Skálholtsskóli

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 13:48:00 (5131)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :

    Frú forseti. Að sjálfsögðu er ekki ástæða til þess að eyða löngum tíma í þref um það til hvaða nefndar mál eigi að fara þó að vitaskuld skipti það nokkru að rétt sé staðið að ákvörðunum í því efni. Ég vil aðeins ítreka fyrri sjónarmið mín að því er málið varðar. Það er samkvæmt þingsköpum gert ráð fyrir því að málum sé vísað til nefndar með hliðsjón af því hvernig mál skiptast á milli ráðuneyta. Hér er um að ræða frv. sem heyrir undir kirkjumálaráðuneytið og er af þeim sökum eðlilegt að fari til allshn. Vegna skírskotunar til guðfræðikennslu í Skálholtsskóla og þess að Háskóli Íslands heyrir undir menntmrn. vil ég ítreka að einmitt fyrir þá sök á bæði Háskólinn og guðfræðideildin fulltrúa í stjórn hins nýja skóla ef frv. verður að lögum. Ég vil líka minna á að Háskóli Íslands eðli máls samkvæmt lýtur verulegri sjálfsstjórn um innri málefni sín og þess vegna er eðlilegt að fulltrúar skólans sjálfs og guðfræðideildarinnar komi að þessum stjórnunarstörfum miklu fremur en menntmrn. vegna þess að Háskólinn á vegna hlutverks síns að njóta verulegrar sjálfsstjórnar um innri málefni sín. Ég tel að eins og frv. er upp byggt séu þarna eðlileg tengsl á milli.
    Ég ítreka svo fyrri sjónarmið mín um það að eðlilegt sé að frv. verði vísað til allshn.