Norræna ráðherranefndin 1991--1992

117. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 17:31:00 (5089)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það sést að leikslokum hverjir dæma sig úr leik í umræðu og niðurstöðu varðandi stór mál þar sem niðurstöðu er þörf. Ég bið hv. þm. að taka sér smátíma til að bera saman það upphaf sem varð í marsmánuði 1989 varðandi samning um Evrópskt efnahagssvæði, hvernig það mál var lagt fyrir Alþingi Íslendinga, hvernig formaður Framsfl., þá forsrh. Íslands, hagaði sínu máli, hverja fyrirvara hann sló í því efni á þeim dögum og þá niðurstöðu sem liggur nú fyrir á borðum þingmanna. Það þarf ekki að bíða eftir einhverjum frumvörpum sem eiga að taka mið af þessari niðurstöðu. Þau eru sjötíu talsins og hafa verið boðuð hér ef þessi samningur verður undirritaður. Við þurfum ekki á því að halda, grunnurinn er lagður. Þar á meðal stórfelld skerðing á áhrifum þeirrar samkomu sem við sitjum hér, Alþingi Íslendinga, samkvæmt þessum samningi. Og menn þurfa að gera sér grein fyrir þessu og standa skil á því og afstöðu sinni gagnvart kjósendum í landinu áður en lýkur.
    Ég vil líka benda á að það sem einkennir stöðu mála á Norðurlöndum nú er einmitt hið breiða bil sem er að myndast á móti forustu í stjórnmálaflokkum, sem vilja draga þjóðirnar inn í Evrópusamveldið, og almenningsálitsins, þar á meðal fólksins sem hefur haslað sér völl í flokkunum. Þessu ætti Framsfl. m.a. og aðrir flokkar hér á Alþingi að taka eftir.