Samkeppnislög

119. fundur
Mánudaginn 06. apríl 1992, kl. 13:49:00 (5171)

     Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu) :
    Herra forseti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram. Þetta er stórt og mikið frv. sem var dreift hér eftir að mjög margir þingmenn höfðu horfið af fundi fyrir helgina. Þess vegna kom það mér og væntanlega fleirum mjög á óvart að sjá að ætlunin væri að ganga til atkvæðagreiðslna um afbrigði fyrir því að taka þetta frv. á dagskrá í dag.
    Ég hefði a.m.k. talið æskilegt að slíkri atkvæðagreiðslu yrði frestað þangað til á morgun þannig að þingflokkar gætu rætt saman um það hvort takast mætti samkomulag um að heimila umfjöllun um þetta mál á yfirstandandi þingi með afbrigðum. Nú vil ég alls ekki útiloka að svo geti orðið en þá er að það að sjálfsögðu samkomulagsatriði í þinginu og hlýtur að tengjast meðferð mála að öðru leyti. Ég bendi á að fyrir þinginu liggur annað mál sambærilegs eðlis sem varðar endurskoðun á löggjöf um samkeppni og reyndar lög um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti en frv. hæstv. viðskrh. er einmitt ætlað að koma í staðinn fyrir þau lög. Ég tel til að mynda óhjákvæmilegt að það verði rætt hvort þessi mál hljóti þá ekki að verða samferða í umfjöllun á hinu háa Alþingi ef til þess kemur að fallist verði á umfjöllun um frv. hæstv. viðskrh. sem er of seint fram komið eins og áður hefur komið fram. En með tilliti til þess að þingmönnum hefur alls ekki gefist neinn tími til þess að ræða það í sínum hóp hvort samkomulag geti tekist um einhverja þá tilhögun sem menn fallast á þá óska ég eindregið eftir því að þessari atkvæðagreiðslu verði frestað og hún fari í fyrsta lagi fram á morgun.