Tillaga minni hlutans, svo ég komi að því fyrst, sem ég kynnti hér var felld með 65 atkvæðum gegn 7 en 1 sat hjá. Fjarstaddir voru 13. Þeir sem greiddu tillögunni atkvæði voru 5 úr hópi vinstri sósíalista af 6, einn fulltrúi var farinn til síns heima. Fulltrúi Kvennalistans og Lauri Metsämäki, finnskur sósíaldemókrati, og hann flutti enga atkvæðaskýringu, ég vænti þess að hann hafi ekki ýtt á skakkan hnapp heldur hafi þar búið sannfæring að baki. Fulltrúi norska Miðflokksins, Johan J. Jakobsen, sat hjá.
    Tillaga meiri hlutans var samþykkt með 66:6 atkvæðum. Tveir skiluðu auðu og 13 voru fjarstaddir. Þeir sem greiddu atkvæði gegn tillögunni voru 5 úr hópi vinstri sósíalista, 1 var farinn heim og fulltrúi Kvennalistans. Þeir sem sátu hjá voru Johan J. Jakobsen frá norska miðflokknum og Håkan Nordman frá sænska þjóðarflokknum í Finnlandi.
    Viðaukatillaga við tillögu meiri hlutans var borin fram af sósíaldemókrötum þess efnis, og er tilvitnunin orðrétt: ,,að vinna að því að þróa og skapa skilning fyrir og stuðning við norræna samfélagsgerð í víðara evrópsku samhengi`` og var hún samþykkt með 38 atkvæðum sósíaldemókrata og vinstri sósíalista gegn 32 atkvæðum hægri og miðjumanna en 3 miðjumenn sátu hjá, Johan J. Jakobsen, Håkan Nordman og Marianne Jelved, sú síðasttalda fulltrúi Radikal venstre parti í Danmörku.
    Í fjórða lagi, svo því sé ekki gleymt, var tillaga frjálshyggjuhópsins um að leggja niður Norðurlandaráð felld með 70 atkvæðum gegn 4 atkvæðum svokallaðra líberíalista eða frjálshyggjuhópsins. Að henni felldri studdu þeir meirihlutaálitið þannig að sú breiðfylking stækkaði.
    Það sem m.a. vekur athygli við þessar atkvæðagreiðslur er sú staðreynd að allir íslensku þingfulltrúarnir eða fimm fulltrúar úr Íslandsdeild Norðurlandaráðs, þ.e. aðrir en fulltrúi Kvennalistans, og sá sem hér talar, studdu fyrirvaralaust álit meiri hlutans. Ég hef lesið nokkur atriði úr því áliti. Fulltrúi Framsfl., sem því miður hefur boðað fjarvist frá þessum fundi, því ég hefði svo gjarnan viljað eiga við hann orðastað, tók ekki þann kost sem

t.d. fulltrúar norska Miðflokksins völdu og fulltrúar úr fleiri hópum í sambandi við viðaukatillögur sósíaldemókrata. Hann valdi ekki þann kost að sitja hjá heldur studdi tillögu þessarar breiðfylkingar á EB-forsendum. Sá hinn sami greiddi atkvæði gegn viðaukatillögunni um stuðning við norræna samfélagsgerð sem og aðrir þingfulltrúar sjálfstæðismanna, því alþýðuflokksmaðurinn bættist þó í þann hóp sem studdi þá tillögu, og hún hlaut þannig atkvæði þriggja fulltrúa úr Íslandsdeildinni en fjórir voru á móti þeirri viðaukatillögu sem gerði þennan texta aðeins skárri þó í litlu væri og fékkst samþykkt gegn atkvæðum miðjunnar og hægri hópsins.
    Ég held að alveg nauðsynlegt sé að fyrir liggi hvernig þessi mál þróuðust þarna á þinginu, hvaða afstöðu menn tóku og hvaða sjónarmið menn studdu á þinginu. Það kannski segir mönnum eitthvað um það hvert hugur manna beinist á Alþingi Íslendinga um það eða hvaða áherslur við erum að leggja inn í þessa norrænu umræðu. Auðvitað komum við ekki til með að ráða ferðinni fyrir hin Norðurlöndin og kemur auðvitað engum til hugar. En við hljótum að taka á þessum málum á mótunarskeiði út frá þeim sjónarhóli að reyna að halda utan um norrænt samstarf og grundvöll þess eins og hægt er. Það gerum við ekki með því að styðja þau öfl á Norðurlöndum sem vilja taka þetta samstarf að verulegu leyti út af dagskrá og vísa í suðurátt, til Brussel, og segja: Við erum reiðubúnir að þróa norrænt samstarf sem svæðisbundna samvinnu innan ramma EES-samstarfs og EB.
    Menn hljóta að vita það á Alþingi og það var umræðuefni hér í gær í sambandi við skýrslu utanrrh. að gífurleg átök eru á Norðurlöndum nú um það innan flokka á þingum landanna og allt inn í ríkisstjórnir í löndunum hvaða stefnu beri að taka og þessi mál eru svo langt frá því að vera uppgerð. Það er svo langt frá því að úrslit séu ráðin í þessum efnum og menn eiga ekki að láta blekkja sig með því að þarna sé komin af stað einhver hraðlest til Brussel eins og hv. 3. þm. Reykv. nefndi hér í gær og sú brú sé órofa og óslitin og geri ekki nokkurn hlut með það múður sem er uppi að hans mati á Norðurlöndum, svona heyrist í manni og manni, en gefur sér það í framsöguhætti að þegar sé ráðið í hvaða átt verði keyrt. Svo er málið nú ekki sem betur fer og þá er spurningin: Hvernig standa Íslendingar með áhrif sín á þingi Norðurlandaráðs í þessum efnum? Hvaða lóð leggja þeir á vogarskálarnar? Auðvitað helgast sú afstaða að einhverju leyti og ekki litlu leyti út frá því hvaða framtíðarsýn þeir hafa fyrir Ísland í tengslum við Evrópu? Eru þeir að slást fyrir því að gerður verði EES-samningur og hafa þeir trú á því að hann verði gerður? Þá þurfa þeir auðvitað að átta sig á því hvaða afleiðingar hann hefur einnig fyrir norrænt samstarf. Eða eru þeir að hugsa um það að styðja þær hugmyndir sem nú eru komnar mjög hátt á dagskrá innan Alþfl. og hluta af ríkisstjórninni, að það beri að búa sig undir að Ísland sæki um aðild að Evrópubandalaginu?
    Ég skil mætavel að þeir sem eru komnir á þá skoðun að Ísland eigi einnig að tengjast því sem hefur verið kallað ,,hraðlestin til Brussel`` og hæstv. utanrrh. hefur í skýrslu sinni og ræðum hér í tengslum við hana haldið því mjög á lofti að það geti verið mjög álitlegt og freistandi, hann hefur notað það orð, freistandi að stíga þar um borð og tengja íslenska vagninn þarna aftan í eimlest þar sem Carl Bildt og Esko Aho eru lestarstjórarnir. Þetta getur maður skilið. Það er auðvitað alveg ljóst að fulltrúi Alþfl. --- sem ég sakna nú hér í þingsal. Er hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir ekki viðstödd umræðuna? Ég þykist taka eftir því að ekki sé mjög áreynslumikið fyrir hana að styðja þetta sjónarmið. Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að vitna til útvarpsviðtals sem haft var við tvo fulltrúa úr Norðurlandaráði, Rannveigu Guðmundsdóttur og Halldór Ásgrímsson, í svonefndu hringborði 8. mars sl. að loknu Norðurlandaráðsþingi. Þulurinn spyr: ,,Hvernig er það, hvað erum við að græða á þessu ef við getum sagt það svo meira en það að fá þarna að taka þátt í einhverri umræðu? Hvað sjáum við áþreifanlegt úr þessu samstarfi, Rannveig?`` Hún svarar: ,,Við sjáum náttúrlega mjög margt áþreifanlegt úr þessu samstarfi. Við þurfum ekki, ef við lítum á Norðurlöndin, þá þurfum við ekki annað en líta bara til baka á þennan sameiginlega vinnumarkað sem hefur orðið hérna innan Norðurlandanna þar sem er hlutdeild á þessu svæði. Félagsmálasáttálinn sem gerður var, vegabréfasáttmáli, þetta eru náttúrlega stærstu þættirnir og þá gætir þú kannski sagt, já, þetta er allt að baki. Er þá ekki nóg komið? En þegar við setjumst niður og ræðum norrænt samstarf og hvers vegna áfram norrænt samstarf þegar Evrópa á að vera svona mikilvæg, þá held ég að við sjáum það öll að við verðum sterkari sem eining og heild heldur en hvert land fyrir sig. Og fyrir mér er það ekki nokkur spurning að það er meira virði fyrir okkur að vera sem hluti af Norðurlöndum inni í Evrópusamstarfi en ef við lendum alveg utan við.``
    Ég heyri að þetta kemur formanni þingflokks Alþfl., sem hlýðir hér á málið, ekkert mjög á óvart. (Gripið fram í.) Ég þykist sjá það á þingflokksformanninum. Hann er ekkert hissa á þessum upplýsingum en hér stendur það alveg skýrt: Og fyrir mér er það ekki nokkur spurning að það er meira virði fyrir okkur að vera sem hluti af Norðurlöndum inni í Evrópusamstarfi en ef við lendum alveg utan við.``
    Ég spyr fulltrúa Framsfl. sem eru í þingsal: Hvar eru þeir staddir gagnvart þessari vegferð? Fulltrúi þeirra í Norðurlandaráði hefur ráðstafað atkvæði sínu með þeim hætti sem ég hef hér gert grein fyrir. Það kom mér satt að segja mjög á óvart þótt ég vissi um að á þeim bæ sé býsna langt komið að skrifa upp á samning um Evrópskt efnahagssvæði. En að menn færu í það að óuppgerðum málum datt mér ekki í hug af því að ég held að Framsfl. ætli nú eins og fleiri flokkar loksins að fara að mynda sig í það að fjalla aðeins um þessi alvörumál, þessi meginmál íslenskra stjórnmála sem menn hafa svona ýtt á undan sér og horft til hliðar þegar þau berast inn á borðin og lesa ekki einu sinni textana, hvað þá að ræða þá í opinberri umræðu. Hvar ætlar Framsfl. að skipa sér í þessa sveit? Telur hann að norrænu samstarfi verði best borgið eins og þingmaður Alþfl. orðar það, að Íslandi væri hluti af Norðurlöndum inni í Evrópusamstarfi en lenda alveg utan við?
    Ég er því miður ekki með efst í bunka leiðara sem var skrifaður í dagblaðið Tímann rétt ofan í Norðurlandaráðsdagana. En ég man það úr efni þess leiðara að það var ekki mjög skýrt til orða tekið. Rætt var um það að við þyrftum að halda hópinn með þeim sem skyldastir eru okkur, Norðurlöndunum, halda hópinn með þeim. Ekki voru varnaglar slegnir. Svo sannarlega er kominn tími til þess að menn segi upphátt á Alþingi Íslendinga hvert þeir eru að halda með Ísland og íslenska þjóð í þessu samhengi.
    Ég held að þörf sé á því að nefna það fáeinum, orðum þó að ég hafi gert það í þingræðu í gær, hvernig staðan er í sambandi við baráttuna sem nú fer fram á Norðurlöndum um það hvort að menn eigi að taka þennan kost, ganga inn í Evrópusamveldið. Meira að segja Danir standa nú frammi fyrir því að ganga inn í hið endurmótaða Evrópubandalag í formi Evrópusamveldis eða European Union, eins og þetta er kallað á enskunni eða eigum við kannski að segja den Europæiske Union, svo maður sletti dönsku inni í umræðunni sem væri réttara en að nota enskuna.
    Og hvað er þar á ferðinni? Þar er það á ferðinni fyrir lok þessa áratugar er búið að koma upp vegvísunum, nú þegar að taka upp samvinnu um utanríkismál og hermál og vísa hluta af þeim efnum, varnarsamstarf er það kallað, inn í Vestur-Evrópubandalagið, WEU, eftir enskri skammstöfun.
    Það er orðið sameiginlegt viðfangsefni Evrópusamveldisins, ef og eftir að Maastricht-samningurinn hefur verið staðfestur sem er engin spurning talin vera að verði staðfestur, nema þá af Dönum og Írum, sem eru einu ríkin sem ætla að bera hann undir þjóðaratkvæði. Það er hart tekist á í Danmörku um þessar mundir, þó að hv. 3. þm. Reykv. hafi ekki miklar efasemdir um hvernig þau úrslit ráðist því að það eru bara einhverjir undanvillingar, villuráfandi sauðir, sem eru að hugsa um að segja nei við tillögu yfirgnæfandi meiri hluta danska þjóðþingsins um það að skrifað verði upp á Maastricht-samningana. Hv. 3. þm. Reykv. hafði þau orð um þetta í gær að slík væri samheldnin hjá sósíaldemókrötum í Danmörku að það kæmist nú bara ekki þar hnífurinn á milli manna í þessu máli. En ég held að hann ætti að lesa dönsku blöðin svolítið betur.
    Það er ekki bara í danska krataflokknum þar sem menn eru farnir að ókyrrast, fylgisveitin, þeir hafa haldið saman í Folketinget, heldur er það í öllu litrófi danskra stjórnála og í fylgihópum stjórnmálaflokkanna, þar sem mikil ókyrrð og áhyggjur ríkja vegna Maastricht-samninganna. Skoðanankannanir segja okkur það þessa dagana, þessar vikurnar, að meiri hluti Dana mundi í dag --- meiri hluti þeirra sem afstöðu hafa tekið --- greiða

atkvæði gegn þeim. Hæstv. forsrh. nefndi það hér í umræðunni um skýrslu utanrrh. að það gæti vissulega haft veruleg áhrif á þróun mála. Ég er er alveg sannfærður um það að danskt nei við Maastricht-samningunum, við inngöngu Dana í Evrópusamveldið --- því að það er sjálfstæð ákvörðun --- getur haft gífurleg áhrif á þróun mála á öllum Norðurlöndum. Og hvar standa Íslendingar gagnvart þeim spurningum? Hvernig standa þeir?
    Íslenski utanrrh. leggur fram skýrslu á Alþingi Íslendinga og telur orðið dagskrármál að fara að ræða um aðild að Evrópusamveldinu, þ.e. Maastricht-samveldinu, því að það er ekkert annað sem hann er að tala um, ekki nokkur annar hlutur --- sem m.a. afnemur sjálfstæða mynt aðildarþjóða í síðasta lagi 1. jan. 1999 og færir flest viðfangefni sem máli skipta undir meirihlutaákvarðanir í Brussel. Auðvitað stefnir með beinum og augljósum hætti í það að þjóðríkin verði lögð af, þjóðþingin verði eins konar fylkjasamkundur, eins konar myndarlegar sveitarstjórnir og lítið meira, valdalaus í öllum meginmálum. Það er þetta sem við erum að ræða um, það er flíkin sem menn vilja fara að prófa. Það er engin önnur flík sem stendur til boða í þeirri búð.
    Í Svíþjóð var staðan með þeim hætti að sænsku kratarnir, forustuflokkurinn sem var, eru algjörlega í uppnámi hvernig þeir eiga að fara með niðurstöðuna af eigin gerðum frá því í fyrra, sem þeir tóku upp haustið 1990, að sækja um aðild að Evrópubandalaginu og þeir skrifuðu upp á með samþykkt Ríkisdagsins sænska í fyrrasumar. Þeir vita ekki sitt rjúkandi ráð vegna þess að fólkið, fylgismennirnir, eru að meiri hluta til komnir á aðra skoðun. Niðurstaðan eftir umræðu að undanförnu í sænska krataflokknum, þar sem þeir hafa verið að velta því fyrir sér að komast út úr þessari klemmu með því að greiða atkvæði meðal flokksfélaga --- en það voru þeir að hugsa um fram undir þetta, var að efna til almennrar atkvæðagreiðslu meðal flokksfélaga. Þeir hafa einnig gefist upp við það enda séð að það er bein ávísun á klofning flokksins sem þegar á mjög í vök að verjast, m.a. vegna afstöðu sænskra kvenna, þ.e. félaga í krataflokknum, sem margar hverjar hafa verið að velta því fyrir sér að efna til eigin flokksstofnunar, kljúfa sig frá vegna stöðu sinnar innan flokksins.
    Margir málsmetandi sænskir sósíaldemókratar hafa að undanförnu hafa verið að gefa yfirlýsingar um það að þeir stilli sér gegn þessari stefnu og flokkurinn mun ekki treysta sér til að gefa leiðbeiningu um hvernig félagar hans og stuðningsmenn eigi að ráðstafa atkvæði sínu í þjóðaratkvæðagreiðslu sem gæti komið til 1994.
    Þetta er forustulandið. Eini flokkurinn þarna sem heldur nokkurn veginn utan um sitt eru Moderaterna, er sænski hægri flokkurinn, sem leggur til forsætisráðherrann, Carl Bildt, sem er ólmastur og fremstur í eimvagninum til Brussel og ræður sér varla og hélt hann hefði allt saman borðleggjandi. Hann er heldur betur farinn að horfa til baka, hvort þetta sé allt að slitna aftan úr. Það er ósköp eðlilegt því að það eru ekki bara kratarnir sem eru í uppnámi, einnig Miðflokkurinn og ekki síst sænski Miðflokkurinn, 80% af fylgismönnum hans --- ef marka má nýjar skoðanakannanir --- eru ósáttir við Evrópustefnuna, þ.e. að sækja um aðild að Evrópubandalaginu og Olav Johansen er eins og fangi í búri inni í ríkisstjórninni með uppáskrift sem hann gaf um aðildarumsóknina. Og Fólkaflokkurinn, Folkpartiet sænska, sem stendur vel til hægri og er af annarri gerð en er einnig í miðflokkahópnum í Norðurlandaráði, einnig þar er kominn sá slinkur á sveitina að um 40% af fylgismönnum eru á móti stefnunni að láta reyna á aðild að Evrópubandalaginu, sem er hin opinbera sænska stefna.
    Þegar spurt er um í skoðanakönnunum: Hvaða Evrópubandalag? og sagt er: Jú, Maastricht, með varnarsamstarfi, --- þá eru það 70% sem svara: Nei, það skal ekki verða. Inn í það förum við ekki.
    Svona er staðan og það er rétt verið að byrja að ræða þessi mál á grundvelli umsókna um aðild. Hér uppi á Íslandi ætlum við að leggjast í þá sveit að færa norrænt samstarf, hjálpa til að færa norrænt samstarf undir veldissprota Evrópubandalagsins, sem er auðvitað að leggja það niður. Því það er ekki heimilt neitt formlegt samstarf á þeim bæ, í því ríki sem er þarna að koma. Það stangast á við grundvöllinn og því er hrein blekking að tala um að þar sé vettvangurinn fyrir norrænt samstarf. Þar tætast menn upp í flokkahópa,

mismunandi hagsmuni, þessar stóru samsteypur í Evrópuþinginu, þar sem kristilegir demókratar, sem eru regnhlífin yfir hægri flokkunum, og sósíaldemókratar eru hinir stóru hópar. Reyndar kalla þeir sig sósíalista þar á þingi, ef ég man rétt.
    Nei, þar verður ekki vettvangurinn fyrir norrænt samstarf. Það er hin hroðalegasta blekking og eitt af því sem því miður einkennir þessa málafylgju að menn koma ekki til dyranna eins og þeir eru klæddir. Menn koma ekki til dyranna og leggja spilin á borðið heldur ganga fremstu forustumenn þjóðanna fram með slíkum blekkingum gagnvart eigin þjóð, eins og finnski forsætisráðherrann gerði þegar hann var að mylja niður andstöðuna innan finnska Miðflokksins til þess að fá meiri hluta þingmanna hans til að styðja sig og gerði þetta að spursmáli um lífdaga finnsku ríkisstjórnarinnar sem hann leiddi. Slíkur er heiðarleikinn sem liggur að baki þessum áformum.
    Nú og í Noregi, sem hefur löngum verið talið óvissast í þessu samhengi, er tekist á. Þar hafa menn verið að ræða um þessi mál síðan 1970. Þetta er ekki ný umræða, eins og halda mætti af orðum sumra þingmanna hér, nú þurfi að ræða málin varðandi Evrópubandalagið voða vítt og frjálst og svona rétt eins og menn séu að byrja að átta sig á þessu fyrirbæri. Umræðan hefur staðið í áratugi og var farið fram með þessar hugmyndir hér upp úr 1960, skömmu eftir að bandalagið var stofnað hér á Alþingi Íslendinga og í íslenskri þjóðmálaumræðu. Svo koma menn fram, sumir nýbakaðir hér inni á Alþingi Íslendinga, og tala um það að nú þurfi að fara að efna til víðtækrar, fordómalausrar umræðu um málin.
    Hvað er verið að gera? Hvað hafa menn verið að gera? Hafa menn ekki fylgst með þróun mála í Evrópu undanfarin ár og áratugi? Þurfa þeir á þessari opnu, fordómalausu umræðu að halda?
    Í morgun sagði 3. þm. Reykv. mér hvernig umræðan færi nú fram í Noregi, hvernig sveitirnar skiptast og vopnabúnaðurinn er. Ef ég hef tekið rétt eftir orðum hv. þm. hefur eitt af víðlesnari dagblöðum Noregs tekið afstöðu um það og sett á forsíðu í gær eða í dag: Já við aðild að Evrópubandalaginu. Norska Dagbladet, hið frjálsa og fría málgagn er nú orðið málgagn Maastricht: Noregur inn í Evrópusamveldið.
    Það er einmitt þannig sem hlutirnir gerast. Það eru þeir sem fjármagni ráða, peningum og fjölmiðlum, sem leggjast á eina sveif og reyna að ná þessari niðurstöðu. Auðvitað er það ósköp eðlilegt því að hagsmunir fjármagnseigenda ráða fyrst og fremst ferðinni eins og vissulega hefur verið sagt í umræðunni nú. Það er ekki lítið vægi sem sænsku stórfyrirtækin hafa í þessu samhengi. Það eru ekki lítil ráð sem þau hafa haft í niðurstöðu sænskra stjórnvalda þar sem kratarnir tóku ofan og beygðu sig. Auðvitað er það fjármagnið.
    Svo eru menn að tala hér um frjálsa, opna og fordómalausa umræðu. Það sem einkennir þessi mál er að þrátt fyrir þessa stöðu, þennan ójafna leik, ætlar forustumönnum ríkisstjórna á Norðurlöndum ekki að takast það nema með mikilli fyrirhöfn, ofríki í formi upplýsingamiðlunar og ofurvaldi á fjölmiðlum að draga meiri hluta þjóðanna með sér inn í þetta samstarf og leggja Norðurlöndin af sem sjálfstæð ríki og halda inn í stórveldi Vestur-Evrópu. Inn í þetta virki sem er nú að búa sig undir að taka sameiginlega á utanríkismálum, varnar- og hermálum, eins og stórveldi þarf að gera til að verja hagsmuni sína og halda þeim úti sem kynnu að berja þar dyra, flytjast þangað frá öðrum svæðum, hvort sem það er frá Norður-Afríku, botni Miðjarðarhafsins eða Austur-Evrópulöndunum. Það er vissara að hafa varnir til þess að verjast innkomu.
    Ekki er verið að hugsa um frjálsa Evrópu í þessu samhengi. Ekki er verið að hugsa um sameinaða Evrópu. Ef --- þá eingöngu á skilyrðum fjármagnsins, þjóðfrelsisins, algjörs athafnafrelsis auðmagnsins í Evrópu, þýsku auðhringjanna sem byggja enn á því fjármagni sem mokað var inn til Hitlers á sínum tíma því að þangað liggja ræturnar. Svo kemur Kohl kanslari sem gestur og aðalræðumaður á Norðurlandaþing og segir: Það er skilyrðislaust þessi Evrópa, Evrópa Maastricht og eftir Maastricht, þegar við náum lengra að því ótvíræða og óvefengjanlega stefnumiði að mynda sameiginlegt ríki Evrópu. Auðvitað er síðan reynt að klæða það í hugsjónabúning til þess að lokka menn.
    Ekki ætla ég að hafa á móti því að þeir sem gera upp hug sinn þannig og tekst að

sannfæra þjóðirnar um að þetta sé framtíðin að þeir geri það. En menn eiga að hugsa ráð sitt. Menn þurfa að gæta að sér, einnig á Norðurlandaráðsþingum. Ekki síst þegar við fjöllum um þessi mál með Norðurlandaþjóðunum sem eðlilega standa okkur næst í sögulegu, menningarlegu og samskiptalegu tilliti.
    En við eigum ekki að greiða samstarfið og hollustu við það því verði að láta það verða lóð á þá vogarskál að við gerumst aðilar að Evrópubandalaginu. Það væri afar röng ályktun einnig með tilliti til þess að þar verður ekki um neitt formlegt samstarf Norðurlandaþjóða að ræða, ekkert svæðisbundið samstarf sýnilegt. Auðvitað ráðgast menn hver við annan að tjaldabaki og á göngum þegar þeir hittast og kunna að banka upp á hver hjá öðrum. En eitthvert formlegt norrænt samstarf jafnvel þó Norðurlöndin öll væru þarna komin er blekking og yfirbreiðsla yfir áform sem eru af allt öðrum toga. Huggun á meðan verið er að ná fram ákvörðunum.
    Nei, við þurfum að ná annarri niðurstöðu í þetta mál og beita okkar afli til þess eins og við getum og með því að segja: Inn í þetta stórríki ætlum við ekki að fara. Við viljum halda utan um norrænt samstarf meðan þess er nokkur kostur. Við sjáum fyrir okkur möguleika norrænna þjóða að starfa saman, halda fullveldi sínu og sjálfstæði en auka samstarf sitt um fjölmörg málefni sem eiga saman. Við skorum á aðrar Norðurlandaþjóðir að rífa sig lausar frá þessum stórveldisdraug sem er að koma undir sig fótunum í Vestur-Evrópu og segja við Kohl kanslara og François Mitterand: Það er gott að fá ykkur í heimsókn en við ætlum ekki að ganga undir hjálminn hjá ykkur.
    Þó svo illa færi að þetta yrði niðurstaða hinna Norðurlandanna eigum við Íslendingar allt aðra og betri möguleika á að standa á okkar eigin fótum, sem við höfum reynt að standa á í gegnum aldirnar, reynslunni ríkari af því að ganga inn í bandalög. Var það ekki kennt við Kalmar hér á 14. öldinni, sambandið sem skilaði okkur svo inn á slóðir Danakóngs þegar stundir liðu, svona fyrir gleymsku í kanselíum Norðurlanda? Við náðum að koma undir okkur fótum á þessari öld og reisa hér upp sjálfstætt þjóðríki sem við getum verið stolt af og sem hefur alveg gífurlega mikla möguleika til þess einmitt sem sjálfstæð eining að standa á eigin fótum, rækta samband við þjóðir til allra átta, til austurs og suðurs og vesturs og til norðurs, yfir norðurpólinn til Asíu, ef við erum menn til þess að haga samskiptum okkar eftir eigin hagsmunum og rækta samskipti við þjóðir, einnig fjarlægar þjóðir sem við getum átt mjög þýðingarmikið samstarf við.
    Það er verið að draga máttinn úr Íslendingum með þessari fjarstæðukenndu umræðu, að mínu mati fjarstæðukenndu hugmyndum um að keyra Ísland inn í þetta vestur-evrópska stórveldi þar sem fyrsta skrefið er hugsað sem EES-samningur en sem mun fyrr en varir leiða til þess að þeir sem vilja halda áfram draga vagninn með til Brussel alla leið, en við skulum vona að það verði ekki, menn sjái að sér og það verði með öðrum hætti sem Íslendingar hagi atkvæðum sínum og málflutningi á þingum Norðurlanda til þess að reyna að ná landi út frá því sem mér sýnist að séu nærtækir íslenskir hagsmunir í þessu samhengi.