Skálholtsskóli

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 13:50:00 (5132)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fjalla um eða bregðast við því sem sagt var um frv. sjálft og ákvæði þess. Mér finnst það ekki ráðast af því sérstaklega til hvaða þingnefndar því er vísað hvernig fyrirhugað er að koma þessum málum fyrir stjórnunarlega varðandi Skálholtsskóla. Mér finnst óskylt þessu efni hvernig við eigum að fjalla um þetta í nefndum þingsins. Ég bendi á að nú getur hvaða þingmaður sem er komið með frv. alveg eins og hæstv. ráðherrar og lagt fyrir Alþingi og lagt til breytingu frá tilhögun á málum og lögum sem eru í gildi. Mér þætti dálítið sérkennilegt ef það ætti að láta það ráðast hvert málum er vísað hér í þinginu eftir því hvaða hugmyndir koma hvort sem það er hæstv. ráðherrar sem leggja fram mál um breytingar á gildandi lögum eða einhverjir hv. þm. og það eigi síðan að ráða því hvert málin fara. Ég held að þingsköpin séu ekki ráðandi eða vísi ekki á það ef menn eru að breyta til frá Stjórnarráðinu eða koma með tillögur um að breyta þar til frá gildandi lögum þá eigi það ekki að vera ákvarðandi heldur hitt, efni máls og þeirra laga sem verið er að breyta og færa til annarrar áttar en verið hefur. Þessa vildi ég geta sem sjónarmiðs inn í þá umræðu og skoðanaskipti sem hér hafa farið fram.