Hjúskaparlög

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 14:34:00 (5146)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir að leggja fram þetta frv. en eins og fram hefur komið er þetta mikið frv. í 17 köflum og engin leið að átta sig á snöggu augabragði á öllum þeim þáttum sem í þessu frv. felast. En samt sem áður, af því að það er nokkuð nákvæmlega til orða tekið á ýmsum stöðum, þar er nákvæmlega getið um það hvaða réttindi og skyldur eru við hjúskaparslit, þetta er svona hálfgert skilnaðarfrv., þá finnst mér vanta í það að frekar sé getið um það hvaða réttindi og skyldur menn eiga að hafa áður en þeir ganga í hjónaband. Þetta er mikilvæg stofnun og mikilvægt að fólk viti út í hvað það er að ganga og það er að mínu mati nauðsynlegt, sérstaklega í ljósi þess hvað hjónaskilnaðir eru nú tíðir á Íslandi, að fólk fái einhverja fræðslu áður en það gengur í hjónaband þannig að það fái að vita hverjar eru skyldur þess og hver er réttur þess í hjónabandinu. T.d. að það komi hv. þm. Eyjólfi Konráð ekkert á óvart þegar konan hans vill vita nákvæmlega hvað er í buddunni hjá honum því að eftir að frv. verður að lögum verður hann að láta hana vita nákvæmlega hvað er í buddunni. Sæll er sá sem annan á en á sig sjálfan þó. Nú á Eyjólfur Konráð, ef þetta frv. verður að lögum, sig ekki alveg sjálfur og ekki það sem í buddunni er þannig að mér finnst nauðsynlegt, þegar svona miklar breytingar verða, að menn geri sér grein fyrir því áður en í hjónabandið er gengið að svona á þetta að vera. Þetta er það sem mér finnst vanta. Hins vegar er mjög nákvæmlega fjallað í 3. gr., og spurning hvort það á að vera í lögum, um verkaskiptingu og upplýsingar um efnahag, þ.e. að hjón skuli skipta milli sín verkum á heimili eftir föngum. Mér finnst mikil spurning hvort þetta á að vera í lögum. ( Gripið fram í: Jú, jú, jú.) Mér finnst það t.d. mikil spurning fyrir mig sem hérna stend og hef ekki komið heim til mín lengi hvort þetta eigi að vera í lögum.
    Ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta frv. verður ekki afgreitt á þessu þingi þrátt fyrir góðan vilja svo viðamikið sem það er því það eru margar og svo miklar breytingar í þessu frv. sem menn hljóta að þurfa að skoða. En í sambandi við 5. gr. þá er ég sammála athugasemdum sem fram hafa komið því að ég hef velt þessu mikið fyrir mér: Hjúskap lýkur fyrir andlát maka. Það kynni að vera að einhver vildi misskilja þessi orð og notfæra sér það þannig að mér finnst rétt að þarna sé skýrara til orða tekið.