Ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 15:15:00 (5151)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég hélt að hv. 4. þm. Norðurl. e. væri vaxinn upp úr útúrsnúningastíl sínum í umræðum í þinginu. Ég minni á að nú fer fram samkvæmt lögum, sem Alþingi hefur sett, endurskoðun á fiskveiðistefnunni. Það var kveðið á í lögunum með hvaða hætti sú endurskoðun ætti að fara fram. Ríkisstjórnin skipaði sérstaka nefnd til þess að hafa yfirstjórn með því máli. Það hlýtur að teljast eðlilegt enda

ber hún ábyrgð á málaflokknum. Hún skipaði í samræmi við ákvæði laganna nefnd hagsmunaaðila sem unnið hefur að málinu með þeirri nefnd sem ríkisstjórnin skipaði. Jafnframt var gert ráð fyrir því að sjútvn. þingsins gæti haft frumkvæði að sjálf með hvaða hætti hún kæmi að þessu starfi, hversu oft og í hversu ríkum mæli hún kallaði á upplýsingar eða kæmi sínum eigin sjónarmiðum á framfæri. Það var gert til þess að auka sjálfræði og sjálfstæði sjútvn. við þessa endurskoðun en ekki til þess að rýra það. Þvert á móti höfðu komið fram umkvartanir um það meðan gamla skipulagið var í gildi að sjútvn. væri hálfpartinn sett til hliðar þegar einstakir þingmenn væru settir í fjölmennar nefndir hagsmunaaðila en gætu ekki komið með sjálfstæðum hætti að þessari endurskoðun. Það er þess vegna í fullu samræmi við það sem ég tel óeðlilegt að þingið álykti nú um einstök atriði þessarar endurskoðunar og bindi hendur þeirra aðila sem Alþingi sjálft hefur falið þessa endurskoðun. Ég sagði ekki að það væri óheimilt heldur væri það óeðlilegt vegna þess að Alþingi sjálft hefur ákveðið að endurskoðun skuli fara fram og við hverja skuli hafa samráð. Það væri í ósamræmi við þær ákvarðanir að tekið yrði fram fyrir hendurnar á þeim sem það verk eru að vinna samkvæmt ákvörðun Alþingis sjálfs.