Ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 15:18:00 (5152)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Þetta er ósköp einfaldlega rangt hjá hæstv. sjútvrh. Alþingi Íslendinga hefur ekki skipað þá Þröst Ólafsson og Magnús Gunnarsson til verka, það er ósköp einfaldlega rangt. Það hefur ríkisstjórnin gert og tókst ekki betur til en svo að eftir margra mánaða þóf varð til þessi tvíhöfðaði óskapnaður sem er auðvitað stjórnskipulegt slys, að geta ekki einu sinni haft einn mann við borðsendann til þess að stjórna fundum og verklagi þessarar nefndar. Það ber órækt vitni um ástandið í þessum efnum innan stjórnarherbúðanna.
    Ég held að hæstv. sjútvrh. verði að viðurkenna að það hefur ekki tekist til sem skyldi í sambandi við samráð sjútvn. Alþingis við þessa vinnu. Órækt dæmi um það er t.d. sú staðreynd að formaður sjútvn. varð að skrifa bréf til endurskoðunarnefndarinnar fyrir nokkrum vikum síðan til að fá upplýsingar um hvort hún væri á lífi, hvað hún væri að gera og biðja um að sjútvn. fengi upplýsingar um það sem þarna væri á ferðinni. Algert sambandsleysi var ríkjandi frá því á haustmánuðum eftir þann eina fund sem sjútvn. og endurskoðunarnefndin höfðu átt saman og þangað til sjútvn. varð að skrifa bréf til nefndarinnar til að fá upplýsingar um það hvort hún væri á lífi og ef svo væri, hvað hún væri þá að gera og kalla síðan nefndina fyrir sig. Og ríkisstjórnin setti þessi mál í þannig farveg að það hefur alls ekki verið það samráð við sjútvn. sem ætlunin var.
    Ég er alveg undrandi, herra forseti, á því hvernig hæstv. sjútvrh. stillir hér hlutunum upp. Er það virkilega meining hæstv. ráðherra sem mér sýnist svo eftir tvær ræður að hann sé að segja að Alþingi eigi ekkert að skipta sér af þessum málum meðan hin virðulega endurskoðunarnefnd sé að starfa? Það er nú nýtt að hæstv. sjútvrh. sé orðinn svona ánægður með þessa endurskoðunarnefnd og Þröst Ólafsson t.d., fulltrúa Alþfl. í henni. Það veit sennilega á mikil tímamót í þessum málum öllum saman. En auðvitað er það svo, hæstv. sjútvrh., að þessi málflutningur gengur ekki upp, m.a. vegna þess að endurskoðunarákvæðið kveður á um að sú vinna geti staðið allt til áramóta en kvótaárinu lýkur 31. ágúst nk. Af þeim sökum einum getur reynst óhjákvæmilegt að grípa til ráðstafana áður en endurskoðunarstarfinu lýkur.