Greiðslukortastarfsemi

119. fundur
Mánudaginn 06. apríl 1992, kl. 14:40:00 (5187)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Loks er komið að því að afgreiða frv. um greiðslukortastarfsemi. Hinn 11. mars 1980 bar ég fram fyrirspurn í þinginu sem hljóðaði svo, með leyfi forseta:
  ,,1. Þarf að leita leyfis stjórnvalda til stofnunar lánakortafyrirtækis hér á landi?
    2. Eru slík fyrirtæki háð eftirliti, t.d. samsvarandi bankaeftirliti?
    3. Ef slík lánastarfsemi er óháð lögum, hyggst þá viðskrh. beita sér fyrir lagasetningu sem tekur til slíkrar starfsemi og tryggir eftirlit með henni?``
    Þetta var 11. mars 1980 og fyrrv. hæstv. þáv. viðskrh. svarar m.a.:
    ,,Kann vel að vera að það verði talið nauðsynlegt að setja lög um slíka starfsemi sem þessa. Á þessu stigi málsins get ég ekki tjáð mig frekar um þetta þar sem ég hef ekki tiltækar nauðsynlegar upplýsingar sem þurfa að vera fyrir hendi þegar á að meta hvort þurfi eða sé æskilegt að setja sérstaka löggjöf um slíka starfsemi sem þessa.``
    Hv. þáv. þm., Kjartan Jóhannsson, lagði orð í belg og hafði þá verið viðskrh. skömmu áður, en hann segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í þriðja lagi eru það svo áhyggjur sem hv. 8. landskjörinn þm. fjallaði allítarlega um í máli sínu, nefnilega sú hætta að fólk stofni til óheyrilegra skulda þegar lánsfé fæst með greiðum hætti eftir þessari leið. Af þessu hafa menn greinilega ekki haft verulegar áhyggjur í grannlöndum okkar en ég tel að miðað við þær aðstæður sem ríkt hafa í íslensku þjóðfélagi þar sem hefur verið lánsfjárskömmtun en jafnframt lánsfjáreftirsókn, því að það hefur nánast verið úthlutun á niðurgreiddu fé að geta fengið lán, þá hljóti að vera ástæða til þess í sambandi við hugsanlega reglugerðarsetningu að líta sérstaklega til þess hvort einhverjar takmarkanir þurfi að vera hér á landi að þessu leytinu vegna þeirra aðstæðna sem við búum við hér í þjóðfélaginu.`` Þessari umræðu lauk svo og varð ekki meira úr að sinni.
    Hinn 29. október 1984 lagði ég enn fram fsp. sem var styttri en hún hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Er þess að vænta að frumvarp til laga um greiðslukort og starfsemi greiðslukortafyrirtækja verði lagt fram á yfirstandandi löggjafarþingi?`` Síðan er gerð grein fyrir því að þá þegar hafi greiðslukort öðlast mikla útbreiðslu. Þá segir hæstv. þáv. viðskrh., Matthías Á. Mathiesen:
    ,,Ég vænti þess að frv. til laga um greiðslukort sem einnig hefði að geyma ákvæði um starfsemi greiðslukortafyrirtækja verði lagt fyrir á yfirstandandi þingi.`` Það var árið 1984.
    Sú sem hér stendur sagði þá, með leyfi hæstv. forseta:

    ,,Þetta mál er hins vegar lærdómsríkt að því leyti að þarna kemst á laggirnar í raun og veru án þess að nokkur stýri því umtalsverð breyting á viðskiptaháttum landsmanna. Síðan sitjum við uppi með orðinn hlut og verðum að reyna að fella þessa breytingu undir lög og reglur þegar hún er þegar almennt um garð gengin. Heppilegra hefði e.t.v. verið að þáv. hæstv. viðskrh. hefði brugðist við og reynt að setja þessar reglur fyrr.`` Hygg ég nú að enginn deili um að þarna hafði hv. þm. lög að mæla. Nú erum við komin inn árið 1992 og loks er komið frv., sem að vísu birtist fyrir einu eða tveimur árum, og skal nú aðeins vikið að því.
    Auðvitað er alveg ljóst að hin mikla notkun greiðslukorta hefur haft afgerandi áhrif á allt verðlag í landinu og það leiðir af sjálfu þar sem þeir sem við greiðslunum hafa tekið hafa borið kostnað af láninu. Nú stendur til að breyta því og jafnframt að finna nýjar leiðir. Ætla ég aðeins fyrst að víkja að því þar sem hæstv. ráðherra boðar nú svokölluð debetkort sem eiga að koma í staðinn fyrir ávísanir. Það er út af fyrir sig í lagi ef hægt er að nota þau hvar sem er en þá vil ég leggja til við hæstv. ráðherra að ávísanahefti og ávísanir verði með öllu lagðar niður. Annars er hér einungis komin enn ein leiðin til þess að verða sér úti um peninga án þess að eiga þá. Ég sé ekki betur en ávísanir hljóti að verða með öllu óþarfar ef þessi kort komast í notkun sem ætti að vera trygging fyrir því að menn gefi ekki út ávísanir, sem engin innstæða fyrir, og ekki er nema gott eitt um það að segja.
    En það er ýmislegt sem mér finnst vanta í þetta frv. sem hér liggur fyrir. Talað er um að korthafar beri nú kostnað af notkun korta og þannig hljóti vöruverð að lækka. En hvernig á að tryggja það? Það finnst mér gersamlega vanta í þetta. Ég get ekki betur séð en að kaupmenn, sem að yfirgnæfandi meiri hluta fá greiðslukort í staðinn fyrir peninga inn í verslanir sínar, hljóti áfram að verða að greiða innkaup sín með lánum, e.t.v. með greiðslukortum, og þannig sé ég ekki hvernig kostnaður við notkun kortanna veltist af vörunum. Ég held að hæstv. ráðherra verði að gera okkur aðeins betur grein fyrir því hvernig hann ætlar að tryggja lækkun vöruverðs ef korthafar bera nú allan kostnað af notkun kortanna.
    Annað er það sem mig minnir að ég hafi einhvern tíma spurt hæstv. ráðherra um áður. Það er vaxtataka greiðslukortafyrirtækjanna. Hver ákveður þá vexti í raun og veru? Mér hefur aldrei verið það með öllu ljóst hvernig þeir vextir eru ákveðnir, dráttarvextir, svo og aðrir vextir sem kortafyrirtækin hafa tekjur af, gjaldtaka, kostnaður o.s.frv. og hvað sem það nú heitir sem við öll getum lesið á okkar eigin kortalistum.
    Síðan er eitt sem mér finnst að líka þurfi að tryggja og það er að þeir sem kjósa að nota peninga og greiða með peningum eiga auðvitað að fá umbun fyrir það vegna þess að þeir eru ekki að taka lán hjá þeim sem þeir skipta við, þeir eru að greiða með peningum sem hafa gildi þá þegar. Það hlýtur auðvitað að vera krafa þeirra sem kjósa að nota peninga að þeir fái lækkun á því sem þeir eru að kaupa vegna þess að það er auðvitað allt annað að greiða með peningum en greiða með lánum sem notkun greiðslukorta er hvort sem okkur líkar betur eða verr.
    Ekki fer á milli mála að þau fyrirtæki sem hafa rekið greiðslukortaviðskipti hafa gríðarlegar tekjur. Ég gáði nú ekki að því, og ber að víta mig fyrir það, en ég man ekki betur en Visa-Ísland hafi skilað í hreinum hagnaði á síðasta ári hátt í 100 millj. kr. og kann nú að vera að hæstv. viðskrh. muni hreinlega hver þessi ágóði var. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt. Samt er verið að herða að. T.d. liggur ekkert fyrir í hvað þessi hagnaður á að fara. Sjálfsagt rennur hann til eigendanna sem koma væntanlega þessum arði einhvern veginn vel fyrir en samt er verið að herða hér ýmis ákvæði sem rýra mjög rétt kortaeigendanna, t.d. að þeir borgi fyrstu 12.000 kr. ef annar aðili kemst yfir kort fyrir slysni og síðan komi til 8.000 kr. sekt ef menn láta hjá líða einhvern tíma að tilkynna um horfið kort. Þetta þykir mér gersamlega óþarft. Það er alveg ljóst að fyrirtækin, og má rannsaka það, hafa ekki borið neinn þann skaða í svo verulegum mæli að ástæða sé til þess að vera að herða þessar reglur, alls ekki. Ég hygg að allir þeir sem hafa kort undir höndum séu lítt hrifnir af því að það sé á einhverjum flækingi og ég hygg að menn noti fyrsta tækifæri sem gefst til þess að tilkynna að kort hafi horfið, þannig að mér finnast þessi tvö ákvæði gjörsamlega fráleit.
    Íathugasemdum við lagafrv., sem ætti að vera greinargerð, segir að árið 1991 sé heildarvelta innan lands 39,8 milljarðar og 7,6 milljarðar erlendis. Þar er vitnað í Hagtölur mánaðarins sem gefnar eru út af Seðlabanka Íslands. Hér er því ekki um neitt smáræði að ræða og segir í lok greinargerðarinnar eða því sem kallað er athugasemdir við lagafrv., með leyfi forseta:
    ,,Hins vegar er talsverður kostnaður henni samfara [þ.e. greiðslumiðluninni] og jafnframt hafa þróast hér á landi venjur varðandi notkun og skilmála greiðslukorta sem eru frábrugðnar því sem gengur og gerist í nágrannalöndunum. Þannig er greiðslumiðlun kortafyrirtækja óalgeng í matvöruverslunum erlendis, en hér er hún um 40% af veltu fyrirtækjanna. Þá gera greiðslukortafyrirtækin kröfur um tryggingar korthafa sem eru frábrugðnar því sem tíðkast í nágrannalöndunum.``
    Að lokum, hæstv. forseti, hnaut ég um atriði sem er í athugasemdum um 6. gr. Þykir mér nú hoggið nærri hv. Alþingi. Þar er talað um að starfsemi skuli ekki vera í andstöðu við sanngjarna viðskiptahætti. Þá er m.a. átt við, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,að viðskiptamaður kortaútgefanda sé ekki þvingaður á neinn hátt til þess að taka þátt í greiðslumiðluninni``.
    Svo kostulega vill til að nýjar reglur hafa verið teknar upp á hinu háa Alþingi um greiðslur þegar þingmenn fara utan. Sú breyting felst í því að áður fengu hv. þm. dagpeninga sem hægt var að greiða hótelin með, en nú hefur sú regla verið útgefin að svo skuli ekki vera heldur skuli menn greiða hótelin með greiðslukortum sínum og fá það endurgreitt þegar þeir koma heim. Hið háa Alþingi hefur í raun og veru þvingað hv. þingmenn til þess að vera með greiðslukort. Ég býst við að það komi ekki að mikilli sök, væntanlega eru flestir með greiðslukort. En ég gerði athugasemd við þetta vegna þess að mér finnst þetta með öllu óviðeigandi. Það á auðvitað að vera hverjum í sjálfsvald sett hvort hann vill taka þátt í þessu gríni.
    Ég skal stytta mál mitt, hæstv. forseti. Að lokum skal ég draga saman athugasemdir sem ég óska skýringa á. Hvers vegna þarf að herða viðurlög við því ef kort týnist eða það er ekki tilkynnt? Ég vil vita hvort það stendur til að leggja niður ávísanir ef debetkort verða almennt tekin upp. Ég vil fá að vita hvernig hæstv. ráðherra ætlar að tryggja að verðlag lækki við það að korthafar beri sjálfir kostnað af kortunum. Mig langar að vita hverjir ákveða þá vexti sem greiðslukortafyrirtækin leggja á viðskiptavini sína, hvort sem það er gjald fyrir það eitt að fá að hafa kort og aðrar slíkar álögur. Ég held að nauðsynlegt sé að þetta liggi fyrir áður en umræðu lýkur. Síðan á málið eftir að fara til hv. efh.- og viðskn. og ég vænti þess að hv. þm. fái tækifæri til að skoða það mjög gaumgæfilega. Persónulega held ég að setja hefði átt meiri takmarkanir á hina gríðarlegu notkun kortanna og mér finnst mjög til athugunar hvort matvöruverslanir eigi að taka við slíkum greiðslum. Greinilegt er að menn treysta fólki betur til þess að fara sér ekki í óhófi um greiðslu matvæla heldur en um kaup á áfengi en ÁTVR mun líklega vera eina stofnunin í landinu sem ekki tekur við slíkum greiðslum. ( Gripið fram í: Bensínstöðvar.) Bensínstöðvar, það er rétt. Hv. landsmönnum er ekki treyst til að hafa stjórn á kaupum á bensíni og áfengi.
    Ég vil að lokum þakka hæstv. viðskrh. fyrir það að hafa nú loksins gert tilraun til þess að koma lögum yfir þessa starfsemi því það hefur auðvitað alltaf verið til vansa að hún skyldi komast á án þess að nokkur lagastoð væri fyrir.