Hjúskaparlög

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 14:25:00 (5142)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur orðið. Það er mjög skiljanlegt að hv. þm. hafi ekki haft mikinn tíma til að kynna sér frv. og því eðlilegt að frekari umræða verði um málið eftir að hv. allshn. hefur farið yfir frv. Það er vissulega efnismikið og þarfnast rækilegrar skoðunar. Hér hafa tveir hv. þm. borið fram fsp., hv. 9. þm. Reykn. um álit mitt á 10. gr. frv. og 60. gr. þess. Því aðeins hef ég lagt frv. fram með efnisákvæðunum eins og segir í lagafrv. að ég lít svo á að í báðum tilvikum sé um eðlilega skipan mála að ræða. En vissulega er ástæða til þess að taka öll þau sjónarmið sem hér hafa komið fram í umræðunni til skoðunar í hv. nefnd og ég vænti þess að nefndin taki að venju þær ábendingar sem fram hafa komið við umræðuna til athugunar. En skoðanir mínar um það hvað eðlilegast er í báðum tilvikum koma í raun fram í frv. sjálfu.
    Að því er varðar spurningu hv. 15. þm. Reykv. um sáttaaðila þá er það mín skoðun að eðlilegt sé að prestar fari með þetta hlutverk. Það er svo kveðið á um það að bæði sýslumenn og dómarar eftir því hvar mál er til meðferðar geti farið með þessi mál hjá aðilum sem eru utan trúfélaga. En þess hefur einnig verið gætt við þessa frumvarpssmíð að ráðgjöf af þessu tagi geti farið fram með öðrum hætti og í lokamálsgrein 42. gr. segir að dóms- og kirkjumálaráðuneytið geti ákveðið í reglugerð að sáttaumleitan í stofnun um fjölskylduráðgjöf geti komið í stað sáttaumleitunar samkvæmt þessari grein. Þannig að þar er gert ráð fyrir því að unnt sé að víkka þetta eða fela fleiri aðilum en meginregla frv. gerir ráð fyrir að fari með sáttaumleitanir.
    Hv. 3. þm. Reykv. vék réttilega að því að hv. allshn. hefur haft og hefur mjög mörg stór og viðamikil frv. til meðferðar og hefur hún unnið mjög vel og vandvirknislega að öllum þeim málum sem hún hefur fengið til meðferðar á þessu þingi. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það er býsna erfitt að koma fram jafnviðamiklu frv. með hliðsjón af þeim miklu störfum sem hvíla á nefndinni. En ein meginástæðan fyrir því að þessi ósk er borin fram er að hluti frv. lýtur að þeirri réttarfarsbreytingu sem tekur gildi 1. júlí nk. með aðskilnaði dómsvalds og umboðsvalds í héraði og einkum með tilliti til þeirra hagsmuna var þessi hógværa ósk fram borin.