Norræna ráðherranefndin 1991--1992

117. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 15:57:00 (5077)

     Björn Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær skýrslur sem hér hafa verið kynntar og upplýsingar sem gefnar hafa verið. Ég ætla ekki að taka upp þráðinn sem við, ég og hv. 4. þm. Austurl., hurfum frá í umræðum okkar í gær um stöðu Norðurlandanna og afstöðu þeirra til Evrópusamstarfsins. Það er rétt sem hann greindi frá í ræðu sinni að ég fékk þær upplýsingar að hið útbreidda dagblað í Noregi, Dagbladet, hefði lýst því yfir í dag að það hefði ákveðið að styðja aðild Noregs að Evrópubandalaginu. Það er ekki fyrsta dagblaðið sem gerir það í Noregi því að Aftenposten, dagblað sem einnig er gefið út í Noregi, hefur þegar tekið ákvörðun um að styðja aðild Noregs að Evrópubandalaginu. Slíkar ákvarðanir dagblaða eru síður en svo skerðing á skoðanafrelsi. Ég tel þær þvert á móti staðfestingu á því að þarna hafi menn komist að niðurstöðu og látið hana í ljós og birt með þessum hætti. Ég vil einnig upplýsa hv. 4. þm. Austurl. um það að, eins og við gátum báðir um í umræðunum í gær, eru þær umræður mjög miklar núna innan norska Verkamannaflokksins hvernig eigi að halda á Evrópumálunum. Mér skilst að meiri hluti manna í þeim nefndum --- ég held að þær séu 1.600 jafnvel --- sem settar voru á laggirnar innan flokksins til að fjalla um þetta mál telji að sækja eigi um aðild að Evrópubandalaginu. Þannig er nú þróunin í pólitískum umræðum í Noregi. Við gætum komið hér upp dag eftir dag á næstu vikum og greint frá fréttum sem við höfum um þessa framvindu. Ég held að það sé ástæðulaust að rekja þau mál frekar og öll hljótum við að fylgjast af eftirvæntingu með því hvernig þessum málum vindur fram í okkar nágrannalöndum og hvaða áhrif það hefur á norrænt samstarf.
    Hv. 4. þm. Austurl. gerði ítarlega og glögga grein fyrir samþykktum sem gerðar voru á síðasta fundi á þingi Norðurlandaráðs og þeim ályktunum sem þar komu fram um stöðu Norðurlandasamstarfsins miðað við þessa evrópsku þróun. Mig langar að víkja aðeins að þessum þætti og vestnorræna samstarfinu með fyrirspurnum til hæstv. umhvrh., samstarfsráðherrans um Norðurlandamálefni. Það kemur fram í skýrslu hans á bls. 20 og 21 í kafla 6, Vestnorræna samstarfið. Þar er gerð grein fyrir tillögum nefndar sem skipuð var til þess að gera tillögur um hvernig þessu samstarfi verði háttað. Það kom einnig fram í máli hv. 4. þm. Norðurl. e. og ég hef ekkert við það að athuga að þessu samstarfi verði skipað með nýjum hætti og menn setji það í nýjan skipulagsbúning. Ég vara hins vegar við því og tel það þróun sem ekki eigi að stuðla að, þ.e. að Norðurlandasamstarfinu verði skipt þannig upp. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að við lítum á Norðurlandasamstarfið sem eina heild og að ekki verði haldið þannig á málunum að um leið og við viljum efla vestnorrænt samstarf verði litið á það sem einhvers konar deild í norrænu samstarfi, einhvers konar útibú þess og málum, mönnum, þjóðum og ríkjum vísað þangað ef þau vilja t.d. ekki taka virkan þátt í Evrópuþróuninni og Evrópusamstarfinu. Ekki má halda þannig á málum að vestnorræna samstarfið verði einhvers konar aukabúgrein þeirra sem ekki eru fúsir til þess að fylgja Norðurlöndunum í Evrópubandalagið, fara þangað eða hvernig sem þeir haga sínum samskiptum við Evrópubandalagið. Ekki má halda þannig á málum að þarna verði einhver skipti. Mjög mikilvægt er að líta þannig á að Norðurlandasamstarfið sé eitt og óskipt og vestnorræna samstarfið aðeins áhersluþáttur þeirra þjóða sem búa við sérstakar aðstæður við Atlantshafið.
    Þetta vildi ég láta koma fram og tel að þessi skoðun sé í samræmi við viðhorf margra á Norðurlöndunum sem vilja ekki að það verði klofningur og eyríkin í Atlantshafi slitni frá heildinni með þessum hætti.
    Þá vil ég líka spyrja um það sem kemur fram í einum liðnum á bls. 21, með leyfi hæstv. forseta: ,,Stjórnir Norræna hússins í Reykjavík, Norðurlandahússins í Þórshöfn og Norrænu menningarmiðstöðvarinnar í Nuuk verði sameinaðar í eina.``
    Ég held að þetta sé ekki skref í rétta átt. Ég tel að það sé mjög æskilegt að sérstakar stjórnir séu fyrir þessum norrænu stofnunum í hinum einstöku löndum þannig að tekið sé tillit til hagsmuna og viðhorfa á hverjum stað. Mér finnst að þarna sé ekki verið stíga skref til heilla. Ég tel að reynslan af starfsemi Norræna hússins í Reykjavík ætti a.m.k. ekki að vera hvatning til þess að skipulagi á stjórn þess sé breytt í þessa átt. Ég vildi því aðeins spyrja hvort þetta sé afráðið, frá þessu gengið og unnið samkvæmt þessu eða hvort aðeins sé um tillögur að ræða sem enn eru á umræðustigi.