Dýrasjúkdómar

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 10:50:00 (5112)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir flutning þessa frv. Að sjálfsögðu er mikilvægt að lagaákvæði um þetta málefni séu sem mest sniðin eftir þeim aðstæðum sem ríkja á hverjum tíma. Við vitum að miklar breytingar hafa orðið síðan núgildandi lög voru sett þó þau hafi á margan hátt reynst vel m.a. við að koma í veg fyrir að sjúkdómar bærust hingað. Þegar það hefur gerst, í örfáum tilvikum með miklu tjóni fyrir landbúnaðinn og þjóðfélagið allt, hefur á grundvelli þeirra verið brugðist við og árangur náðst þannig að nú væntum við þess að heilbrigði okkar bústofns, a.m.k. margra tegunda, sé betri en oft áður. Er skemmst að minnast átaks til útrýmingar á riðuveikinni og hæstv. ráðherra rakti hér.
    Eins og hæstv. ráðherra gat um fjallaði nýafstaðið búnaðarþing um frv. og gerði nokkrar ábendingar við breytingar á því þó í heild væri lýst yfir stuðningi við það. Hæstv. ráðherra fjallaði sérstaklega um það að vegna árangurs sem náðst hefur við útrýmingu riðuveiki væri ekki lengur þörf á sauðfjársjúkdómanefnd. Hægt er að taka undir það að ekki er ástæða til að vera með sérstaka nefnd til þess að fjalla um sauðfjársjúkdóma fremur en aðra sjúkdóma þar sem við væntum þess að heilbrigði sauðfjár sé nú orðið betra en það hefur verið um margra áratuga skeið. Hins vegar bendir búnaðarþing á að æskilegt geti verið að hafa nefnd sem væri tilbúin að fjalla um vandamál ef upp kæmu í sambandi við sjúkdóma í öllum búfjártegundum. Ég held að sauðfjársjúkdómanefnd hafi oft verið til stuðings fyrir ráðuneytið við framkvæmdir og að ráða fram úr mörgum viðkvæmum ágreiningsmálum. Því vænti ég þess að landbn. skoði þær ábendingar ítarlega sem komu frá búnaðarþingi um þetta atriði.
    Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta en tek að lokum undir það með hæstv. ráðherra að aðalatriðið í þessu sambandi er að sjálfsögðu að hvergi verði slakað á kröfum og aðgát varðandi sjúkdómavarnir. Nú er ekki síður mikið í húfi en áður að þarna verði staðið vel á verði og ekki verði alvarleg slys.