Samkeppnislög

119. fundur
Mánudaginn 06. apríl 1992, kl. 13:52:35 (5174)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. 1. þm. Norðurl. v. þegar hann lýsti afstöðu sinni til málsins. Ég er honum að öllu leyti sammála og þar með reyndar þeim hv. þm. 1. þm. Austurl., 18. þm. Reykv. og 4. þm. Norðurl. e. að eðlilegt sé að þingheimi gefist tóm til þess að kynna sér efni þessa viðamikla frv. Það gildir reyndar um mjög mörg mál sem lögð voru fram á síðustu dögum fyrir síðasta skiladag þingmála. Það er í alla staði eðlilegt en ég skildi erindi hæstv. forseta á þann veg sem forseti skýrði rétt áðan sjálfur að eingöngu væri verið að leita afbrigða til þess að málið mætti koma á dagskrá þingsins þótt umræða um það færi ekki fram í dag.
    Ég vil til skýringar láta það koma fram að á síðasta skiladegi nýrra þingmála á þessu þingi var gengið frá öllum skilaskjölum vegna þessa máls, þar með texta frv. í endanlegri gerð til skrifstofu þingsins í trausti þess að prentverkinu lyki þann dag eða meðan þingfundur var eins og til var ætlast. Því miður urðu tafir í prentsmiðjunni til þess að málið komst ekki í hinu prentaða formi til þingsins. Í því og því einu liggur töfin. Ég vona að þingheimur hafi skilning á málinu og greiði því atkvæði að málið megi fyrir koma en að sjálfsögðu verður þingmönnum veittur hæfilegur frestur til að kynna sér efni málsins.