Greiðslukortastarfsemi

119. fundur
Mánudaginn 06. apríl 1992, kl. 14:55:00 (5188)

     Halldór Ásgrímsson :
    Herra forseti. Ég fagna því að frv. er komið fram á nýjan leik. Það er að vísu nokkuð bagalegt að málið skuli koma fram svo seint, sérstaklega miðað við að það hefur verið lengi í undirbúningi. Við því er í sjálfu sér ekkert að segja og vænti ég þess að efh.- og viðskn. vinni í málinu með þeim hætti að hægt verði að afgreiða það á yfirstandandi þingi.
    Ég hef ekki miklar athugasemdir við frv., tel flest af því sem þar er til bóta. Ljóst er að greiðslukortastarfsemin hefur þróast hér á landi í skjóli þess að litlar og ófullkomnar reglur hafa verið um hana og enginn vafi er á að það hefur orðið til þess að útbreiðsla kortanna hefur orðið meiri hér á landi en annars staðar. Fólk telur mikilvægt að fá greiðslufrest án þess að greiða fyrir hann, sem er mjög eðlilegt. Allir hljóta að vilja stjórna fjármálum sínum á þann hátt að henti sem best hverjum og einum, hverju heimili eða fyrirtæki og leitast við að fá ókeypis greiðslufrest. Það er að sjálfsögðu hagkvæmara en að taka lán með háum vöxtum.
    Það hefur á engan hátt verið ljóst hver greiðir kostnaðinn af þessari starfsemi. Því er haldið fram að hann komi ekki við neytendur, en allir vita að svo er að sjálfsögðu. Allur kostnaður sem leggst á fyrirtæki kemur með einum eða öðrum hætti fram í hærra vöruverði. Því er það stór spurning sem kemur fram í 12. gr. frv. en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Greiðslumiðlun með greiðslukortum skal eigi valda almennri hækkun á vöruverði.``
    Ég tel ótvírætt að þessi greiðslumiðlun hefur valdið einhverri hækkun á vöruverði án þess að hægt sé að fullyrða hver hún er. Í mörgum tilvikum er það svo að þeir sem greiða fyrir þessa þjónustu eru ekki endilega þeir sem njóta hennar. Það er því ljóst að vandi er að haga því þannig að kostnaðurinn leggist fyrst og fremst á þá sem nota þjónustuna. Í 12. gr. frv. er verið að reyna að koma á reglum sem eiga að tryggja það og e.t.v. víðar í frv. Mér sýnist það vera nokkrum vafa undirorpið hvort það muni takast. Þá vaknar sú spurning að hvaða leyti frv. er á skjön við frv. til laga um samkeppnislög sem er nýbúið að leggja fram. Þar er gert ráð fyrir að Verðlagsstofnun heiti ekki lengur Verðlagsstofnun heldur samkeppnisstofnun og Verðlagsráð heiti ekki lengur Verðlagsráð heldur samkeppnisráð. Í 12. gr. frv. er gert ráð fyrir því að nöfn þessi séu óbreytt. Ég á von á að hið komandi samkeppnisráð muni starfa með allt öðrum hætti en Verðlagsráð að því er varðar hámarksþóknun fyrir ýmislegt í okkar þjóðfélagi því þar er gert ráð fyrir að verðlagseftirlit verði með öðrum hætti. En í 12. gr. er gert ráð fyrir að Verðlagsráð geti ákveðið hámarksþóknun sem kortaútgefendur krefjast af greiðslu viðtakanda.
    Ég fagna því mjög að ákvæði eru sett um það að greiðslukort skuli látin aðilum í té á grundvelli viðskiptatrausts. Það er með öllu ólíðandi hvernig íslenska bankakerfið starfar að þessu leyti og krefst ávallt ábyrgða frá þriðja aðila. Þetta hefur viðgengist mjög lengi og með ólíkindum hvað bankakerfið er seint að aðlaga sig almennum viðskiptaháttum sem eru í löndunum í kringum okkur. Það er hart að setja þurfi sérstök lög til þess að leggja af slíka siði. Jafnvel þó samkeppni hafi aukist mjög á sviði bankaþjónustu er enn verið að krefja menn um tryggingarvíxla þegar þeir fá greiðslukort. Þetta hefur áreiðanlega líka orðið til þess að auka útbreiðslu kortanna og má segja að óeðlilegir viðskiptahættir eins og þessir hafi ýtt nokkuð undir þá þróun.
    Ég hef ýmsar smávægilegar athugasemdir við frv. Í 13. gr. er gert ráð fyrir að fjárhæðartakmörk

sem getið er um í upphafi greinarinnar skuli miðast við lánskjaravísitölu og breytast í hátt við þá vísitölu. Eins og verðlagsþróun er um þessar mundir hér á landi og miðað við þær fyrirætlanir núv. og fyrri stjórnvalda að berjast með oddi og egg gegn verðbólgu tel ég mikilvægt að hætta að nota slíkar viðmiðanir í löggjöf hér á landi. Ég tel slíkar viðmiðanir komnar frá tímum þar sem verðlagsþróun var allt önnur og að það eigi ekki að birta ótta um verðbólgu í framtíðinni með því að vera sífellt að vitna til lánskjaravísitölu eða verðlagsvísitölu o.s.frv. Ef nauðsynlegt þykir að breyta fjárhæðarmörkum sem þessum er eðlilegt að það sé gert með reglugerð viðkomandi ráðherra og fella eigi niður viðmiðanir sem þessar.
    Ég fagna því líka að gert er ráð fyrir svokölluðum debetkortum. Mér vitanlega er ekkert því til fyrirstöðu að íslenskir bankar taki upp kort af slíku tagi. Í löggjöfinni kemur ekkert, mér vitanlega, í veg fyrir að það sé hægt þannig að löggjöfin sem slík breytir engu þar um. Það er nú svo með ýmsilegt hér á landi að það er eins og að það þurfi að gera nánast allt með lögum og sú árátta bæði hjá stjórnvöldum og Alþingi að halda að allar framfarir byggist á því að sett séu lög um viðkomandi starfsemi. Þessi oftrú á löggjöf birtist í þjóðlífinu á hverjum degi og birtist m.a. í öllum þeim fjölda frv. sem núv. ríkisstjórn er að koma með inn á Alþingi á síðustu stundu. Ætli mætti ekki bíða með eitthvað af þessum lögum? Sem betur fer hafa einhverjir ráðherrar komið í veg fyrir að þetta flóð yrði enn þá meira.
    Ég er ekki að segja að þetta frv. sé dæmi um þetta flóð. Ég vildi bara minna á að auðvitað eiga bankarnir að taka upp debetkort hvað sem þessu frv. líður. Bankarnir eiga að byggja lánsviðskipti á viðskiptatrausti en ekki á ábyrgðum ættingja. Þeim mun fleiri ættingja sem hægt er að ná í þeim mun betra og byggja það á viðskiptatrausti, ekki á að þurfa löggjöf til að breyta því. Bankarnir eiga einfaldlega að sjá sóma sinn í að laga sig að því sem gengur og gerist í löndunum í kringum okkur. Fyrr en varir mun það hvort eð er gerast og ekki ætti að þurfa að setja þvingandi löggjöf í þeim efnum.
    Að lokum fagna ég því að frv. er komið fram. Ég mun fyrir mitt leyti stuðla að því að það geti náð fram að ganga á yfirstandandi þingi á vettvangi efh.- og viðskn.