Skálholtsskóli

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 13:41:00 (5129)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :

    Frú forseti. Ég tel þá niðurstöðu sem orðið hefur í samstarfi ráðuneytanna og kirkjunnar um rekstur skólans mjög skynsamlega. Síðari ákvarðanir um áframhaldandi uppbyggingu hans verða að ráðast af því hvernig til tekst um skólastarfið á næstu árum. Ég hygg að vonir allra hv. þm. séu við það bundnar að við getum eflt þennan skóla og bætt húsakynni hans en ákvarðanir þar um verður að taka á síðara stigi og að ekki er tilefni til þess að taka skuldbindandi ákvarðanir nú um hlutverk ríkisins í því efni. Skilningur hefur verið innan kirkjunnar á því að meginatriðið er að koma rekstrinum af stað í nýju formi og koma þeim nýmælum fram. Það er kjarni málsins. Mestu máli skiptir að Alþingi takist á við það verkefni og treysti kirkjunni fyrir þeirri nýju ábyrgð sem lögð er á herðar hennar með frv. því sem hér liggur fyrir.