Fulltrúar Alþingis á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Río de Janeiro

119. fundur
Mánudaginn 06. apríl 1992, kl. 14:17:00 (5184)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hæstv. umhvrh. að leitt er til þess að vita að umræðan hér á landi skuli fyrst og fremst snúast um það hversu margir verði sendir á þessa ráðstefnu því að innihald hennar skiptir auðvitað mestu máli. Í máli síðasta ræðumanns kom fram að ráðstefnustaðurinn væri mjög illa valinn. Auðvitað er ákveðin ástæða fyrir valinu og hún er eyðing skóganna í Brasilíu. Ég þykist vita að menn ætli sér að eiga þarna miklar samræður við stjórnvöld í Brasilíu og reyna að hafa áhrif á stefnu þeirra í umhverfismálum.
    Ég vil taka undir það að ég harma að það bréf sem lagt var fram á síðasta fundi þingflokksformanna skuli hafa komist í blöðin því að staða þessara mála er einfaldlega sú að mikil umræða á eftir að fara fram á vettvangi þingflokksformanna um það hvernig að þessum málum verði staðið. Við þurfum að fá ákveðnar upplýsingar um það hvernig staðið verði að ráðstefnunni í heild og hverjir verði fulltrúar Íslands. Ég vil benda á að sú ákvörðun sem hefur verið tekin af forsætisnefnd Alþingis var tilkynnt okkur þingflokksformönnum og þar átti sér ekki stað neitt samráð. Þetta er einhliða ákvörðun forsætisnefndar og hefði verið eðlilegra að umræða hefði átt sér stað áður um það hvernig Alþingi skyldi standa að þessum málum.
    Ég tel eðlilegt að sem flestir þingflokkar og helst allir eigi fulltrúa á þessari ráðstefnu. Það kemur í hlut Alþingis að samþykkja lög sem snerta umhverfismál og ég er viss um að það verður ákaflega fróðlegt að fylgjast með þessari ráðstefnu og vonandi mun hún margt gott af sér leiða. En auðvitað stöndum við frammi fyrir því að verða að takmarka kostnaðinn við þetta ráðstefnuhald af okkar hálfu.
    En ég ítreka að mikil umræða á eftir að eiga sér stað meðal þingflokksformanna og ég tel eðlilegast á meðan svo háttar að umræðan verði bundin við þá samkomu og við reynum að finna á þessu lausn sem öllum líkar.