Norræna ráðherranefndin 1991--1992

117. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 15:11:00 (5072)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Þegar umræðunni var frestað miðvikudaginn fyrir rúmri viku var hv. 1. þm. Austurl. í miðri ræðu. Ég hafði beðið um að fá að gera athugasemd við hans

ræðu, þ.e. að koma með andsvar, en það var ekki leyft þar sem hann var í miðri ræðu og þegar umræðan hófst í dag kom það í ljós að hann hafði fallið frá því að ljúka ræðu sinni þannig að ég neyðist til að gera nokkra athugasemd við það sem fram kom í máli hans þar sem um var að ræða örlítinn misskilning á því sem ég hafði sagt.
    Ég hef tekið eftir því í dag að hv. þm. 2. þm. Austurl. hefur verið málsvari þessa þingmanns og Framsfl. þannig að ég hefði kosið að honum yrði gert viðvart um að ég vildi gjarnan að hann hlustaði á ræðu mína, ef það er möguleiki, virðulegur forseti. Ég get tekið það fram að ég hafði ekki hugsað mér að endurtaka neitt af því sem ég hef áður sagt heldur eingöngu að ræða þessi atriði þannig að ég hef ekki miklu að bæta við það sem ég sagði við fyrri hluta umræðunnar. Ég hafði ætlað að einskorða mig við einungis þetta og þess vegna langar mig til að athuga hvort hann gæti verið viðstaddur.
    Í fyrri ræðu minni skýrði ég út hvernig afstöðu ég hefði tekið til hinna ýmsu tillagna og hvaða málefni hefðu verið rædd á þinginu. Ég tók síðan eftir því þegar hv. 1. þm. Austurl. hóf sína ræðu að hann hafði ekki heyrt það sem ég sagði. Ég var að tala um tillögu sem kom frá fulltrúum sósíaldemókrata í efnahagsnefndinni, hv. 4. þm. Austurl. hefur reyndar gert grein fyrir henni hér en ég var búin að gera grein fyrir henni að því er ég taldi nokkuð nákvæmlega. Sú tillaga fjallaði um að ef að norrænir aðilar væru í tengslum við Evrópu, þ.e. er í víðara evrópsku samhengi, eins og var talað um, mundu þeir leggja áherslu á vinnumarkaðspólitík sem miðaði að fullri atvinnu, jafnrétti milli kynja, umhverfiskröfum, umhverfi á vinnustöðum, félagslegar áherslur með það að markmiði að samræming yrði á reglum á háu plani. Þetta var tillaga sem ég taldi mjög góða, ég get mjög vel stutt hana. Og ég styð eða hafna tillögum, ekki eftir því hvaðan þær koma, eins og mér heyrðist að það þætti hv. 2. þm. Austurl. mjög eðlilegt að væri gert, heldur fer ég eftir innihaldinu. Þegar þessi tillaga sósíaldemókrata kom fram taldi ég mjög eðlilegt að styðja hana, vegna þess að mér fannst hún góð. Ég er ekki þar með að segja að ég sé sammála öllu sem kemur frá sósíaldemókrötum, það tel ég af og frá.
    Í ræðu sinni sagði hv. 1. þm. Austurl. þessa tillögu komna frá vinstri sósíalistum og þess vegna hefði hann ekki getað stutt hana. Það var ekki rétt að hún kæmi frá þeim heldur kom hún frá sósíaldemókrötum. Hann verður auðvitað að ráða því sjálfur hvaða viðmiðun hann notar þegar hann ákveður hvaða tillögur hann styður eða framsóknarmenn yfirleitt. En ég vildi bara segja að það kom mér mjög á óvart að það sé viðurkennd stefna, ekki bara hjá þessum fulltrúa Framsfl. í Norðurlandaráði heldur kom það fram að fleirum þótti það eðlilegt að taka afstöðu til tillagna eftir því hvaðan þær koma.
    Ég var einnig í hópi þeirra, reyndar mjög fáu, sem studdu tillögu sem kom frá vinstri sósíalistum. Sú tillaga fjallaði ekkert um það hvort maður hafnaði eða styddi Evrópskt efnahagssvæði. Ég hélt að hv. þm. hefði hlustað hér áðan og hafði ekki hugsað mér að fara yfir þá tillögu því að ég taldi að það hefði verið nægjanlega vel gert. En af því að ég studdi þessa tillögu og af því að greinilega kom fram misskilningur af hálfu hv. 2. þm. Austurl., neyðist ég til þess að að drepa á fáein atriðum í þeim og bið ég hann að hlusta vel.
    Í þessari tillögu segir að lögð sé áhersla á að efla norrænt samstarf, óháð tengslum hinna ýmsu landa við EB. Það skiptir sem sagt ekki máli hvað þau velja. Og síðan kemur: Það getur ekki verið aðalhlutverk Norðurlandaráðs að aðlaga sig Evrópusamveldinu eða smækka sjálft sig niður í norrænt útibú í Brussel.
    Síðan er talað um hvað eigi að setja í forgang innan norrænnar samvinnu, þ.e. menningarmál, umhverfismál, atvinnumál, samfélagsmál og Evrópumál. Og þá er haldið áfram og talað um ýmsa fleiri þætti sem leggja eigi áherslu á. Ég ætla ekki að að tíunda allt en get tekið sem dæmi: að móta norrænar framkvæmdaáætlanir í nokkrum meginmálaflokkum, að láta kanna afleiðingar þess fyrir norræna samvinnu að fleiri Norðurlönd en nú eru verði meðlimir í EB á sama tíma og önnur standi áfram utan þess.
    Það er ekki einu orði vikið að Evrópsku efnahagssvæði í þessari tillögu. Ég taldi mig geta stutt hana, sem ég og gerði, ekki vegna þess hvaðan hún kom, það skiptir mig ekki máli, ég reyni að taka málefnalega afstöðu til tillagna í Norðurlandaráði sem og annars staðar en velti ekki aðallega fyrir mér hverjir koma með tillöguna.
    Og hv. 1. þm. Austurl. sagði í ræðu sinni: ,,Ég vil bara ítreka það --- eins og hann orðaði það með leyfi forseta --- að ég á enga samleið með vinstri sósíalistum á Norðurlöndum.`` Ég held að það geti átt við um mig líka. Ég taldi mig reyndar ekki eiga samleið með neinum af þeim flokkahópum sem starfa á Norðurlöndum, ég stend fyrir utan alla flokkahópa. En ég reyni nú samt að taka afstöðu til hinna ýmsu tillagna sem þar koma fram og ég er alveg sannfærð um að ég á eftir að styðja tillögur frá miðjuhópnum líka, góðar tillögur, sem ég hef reyndar gert og var ég t.d. ein af þeim sem --- reyndar gerðu það allir --- studdu tillögu, sem hv. 1. þm. Austurl. flutti á Norðurlandaráðsþingi, um samstarf þjóða á norðurhjara. Ég er því undrandi á þeim fullyrðingum sem koma hér fram. Það er vissulega rétt að í máli vinstri sósíalista á fundinum, ég held í ræðum þeirra allra, kom fram að þeir teldu, sem og ég, að Evrópskt efnahagssvæði væri eitthvað sem ekki bæri að líta á sem varanlegt fyrirbæri og gæti aldrei staðið sjálfstætt, væri bara skref inn í Evrópubandalagið. Það er alveg rétt. En það kom ekki fram í tillögu þeirra. Þannig að þegar maður greiðir atkvæði með eða móti tillögum þá metur maður það ekki út frá einhverju sem fólk hefur sagt einhvern tíma fyrir löngu því maður er ekki að taka tillit til þeirra orða heldur eingöngu það sem kemur fram í tillögunum.
    Okkur kvennalistakonum, sessunautum hv. 1. þm. Austurl. sitt hvoru megin við hann, þótti nú einna skemmtilegust sú athugasemd hans varðandi þá tillögu sósíaldemókratanna, að þeir ættu að beita sér fyrir því, ef þeir færu inn í EB, að það velferðarkerfi, sem er nú á Norðurlöndum, yrði tekið upp þar. Þá skýrði hann það þannig að hann treysti ekki hópum, t.d. Ítölum --- og nefndi sérstaklega Ástarflokkinn, að honum væri varla treystandi --- fyrir því að taka upp norræna velferðarkerfið. Mér þykir miður að hann skuli ekki vera hér til að skýra nánar fyrir okkur hvað hann átti við með því að ítalski Ástarflokkurinn gæti ekki tekið upp hið norræna velferðarkerfi. En hann hafði greinilega mikið álit á þeim flokki og taldi að hann mundi komast til valda hið fyrsta og þess vegna fannst honum eiginlega ómögulegt að styðja þessa tillögu sósíaldemókratanna um velferðarkerfi Norðurlanda. Þetta fannst mér mjög merkilegt. En hv. þm. er ekki hér til andsvara en við eigum kannski eftir að tala um Ástarflokkinn síðar.
    Ég má til, virðulegur forseti, að víkja aðeins að einu atriði sem mikið hefur verið rætt í þessari umræðu sem eðlilegt er, þ.e. Norðurlöndin og þá í tengslum við aðild að EES og EB. Mikið hefur verið úr því gert af hálfu EFTA-ríkjanna hversu mikil áhrif þau hafa innan Evrópska efnahagssvæðisins. Og af því að hér hefur verið talað um hversu mikilvægt það fyrirbæri er þá langar mig að vitna í ræðu sem mér barst í hendur í morgun. Hún var flutt á vegum utanríkismálanefndar EB-þingsins, REX-nefndarinnar, en það er Van der Pas sem flutti þá ræðu. Hann er að skýra út fyrir REX-nefndinni, utanríkismálanefnd þingsins, hvernig EFTA-ríkin hafi áhrif á ákvarðanatökukerfið innan EB. Mig langar til að lokum, virðulegur forseti, að fá að lesa, í lauslegri þýðingu með aðstoð starfsmanna hér, einn stuttan kafla úr þeirri ræðu. Þar er verið að lýsa því fyrir utanríkismálanefndinni hvernig ákvarðanatökuferlið muni eiga sér stað innan EES-svæðisins. Og þar tekur hann auðvitað fram að EFTA-löndin hafi ekki nokkra möguleika á að koma með frumkvæði eða neinar tillögur í því sambandi. Og svo segir hann í minni þýðingu:
    ,,Það var mikilvægt að láta EFTA-ríkin halda að þau væru þátttakendur í þessu. Augljóslega er það mjög erfitt fyrir EFTA-land að standa frammi fyrir gerðum hlut en um þetta atriði var deilt allan tímann í viðræðunum. Sá framgangsmáti sem samþykktur hefur verið miðar við að EFTA verði eins mikið með og hægt er í okkar innri málum án þess að láta þau vera með í spilinu.`` --- Eða ef ég þýði alveg orðrétt ,,að hafa fingurinn í kökunni``, eða ,,to have the finger in the pie.`` Þarna er alveg greinilegt að Evrópska efnahagssvæðið, sem hv. 2. þm. Austurl. er svo hrifinn af og lýsti því áðan, er í raun fyrirbæri þar sem EFTA-ríkin hafa í raun ekki nokkurn skapaðan hlut að segja heldur eru það EB-ríkin sem stjórna og ráða á þessu svæði.
    Mig langar að geta þess áður en ég fer úr ræðustól, af því að nú hefur verið mikið talað, bæði í gær og fyrradag, um að hæstv. utanrrh. hefði ekki breytt stefnu sinni og

að ríkisstjórnin hefði ekki breytt stefnu sinni varðandi aðild að EB að þá vorum við hér nokkur á morgunverðarfundi með framkvæmdastjóra frönsku viðskiptaskrifstofunnar, De Pont heitir hann. Það kom honum mjög á óvart að heyra frá fulltrúa Alþfl., formanni þingflokks Alþfl., að engin stefnubreyting hefði orðið og sú spurning væri ekki komin á dagskrá að Ísland sækti um aðild að Evrópubandalaginu. Þá sagði þessi maður: ,,Nú, það er einkennilegt,`` og kom honum mjög á óvart. ,,Við í París fengum þær upplýsingar að það væri algjör stefnubreyting. Ég verð að skrifa þetta hjá mér,`` sagði hann, ,,að þetta er þá einhver misskilningur.`` Þeir úti í París fengu sem sagt þær upplýsingar á Íslandi í gegnum fjölmiðla: Það varð skyndileg stefnubreyting á Íslandi, allt annað hljóð er komið í strokkinn. Hann sagði: ,,Ég þarf að skrifa þetta hjá mér sérstaklega.``