Norræna ráðherranefndin 1991--1992

117. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 17:36:00 (5092)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Austurl. sagði að ég hefði ekkert minnst á þær breytingar sem eru að eiga sér stað í Stór-Evrópu núna, væntanlega í kjölfar Maastricht-samkomulagsins. Ég get sagt mína skoðun á því. Ég get sagt hv. þm. að þær breytingar styrkja enn þá skoðun sem ég hef haft árum saman, að við eigum ekkert erindi inn í Evrópubandalagið. Þar greinir okkur hv. 4. þm. Austurl. alls ekkert á. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að okkur sé mjög nauðsynlegt að ná hagstæðum viðskiptasamningum við Evrópuþjóðir. Í mínum huga snýst málið fyrst og fremst um þetta: Ég hef ekki séð það enn hvort við náum þeim samningum gegnum hið Evrópska efnahagssvæði. Ég vil fá að sjá málið í heild og hvað fylgir með í pakkanum áður en hægt er að kveða upp þann dóm. En það liggur bara einfaldlega ekki fyrir enn þá.
    Það liggur heldur ekki fyrir hvort Íslendingar geta á lokastigum snúið þeirri samningsgerð upp í tvíhliða samning við Evrópubandalagið á sama tíma og samstarfsþjóðir okkar í EFTA eru allar að ganga þar inn. Þessu öllu verðum við að gefa gaum á næstu vikum og mánuðum. Ég er reyndar sammála hv. formanni utanríkismálanefndar hvað það varðar að þarna séu engir stórir hlutir að gerast alveg á næstunni. Og við þurfum vonandi ekki að sitja fagra sumardaga á Alþingi yfir þeim málum.