Vog, mál og faggilding

119. fundur
Mánudaginn 06. apríl 1992, kl. 15:30:00 (5192)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Eins og kom fram í máli hæstv. iðnrh. gilda mörg gömul lagaákvæði um þessi mál sem frv. fjallar um og er það vel að reynt sé að samræma lagaákvæði og færa þau til nútímaviðhorfs. Ég vil sérstaklega fagna því sögulega yfirliti sem kemur fram í athugasemdum við frv. því, eins og hæstv. ráðherra veit eflaust, að þá erum við í þingflokki Kvennalistans vel mannaðar af sagnfræðingum og leggjum mikið upp úr að hafa söguna ávallt til hliðsjónar þegar verið er að fjalla um lagafrv. sem og annað. Ég vil fyrir þeirra hönd fagna því og það er mjög skemmtilegt að fá upplýsingar eins og hér koma fram.
    En það fór fyrir mér eins og síðasta ræðumanni að ég átti frekar erfitt með að skilja orðið ,,faggilding``. Ég var að reyna að átta mig á því hvað í því fælist nákvæmlega, hvað orðið þýddi. Ég er ekki alveg búin að átta mig á því og mér hefði þótt ágætt ef hægt væri að skýra það aðeins nánar, sérstaklega með tilliti til þess að hæstv. ráðherra lagði til að frv. færi til efh.- og viðskn. Ég hefði haldið, eftir að hafa lesið frv., að því yrði að sjálfsögðu vísað til iðnn. eftir að hafa borið það saman við það sem við höfum verið að fjalla um þar. Við í iðnn. höfum haft til meðferðar frv. um staðla og staðlaráð og hefði mér þótt eðlilegt að iðnn. fjallaði um frv. Þótt þetta frv. snúist ekki um iðnað er samt sem áður verið að fjalla um hliðstætt mál í iðnn. einmitt nú. Við erum langt komin með það frv. og hefði iðnn. að mínu mati verið eðlilegasti vettvangurinn til að fjalla um málið. Ég hefði viljað spyrja hæstv. ráðherra hvort honum þætti ekki eðlilegra að iðnn. fengi málið í ljósi þess og eins þess að efh.- og viðskn. er með gífurlega mörg mál. Það getur vel verið að hægt sé að færa fyrir því rök, þó að ég sjái þau ekki í fljótu bragði, að efh.- og viðskn. ætti að fá frv. en ég held að það væri að ýmsu leyti eðlilegra að iðnn. fengi frv. til meðferðar.
    En það sem mig langar til að gera að umtalsefni eru aðeins nokkrar greinar hér og falla undir V. kaflann, Faggildingu. Þar segir í 14. gr. að við samræmingu á reglum skuli hafa faggildingu Löggildingarstofunnar eða sambærilegra stofnana í Vestur-Evrópu. Mér fannst þetta ,,í Vestur-Evrópu`` svolítið stórt og er að velta fyrir mér hvort það væru lönd EFTA og EB sem verið væri að tala um eða hvort það væri eitthvað víðtækara. Mér sýndist á athugasemdum að það gæti verið átt við þau lönd en fannst kannski dálítið hæpið að hafa svo opin ákvæði í lagatextanum. Þetta er kannski smáatriði en ég vil bara spyrja um það.
    Síðan er það 15. gr. sem mér finnst ástæða til að athuga nánar. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Ráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð forsendur faggildingar samkvæmt 14. gr. enda sé reglugerðin samin í samræmi við reglur EFTA-þjóða og reglur þær sem gilda í ríkjum EB ásamt gildandi stöðlum þar að lútandi.`` Og síðan segir: ,,Reglugerðin skal uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í samningi sem EFTA-ríkin gerðu með sér í Tampere hinn 15. júní, 1988 . . . ``
    Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta svolítið óvanalegt orðalag í lagatexta en þó getur það kannski staðist. Í athugasemd við þessa grein er tekið fram að þetta hafi verið tekið upp í íslenskan staðal sem nefnist ÍST EN 45000. Er ekki eðlilegra að hafa þetta ákvæði inni í lögunum fremur en taka fram að þetta sé í samræmi við reglur sem EFTA-þjóðir og EB-ríki hafa tekið upp? Það hlýtur að vera erfitt fyrir löggjafann að fylgjast með hvort farið er að lögum þegar verið er að vitna til einhverra reglna sem kannski ekki eru aðgengilegar nema þær hafi verið teknar upp í íslenskan staðal og þá ætti það að vera, að mínu mati, eðlilegra að vitna beint til hans.
    Síðan segir í 16. gr. að Löggildingarstofan lúti yfirstjórn iðn.- og viðskrn. Mér fannst mjög sérkennilegt að sjá þetta vegna þess að ekki getur hún fallið undir bæði iðnrn. og viðskrn. Hún verður að heyra undir annað hvort. Það er kannski sérstaklega þess vegna sem ég hélt, þegar ég las frv., að iðnn. mundi fá málið og það væru einhver mistök að skrifa viðskrn. Ég velti því svo fyrir mér hvort þetta tengdist á einhvern hátt frv. til laga um breytingar á lögum um Stjórnaráð Íslands sem er 156. mál þingsins. Þar er gert ráð fyrir að sameina iðnrn. og viðskrn. Það frv. er á dagskrá þessa fundar og er framhald 1. umr. og hefur ekki hlotið meðferð á Alþingi. Mér fannst þó einkennilegt ef svo væri því að við vorum að fjalla um mál um greiðslukortastarfsemi rétt áðan og þar er talað um viðskrh. Eins er um annað frv. sem ég greip hér með mér, 424. mál, Gjaldeyrismál, en þar er einnig talað um viðskrh. Ég átta mig því ekki alveg á af hverju þetta er tekið svona upp í 16. gr. Ég hafði reyndar haldið allan tímann að þetta mál um staðla væri málefni iðnrn. Um þetta vildi ég gjarnan fá að vita, sérstaklega, eins og ég segi, með tilliti til þess ef frv. verður ekki vísað til iðnn. þar sem ég hefði talið að ég fengi tækifæri til að fjalla um málið.