Norræna ráðherranefndin 1991--1992

117. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 15:02:00 (5068)


     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hv. 4. þm. Austurl. hefur áhyggjur af afstöðu Framsfl. til mála þannig að ég er vanur slíku. En varðandi það mál sem hér er um rætt vil ég taka fram að mér sýnist málið snúast um það að vera með í því að þróa norrænt samstarf áfram með tilliti til þeirra hluta sem eru að gerast í umhverfinu. Ég tel og er sammála fulltrúa Framsfl. í Íslandsdeild Norðurlandaráðs um það að norrænt samstarf, sem tekur ekki mið af því sem er að gerast í kringum okkur, sé ekki mikils virði. Og ég er ekkert skyldugur til þess að vera sammála vinstri sósíalistum á Norðurlöndum um það. Ég kannast við andrúmsloftið á þessum vettvangi og það er staðreynd að öll Norðurlöndin eru að vinna að því að semja um Evrópskt efnahagssvæði og samstarf sem tekur ekkert mið af því held ég að sé ekki mjög raunhæft samstarf. Ég er því fullkomlega sammála hv. 1. þm. Austurl. um hans afstöðu á þessu þingi.