Fiskistofa

117. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 19:20:00 (5105)

     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að við þurfum ekki að karpa hérna. Við erum báðir í sjútvn. og gætum hafið umræðuna þar. Sjálfsagt náum við ekki saman þar um málið því býsna mikið bil er á milli okkar í málaflokknum stjórn fiskveiða. Það sem ég á við þegar ég segi að ramminn hafi verið smíðaður, eru það fyrst og fremst um hina ýmsu stjórnunarþætti. Ramminn er fyrst og fremst um það að við náum hámarksnýtingu og hámarksarðsemi þess takmarkaða magns sem draga má úr hafinu. Það er allur galdurinn. Enginn vafi er að það sem hefur kannski farið mest úrskeiðis er að við höfum fram að þessu ekki getað haldið okkur við það aflamark sem stjórnvöld hafa ákveðið hverju sinni. Þess vegna voru gerðar svo veigamiklar breytingar á þeim ramma sem ég er að tala um þegar breytt var úr sóknarmarki í aflamark til þess að standast þau ákvæði sem ákveðin eru hverju sinni. En við þurfum ekkert að vera hissa á því þó að það taki okkur einhverja stund að smíða slíka reglugerð eða löggjöf um jafnyfirgripsmikinn þátt og sjávarútvegur á Íslandi er.