Norræna ráðherranefndin 1991--1992

117. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 17:35:00 (5091)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það eru ekki fyrirvarar fyrrv. hæstv. forsrh. sem gilda í þessu máli. Þeir hafa ekki fengið mikið rúm í þessum samningi. Þeir komust aldrei inn í samningsgrundvöllinn. Það voru aðrir sem sáu fyrir því sem sátu í ríkisstjórn Íslands með honum. Þetta ættu framsóknarmenn að vera búnir að átta sig á fyrir lifandis löngu. Og það verður erfitt að draga þessa fyrirvara inn á borðið á nýjan, jafnvel þó að Framsfl. legðist á eitt í því máli, því að það liggur þegar fyrir samningur, gjörbreyttur grunnur á marga lund, frá því sem var í huga sumra sem áttu hlut að því að upp var lagt í þessa ferð.
    Það er rétt að miklar breytingar hafa orðið í Evrópu varðandi Evrópubandalagið sem nú er að breytast í ríkisheild. Hv. þm. sagði ekki orð um það hvaða ályktanir hann drægi af þeim breytingum, ekki orð. En það hafa líka orðið breytingar hér innan lands, m.a. hafa þær endurspeglast í umræðu um utanríkismál í síðustu viku. Þær ættu ekki að hvetja menn til að skrifa upp á þann samning um Evrópskt efnahagssvæði ef hann berst undirritaður inn á borð.