Jarðasjóður

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 11:16:00 (5114)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Endurskoðun jarðalaga hófst í landbrn. sl. haust. Síðan hef ég ásamt dómsmrh. falið þremur mönnum, Ólafi Walter Stefánssyni ráðuneytisstjóra, Stefáni Má Stefánssyni prófessor og Tryggva Gunnarssyni hæstaréttarlögmanni, að gera úttekt á áhrifum EES-samningsins á íslenska löggjöf um eignarhald á fasteignum og fasteignaréttindi og heimildir erlendra aðila til að eignast fasteignir, þar með talið land og bújarðir. Vænti ég þess að álitsgerð þeirra geti legið fyrir í lok þessa mánaðar. Það varð að ráði

að heildarendurskoðun jarða- og ábúðalaga biði þeirrar niðurstöðu.
    Gildandi lagaákvæði um Jarðasjóð ríkisins eru í VI. kafla jarðalaga nr. 65/1976, sbr. breytingu með lögum nr. 90/1984. Við endurskoðun þeirra þótti rétt að setja sérstök lög um Jarðasjóð. Með frv. er ákvæðum sem nú gilda fækkað og þau einfölduð. Aðalbreytingin frá gildandi ákvæðum er í 4. gr. frv. um tekjur sjóðsins. Þar er gert ráð fyrir að í Jarðasjóð renni afgjöld ríkisjarða sem eru á forræði landbrn. svo og leiga eftir lóðir og landspildur sem leigðar hafa verið úr landi jarðanna. Gera má ráð fyrir að þær nemi rúmlega 20 millj. fyrir árið 1992. Nú renna leigutekjur þessar í ríkissjóð.
    Að frátöldu ákvæðinu í 4. gr. frv. eru eftirtaldar breytingar gerðar á núgildandi ákvæðum um Jarðasjóð ríkisins:
    a. Hlutverki sjóðsins í 1. gr. er breytt til samræmis við viðauka II í búvörusamningi. landbrh. og Stéttarsamband bænda frá 11. mars 1991.
    b. Felld eru niður ákvæði 44. gr. laga um skyldur jarðanefndar og Búnaðarfélags Íslands til að rannsaka búrekstrarskilyrði jarða sem boðnar eru Jarðasjóði til kaups.
    c. Nefnd sú sem ráð er fyrir gert að starfi skv. 45. gr. laganna hefur ekki verið skipuð og ákvæðið fellt brott, enda verður að telja óþarft að hafa slíka nefnd starfandi og eðlilegt að leita eftir skipan dómkvaddra matsmanna þegar á þarf að halda.
    Um einstakar greinar frv. er þetta helst að segja:
    Í 1. gr. er lagt til að hlutverki Jarðasjóðs sé breytt til samræmis við búvörusamning eins og áður segir þar sem m.a. er kveðið á um ákveðið fjármagn til að kaupa jarðir bænda sem afsalað hafa fullvirðisrétti og jarðir sem ekki seljast á frjálsum markaði. Jafnframt að aðstoða sveitarfélög við eigendaskipti að jörðum eins og nú er.
    Heimildarákvæðum til kaupa Jarðasjóðs samkvæmt 2. gr. er fækkað um tvö. Felld eru brott ákvæðin í 3. og 6. tölul. annars vegar um jarðir sem ekki njóta framlaga og lána sem veitt eru til umbóta á lögbýlum sbr. jarðræktarlög og hins vegar um jarðir sem hreppsnefndir hafa hafnað forkaupsrétti á en jarðanefnd viðkomandi sýslu mælir með að Jarðasjóður kaupi. Heimildaákvæði þessi þykja úrelt orðin, auk þess sem önnur eru það rúm að á engan hátt er þrengt að möguleikum sjóðsins til jarðakaupa þótt þeim sé fækkað eins og hér er lagt til.
    Í 3. gr. er kveðið á um að að mati dómkvaddra manna ráði kaupverð jarðar þegar þannig háttar að ekki næst samkomulag milli Jarðasjóðs og seljanda í stað mats þriggja manna nefndar sem fjallað er um í 45. gr. jarðalaga.
    Samkvæmt 42. gr. jarðalaga eru tekjur Jarðasjóðs annars vegar andvirði seldra ríkisjarða og árlegt framlag samkvæmt fjárlögum.
    Til viðbótar gerir frv. þetta ráð fyrir að afgjald ríkisjarða og forræði landbrn. og leiga eftir lóðir og landspildur, sem leigðar eru úr ríkisjörðum, renni í Jarðasjóð en þessar tekjur renna nú í ríkissjóð. Eðlilegra þykir að hafa þennan hátt á og ætti að vera vörslumönnum ríkisjarða og Jarðasjóðs hvati til að hafa góðar reiður á innheimtu afgjalda.
    Í umsögn fjmrn. kemur fram að frv. þetta hafi ekki í för með sér aukin útgjöld ríkissjóðs.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að þessu máli sé vísað til 2. umr. og landbn.