Norræna ráðherranefndin 1991--1992

117. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 17:20:00 (5085)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er málefni þeirra framsóknarmanna hverjum þeir treysta til verka og ég ætla ekki að blanda mér í þau efni. Mín ræða hér, sá hluti sem sneri að skipan í trúnaðarstöður hjá Norðurlandaráði, var að gefnu tilefni sem ég held að hv. þm. átti sig á. Þar var formaður þingflokksins, hv. þm. Páll Pétursson, sem reið á vaðið og gaf upp þennan bolta sem hefur orðið tilefni af minni hálfu til nokkurrar umræðu.
    Síðan er það hvernig Framsfl. metur hin stærri mál í íslenskri pólitík. Hvort það eru efnisatriði máls sem eiga að ráða eða spurningin um það, eins og hv. þm. orðaði það hér áðan, hvort menn væru að einangra sig. Það var mjög fróðlegt að fá fram undir lok umræðunnar frá þessum talsmanni Framsfl. að mat hans, og mér heyrðist hann tala fyrir flokkinn í heild, byggðist á því hvort þeir ættu á hættu að einangrast í íslenskri pólitík eða ekki. Hvaða nafngiftir hæfa slíkri siglingu? Það eru fleiri en ég sem geta spáð í það. Einhvern tíma hefði það verið orðað við tækifærismennsku ef það réði afstöðu í hinum stærstu málum. Einnig þar verður Framsfl. að kjósa sér sitt hlutskipti. Ég held að betra sé fyrir hann að ráðfæra sig við fólkið sem hefur veitt honum nokkurn trúnað í íslenskum stjórnmálum á undanförnum árum og áratugum áður en hann festir kompásinn með þeim hætti sem mér heyrist að til standi hér að því er snýr að Evrópumálum bæði EES og í því sem það mun óhjákvæmilega leiða til, tengslum Íslands við vaxandi stórveldi í Vestur-Evrópu.