Norræna ráðherranefndin 1991--1992

117. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 17:33:00 (5090)


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil sérstaklega þakka hv. 4. þm. Austurl. fyrir að draga það inn í umræðuna að það var formaður Framsfl. sem markaði stefnuna í upphafi þessara samninga og setti þá fyrirvara sem enn eru í fullu gildi innan Framsfl. Ég vil sérstaklega þakka honum fyrir þetta.
    Það er síðan það verk sem er fram undan núna, og hluti af þeirri vinnu að móta framtíðarstefnu okkar í utanríkismálum, að meta það að hve miklu leyti þessir fyrirvarar hafa verið haldnir. Ég get tekið undir með hv. 15. þm. Reykv. að þar hefur ekki nóg verið að gert. Hvað þarf til viðbótar til þess að tryggja að svo verði áður en endanleg afstaða verður tekin?
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, taka fram og ítreka það sem ég sagði áðan að stóri óvissuþátturinn í málinu er hve mikið hið pólitíska umhverfi í Evrópu hefur breyst frá því að lagt var upp. Það er eitt af því sem verður að leggja mat á áður en tekin verður lokaafstaða til þess samnings eða slitra af samningi, eins og hv. formaður utanríkismálanefndar kaus að kalla það plagg fyrr í vetur, áður en tekin verður afstaða til þess sem endanlega kemur út úr því máli.