Norræna ráðherranefndin 1991--1992

117. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 17:23:00 (5086)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. 4. þm. Austurl. varði löngum tíma í að lýsa því hvernig kosið var í trúnaðarstöður og er það ágætt að menn geri sér grein fyrir því hvernig það er gert. En hann undanskildi þó eitt og það var þegar tilnefnt var af Íslands hálfu í kjörnefnd. Það er rétt að það voru þrír aðilar sem tilnefndir voru, einn fulltrúi frá Framsfl., einn frá Alþfl. og einn frá Sjálfstfl. Ég bauð hins vegar sjálfa mig fram og færði fyrir því rök af hverju ég væri rétti og eini fulltrúi Íslands sem ætti að vera í þessari kjörnefnd. Það var vegna þess að ég var ekki í neinum flokkahópi og þar af leiðandi mundi ég ekki taka tillit til neins annars en hagsmuna Íslands. Og það er það sem mér heyrist að fólk hér vilji gjarnan gera.
    Það var ekki fallist á tillöguna af hálfu Íslandsdeildarinnar, að ég væri í kjörnefnd, og það voru mér auðvitað mikil vonbrigði. Rök þeirra voru þau að ég gæti ekki verið í kjörnefnd vegna þess að ég væri ekki í neinum flokkahópi. Það voru einu rökin sem voru borin fram. Ég get svo sem tekið það fram að ég er ekki sátt við að flokkahóparnir ráði svona miklu. Ég er mjög ósátt við það vegna þess að ég hef þá nánast enga möguleika á að taka þátt í neinum af þessum trúnaðarstörfum sem eru á vegum Norðurlandaráðs. En ég verð auðvitað að sætta mig við þær reglur sem þar eru og gerði reyndar athugasemd í þessa veru við breytingar á Helsinki-sáttmálanum sem hér var til umræðu fyrir jól vegna þess að ég var mjög ósátt við þetta.
    Ég verð að segja það að ég skil ekki hvernig hv. 4. þm. Austurl. getur hugsað sér að starfa í þessari kjörnefnd eftir það sem hefur verið sagt um hans störf. Ég hefði a.m.k. aldrei tekið það í mál að vera í þessari nefnd eftir það sem um hann hefur verið sagt.