Norræna ráðherranefndin 1991--1992

117. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 17:26:00 (5088)


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka beinan þátt í þessari umræðu en ég sé mig knúinn til þess eftir svar hv. 4. þm. Austurl. við andsvari.
    Það er alveg rétt hjá hv. þm. að Framsfl. hefur hlotið verulegan trúnað kjósenda í íslenskum stjórnmálum á undanförnum áratugum. Framsfl. hefur axlað þá ábyrgð sem því fylgir. Varðandi það sem hv. þm. sagði, að flokkurinn vilji sjá hvað kemur út úr Evrópsku efnahagssvæði, eins og að var stefnt þegar lagt var upp með samningana á sínum tíma, og að hann vilji halda við þá stefnu sína eftir að hann er horfinn úr ríkisstjórn, það er ekki tækifærismennska. Eða telur hv. þm. það?
    Hv. þm. sagði: Liggur það ekki fyrir? --- Nei. Og ég hélt að hv. þm. væri betur lesinn í Evrópumálum en þetta. Það liggur ekki fyrir. Það er margt mjög óljóst, m.a. er tvíhliða samningurinn um fiskveiðarnar ófrágenginn. Og ég geri að minnsta kosti ekki upp minn hug endanlega fyrr en að ég sé hvað liggur frammi og hvað kemur út.
    Það er hins vegar annað mál að ég hef haft verulegar efasemdir gagnvart því sem við höfum verið að sjá á síðustu vikum og mánuðum bæði efnislega og ekki síður hef ég

haft efasemdir vegna þess að hið pólitíska andrúmsloft í Evrópu er allt annað í dag en þegar lagt var upp með samningana fyrir rúmum tveim árum síðan. Ég er þeirrar skoðunar, hv. 4. þm. Austurl., að tekið verði eftir málflutningi og afstöðu einstakra stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna á næstu mánuðum varðandi utanríkismálapólitík Íslands. Ég er einnig þeirrar skoðunar að við séum á miklum tímamótum á því sviði núna, tímamótum sem á margan hátt eru svipuð þeim sem voru upp úr seinni heimsstyrjöldinni. Ég óttast ekki dóm kjósenda yfir Framsfl. í þeirri vinnu sem fram undan er. Það mun koma í ljós í fyllingu tímans. Ég vil hins vegar benda hv. 4. þm. Austurl. á það að hann getur alveg sparað sér áhyggjurnar gagnvart Framsfl. Það munum við, trúnaðarmenn hans, taka allt á okkur.
    Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að ég hefði ekki ætlað að taka mikinn þátt í þessari umræðu þannig að ég ætla ekki að lengja mál mitt frekar. Ég ítreka það að lokum að nú er þörf málefnalegrar og yfirvegaðrar umræðu um utanríkismál þar sem fulltrúar helst allra flokka geta náð samstöðu um þá leið sem getur á næstu árum tryggt sem best hagsmuni okkar sem smáþjóðar norður í hafi. Það gerist ekki með gífuryrðum. Þeir sem fara þannig fram dæma sig úr leik í umræðunni. Þeir verða ekki marktækir vegna þess að þjóðin gerir kröfu til annars.