Hjúskaparlög

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 14:31:00 (5144)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Hér hefur m.a. verið rætt um orðalag greina í þessu frv. sem vafalaust er að mörgu leyti til bóta en ég skal aðeins víkja nánar að því síðar. Sérstaklega var rætt um 5. gr. þar sem stendur í frv.: ,,Hjúskap lýkur fyrir andlát maka`` o.s.frv. Ég kastaði hér fram hugmyndinni um að orða þetta: Hjúskap lýkur við andlát maka, en það fékk ekki undirtektir skildist mér hjá flm. eða fólki hér almennt. Mér sýnist einsætt að leysa þetta deilumál með þeim hætti að tala íslensku. Það vill nefnilega þannig til, og ég segi það nú þó að ég eigi að heita hæstaréttarlögmaður, að þetta lagamál er oft til mikilla lýta og skemmir mjög íslenskt mál. Þetta er kansellístíll frá þýðingum á dönskum lögum og norskum og ill íslenska sem á að reyna að uppræta sem mest og mættu ungir lögfræðingar gjarnan temja sér það að reyna að tala íslensku en ekki ,,lögfræðsku``. En það var nú annað mál.
    Það er ýmislegt í þessu frv. sem ég mundi vilja gera athugasemdir við ef ekki væri svo illa farið hér í þessum hóp að konur eru nú fleiri á þingi í þessu augnabliki og lengst af, a.m.k. svona að morgunlagi og ég er alltaf svolítið hræddur við konur. En mér finnst óþarft að fara að hnýsast í öll einkamál okkar karlanna, peningamál og annað slíkt. Ég held að við eigum að gæta varhug við því og hafa svona sæmilegt jafnræði í þessu, að menn hafi a.m.k. vasapeningana sína í friði.