Hjúskaparlög

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 14:22:00 (5141)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. Ragnhildur Eggertsdóttir hefur farið yfir þetta frv. efnislega. Á hún sæti í hv. allshn. á meðan hún situr á Alþingi og mun þá væntanlega fjalla um frv. þar. En það er aðeins eitt atriði sem mig langar að gera að umtalsefni og það er 42. gr. frv. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta: ,,Skylt er að leita um sættir með hjónum sem eiga ósjálfráða barn, annað eða bæði, er þau hafa forsjá fyrir``. Síðar segir: ,,Prestar leita um sættir eða löggiltir forsvarsmenn trúfélaga. Nú er annað eða bæði hjóna utan trúfélaga eða hvort heyrir til sínu trúfélagi og getur þá sýslumaður eða dómari eftir því hvar mál er til meðferðar leitað um sættir.`` Ég tel að það sé ekki eðlilegt að fólk hafi ekki möguleika á að leita til fleiri aðila um sættir en eingöngu presta og löggiltra forstöðumanna trúfélaga. Ég hefði talið eðlilegt að fleiri aðilar kæmu þarna að þótt ég hafi ekki tillögu um hverjir það ættu að vera hér og nú. Langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki hafi komið til álita að þarna kæmu fleiri að. Nú vil ég minna á að margar hjónavígslur fara fram hjá sýslumönnum eða bæjarfógetum og finnst mér eðlilegt að fólk sem er í þannig hjónabandi geti leitað annað en til prestanna. Mér finnst annað óeðlilegt og langar til að spyrja um þetta atriði. Það er möguleiki að það sé í einhver annari grein, ég hef ekki lesið frv. svo nákvæmlega enda er það margar síður og stutt síðan við fengum það á borðin. Ef þetta hefur ekki komið til álita þá hefði mér þótt eðlilegt að allshn. liti einmitt á þennan þátt málsins.