Ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 15:27:00 (5156)

     Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að hæstv. sjútvrh. hlýtur að vita betur. Hann hefur þá ekki lesið frumvörp sín eins vel og hann vill vera láta. Þar úir og grúir af öllum þeim hugtökum sem tengjast því stjórnkerfi gildir um fiskveiðarnar í þessum plöggum. Auðvitað þarf að breyta þessu meira og minna ef menn ætla að fara að stjórna með einhverjum öðrum hætti. Nú er ég ekkert að segja að það verði niðurstaðan, en allt sem hefur komið fram í sambandi við meðferð þessara mála bendir í eina átt. Hæstv. sjútvrh. er að reyna að klóra í bakkann og ráða einhverju. Það er verið að taka þetta meira og minna frá honum. Tillögur hans hafa verið teknar og settar í nefnd úti í bæ. Að vísu mótmælir hann því ekki opinberlega að málin séu tekin frá honum, en hann kemur með mál hér inn í þingið sem hann ætlar að reyna að koma með á eigin spýtur og láta verða að lögum hér í þinginu án þess að þessi nefnd fái að hafa áhrif á það. Ég er út af fyrir sig ekkert að gagnrýna hann sérstaklega fyrir þetta. Þetta er bara mjög athyglisvert að horfa upp á hvernig togast er á í stjórn landsins um þessar mundir.