Jarðasjóður

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 11:20:00 (5115)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Hæstv. landbrh. hefur mælt fyrir frv. til laga um Jarðasjóð sem fjallar um mál sem er úr einum kafla núgildandi jarðalaga. Það getur vel verið að eðlilegt sé og jákvætt að gera þetta að sérstökum lögum en vegna ummæla hæstv. ráðherra um endurskoðun á jarðalögunum með tilliti til hugsanlegra samninga eða nýrra alþjóðasamninga þá finnst mér að það geti verið vafamál að tímabært sé að afgreiða þetta frv. fyrr en nánar sér fyrir endann á þeim samningum og hvernig menn ætli að bregðast við þeirri úttekt sem hæstv. ráðherra talaði um að væri verið að gera og væntanlega lægi fyrir síðar í þessum mánuði.
    Mér sýnist því að landbn. muni þurfa að skoða þetta mál mjög vandlega. Mér finnst ekki ólíklegt að ef af slíkum alþjóðasamningum yrði sem nú er verið að ræða um mundi þurfa að breyta lögum um Jarðasjóð með tilliti til þess. Að mínu mati er það ákaflega mikilvægt að halda jarðeignum í eigu okkar Íslendinga og það gæti þá verið nauðsynlegt í sumum tilvikum að Jarðasjóður væri það öflugt tæki til að geta aðstoðað við slíkt. En það sést að sjálfsögðu betur þegar þeirri endurskoðun, sem ég minntist á áður og hæstv. ráðherra gat um, er lokið og þá hvernig ætlast er til að fara með þau mál. Ég vildi fyrst og fremst koma fram þeirri ábendingu að landbn. skoði þetta mál mjög vel með tilliti til þessara atriða, sem sagt endurskoðun jarðalaganna að öðru leyti með tilliti til hugsanlegra alþjóðasamninga.