Ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 15:30:00 (5158)

     Magnús Jónsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ýmislegt í málflutningi hæstv. ráðherra kom mér svolítið spánskt fyrir sjónir. Í fyrsta lagi talaði hann um boð og bönn. Hvað er núverandi fiskveiðistefna annað en boð og bönn? Ég má ekki fara út á sjó og ná mér í fisk og koma með hann að landi nema tryggja það að ég geti torgað honum sjálfur. Með öðrum orðum má ég ekki fara og ná í fisk og selja hann. Er það ekki bann og boð?
    Hann talaði um hagkvæmasta háttinn. Eru nema nokkrar vikur síðan hann lýsti því yfir að meiri hluti sjávarútvegsfyrirtækja væri á gjaldþrotabraut? Hefur þróunin þá verið á hagkvæmasta hátt undanfarin ár? Að vísu tók hann ekki með inn í það dæmi að hópur báta er rekinn á hagkvæman hátt, en hann er ekki tekinn inn í þessa tölu sem hann var að nefna þar vegna þess að menn treysta sér ekki til þess að fara inn í það bókhald.
    Varðandi aukið frjálsræði í peningamálum og opnun út á við sem hæstv. viðskrh. hefur beitt sér fyrir og ég styð að sjálfsögðu, er ekki hægt að kenna því um að við höfum lent í einhverju fjárfestingarbrjálæði í frystitogurum. ( Gripið fram í: Það þarf kannski ekki boð og bönn þar.) Það má kannski segja að hann vilji boð og bönn þar. Ég dró að vísu ekki þá ályktun af því sem hann sagði áðan að hann vildi boð og bönn þar, ég geri honum ekki upp þær skoðanir. En hins vegar held ég að kannski sé hægt að draga þá einföldu ályktun að stefnan í sjávarútvegi sé galin þegar hún leiðir til þessa en ekki að setja eigi boð og bönn í peningamálum. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti, ég ætla að ljúka máli mínu með því að segja að fyrir mér snýst þetta ekki bara um peninga. Við vitum að gífurleg fjárfestingarmistök í sjávarútvegi hafa átt sér stað á undanförnum árum og jafnvel 20 árum. Að ætla útiloka útgerð sem hefur verið stunduð á Íslandi frá því að land byggðist með veiðarfærum sem eru gjörsamlega skaðlaus náttúrunni og koma í staðinn fyrir togveiðum er hlutur sem ég held að við ættum að íhuga rækilega áður en við höldum lengra.