Fiskistofa

117. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 18:30:00 (5100)


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að þau mál sem nú er verið að flytja séu búin að vera í nokkurn tíma í vinnslu í sjútvrn. og að hugmyndin hafi verið orðin til í tíð fyrri ríkisstjórnar og frumvinnan að breytingunum þegar verið hafin. Ég get tekið undir þau meginmarkmið sem hér koma fram. Í fyrsta lagi held ég að eðlilegt og æskilegt sé að tvö stjórnsýslustig fjalli um útfærslu fiskveiðistefnunnar þannig að sami aðili hafi ekki vald til að setja reglugerðirnar og annast framkvæmdina. Þetta hefur verið nokkuð lengi til umræðu og ég tel þessa breytingu verulega til bóta.
    Ég ætla að nefna annan þátt í þessu sambandi og það er gæðaeftirlitið. Þarna sýnist mér löggjafinn í raun og veru fylgja eftir þeirri þróun sem hefur verið varðandi gæðaeftirlit í allri framleiðslu, sérstaklega þó matvælaframleiðslu og að ekkert kemur í stað innra eftirlits fyrirtækjanna. Enginn aðili getur tryggt gæðin betur en sá sem vinnur við þetta á hverjum stað. Það er svo annað mál að nauðsynlegt er að ríkisvaldið hafi þar nokkuð eftirlit og að mínu mati verða allar rannsóknir, mælingar á efnainnihaldi og annað slíkt að vera í höndum ríkisins. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur sem teljum okkur flytja út hágæðavöru en það er bara ekkert mark tekið á slíku nema sá stimpill sé látinn fylgja að það sé kannað og mælt. Ég ítreka að endanlegur árangur og endanleg gæði ráðast af innra eftirliti fyrirtækjanna og að ekkert getur komið í staðinn fyrir það.
    Varðandi hugmyndir um að stofna hlutafélag úr Ríkismati sjávarafurða tek ég það skýrt fram að ég hef út af fyrir sig ekkert á móti hlutafélögum. Það er þjált og æskilegt rekstrarform á mjög mörgum sviðum. Og það er rétt hjá hæstv. sjútvrh. að það er eina nothæfa formið sem við höfum í samstarfi ríkisins og annarra aðila. Hins vegar vil ég fara nokkrum varnarorðum um framkvæmd slíkrar breytingar. Fyrst nefni ég víti sem við höfum til varnaðar og er Bifreiðaskoðun Íslands. Þar hefur að mínu mati ekki tekist vel til í samstarfi ríkis og einkaaðila um rekstur hlutafélags um ákveðna þjónustu. Það segir mér að menn þurfi að vanda mjög til verka strax í upphafi og setja sér skýr markmið sem þyrftu helst að liggja fyrir meðan þingið er enn að fjalla um málið.
    Í öðru lagi vil ég nefna það sem kom fram hjá hæstv. ráðherra um biðlaun. Af því sem komið hefur fram á síðustu vikum, m.a. í umfjöllun þingnefnda um breytingu á ríkisfyrirtækjum í hlutafélög, sýnist mér þó nokkuð starf óunnið þar varðandi biðlaunin. Þeir sem ganga lengst telja að verndað sé í Stjórnarskránni að menn haldi biðlaunaréttindum nánast hvernig sem að breytingunni er staðið. Ég get ekki tekið undir þau sjónarmið, a.m.k.

ekki í þeim tilfellum þar sem viðkomandi heldur sínu starfi hjá nýju fyrirtæki.
    Fjórði þátturinn sem ég ætla að ræða varðandi framlagningu þessara frumvarpa ræðst nokkuð af ákvæðum í hinni hvítu bók sem hæstv. núv. ríkisstjórn gaf út eftir að hún komst til valda. Þar eru ýmis markmið ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili sett fram.
    Ég minni á að í hinni hvítu bók eru fyrirheit um flutning ríkisstofnana út á land. Ég hef alla tíð gert mér grein fyrir því að slíkt er erfitt og flókið og langt frá því að vera einfalt í framkvæmd. Ég hef hins vegar alltaf haldið því fram að þægilegast væri að eiga við slíkt þegar um nýjar stofnanir væri að ræða. Nú veit ég að hér er ekki nema að hluta til um nýja stofnun að ræða, þ.e. verið er að steypa saman þáttum sem hafa verið í höndum margra aðila. Hins vegar held ég að þetta tilefni, stofnun Fiskistofunnar, ætti að nota til að setja fram markmið um staðsetningu Fiskistofunnar utan höfuðborgarsvæðisins og því markmiði væri hægt að ná á einhverju árabili. Ég tel það á margan hátt vel við hæfi, ekki síst þar sem hér er verið að sýsla með sjávarútveginn og fiskvinnsluna sem er uppistaðan í atvinnulífinu mjög víða í hinum dreifðu byggðum.
    Í þessu sambandi nefni ég að nú í vikunni samþykkti bæjarráð Akureyrar áskorun til allra hlutaðeigandi aðila þess eðlis að Fiskistofan yrði á Akureyri og þá í tengslum við sjávarútveginn, rannsóknir og kennslu, og gæti verið stoð fyrir þá starfsemi. Ég geri mér að vísu fulla grein fyrir því að um er að ræða starfsemi sem er ekki nema að hluta til skyld en mundi engu að síður verða mikil stoð og að mínu mati getað samnýtt starfskrafta að hluta. Háskólanum á Akureyri, sjávarútvegsbrautinni, væri mikill styrkur að slíku.
    Nú skyldi maður ætla að þetta mál væri auðunnið með tilvísun til hvítu bókarinnar og að sami flokkur fer með forustu í ríkisstjórn og bæjarstjórn á Akureyri. Samskiptaleiðir við að hrinda þessu áhugamáli bæjarstjórnar Akureyrar í framkvæmd ættu því að vera greiðar. Það er einu sinni svo að mjög mikill þungi er orðinn í þessari umræðu á landsbyggðinni. Þar láta menn sér ekki nægja lengur fögur orð og fyrirheit. Ég vil taka skýrt fram að ég er ekkert sérstaklega að gagnrýna núverandi stjórnvöld sem hafa setið að völdum í nokkra mánuði. Þetta á ekkert síður við þá sem hafa verið við stjórnvölinn á undanförnum áratugum en það er orðinn mikill þungi í umræðunni og menn krefjast aðgerða í framhaldi af fögrum orðum.
    Ég minni til viðbótar m.a. á tillögu Árna R. Árnasonar, 5. þm. Reykn., um möguleika á því að Landhelgisgæslan flytjist til Keflavíkur. Ég hef bent á það í þessu sambandi að ég teldi að næsta æskilega skref varðandi Hafrannsóknatofnun væri að í það minnsta rekstur annars hafrannsóknaskipsins væri fluttur norður á Akureyri þannig að það eru ýmsir möguleikar fyrir hendi. Hér á kannski við frekar en nokkru sinni fyrr að vilji er allt sem þarf.
    Það var m.a. af þessum orsökum, til þess að sýna í það minnsta minn vilja í verki, að ég væri tilbúinn til að veita núv. hæstv. ríkisstjórn allt mitt lið í þessum málum, að við tveir þingmenn lögðum á Alþingi í gær fram lagafrv. sem kveður á um flutning ríkisstofnana. Ég hafði gert mér vonir um að flutningsmenn frá öllum flokkum fengjust með á frv. en það tókst ekki þrátt fyrir vissan vilja einstakra þingmanna að fá leyfi stjórnarflokkanna til þess að meðflutningsmenn frv. væru úr röðum þeirra. En þrátt fyrir það, og þó að það tengist ekki þessu máli nema óbeint og sé ekki til umræðu nú, þá geri ég mér vonir um að það frv. fái þinglega meðferð í vetur og í það minnsta allra þeirra þingmanna sem hafa lýst svipuðum skoðunum í máli sínu og hvað þá þeirra sem hafa gert það með tillöguflutningi á Alþingi.