Vog, mál og faggilding

119. fundur
Mánudaginn 06. apríl 1992, kl. 15:38:00 (5193)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Hér er vissulega á ferðinni mál sem á margan hátt er tímabært. Verði frv. að lögum er því ætlað að leysa af hólmi lög sem eru flest hver um 70 ára gömul og ríflega það. Auðvitað er fyrir löngu orðið ljóst að þar er margt orðið úrelt og margt í þeim lögum sem manni finnst hljóma dálítið kynduglega þegar við skoðum það í ljósi nútímans.
    Þannig er hluti af þeim lögum, sem nú á að fella úr gildi ef þetta frv. verður samþykkt, tilskipun um mælitæki og vogaráhöld frá 1925 þar sem m.a. er fjallað mjög ítarlega um fyrirbrigðið reisluvog sem á sínum tíma var auðvitað hið merkasta og þarfasta þing en er ekki mjög mikið brúkað við vigtun og mundi varla samrýmast þeim miklu kröfum sem gerðar eru víðast hvar um vigtun og vog í okkar þjóðfélagi. Þess vegna má segja sem svo að í sjálfu sér hafi það verið orðið löngu tímabært að endurskoða þessi lög og líka í ljósi þess sem fram kom í máli hæstv. ráðherra áðan að það er auðvitað afar þýðingarmikið að um þessi mál öll séu gildandi skýr lög og nútímaleg sem séu í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru á alþjóðlegum vettvangi og skiptir þá litlu sem engu hvort ákvörðun verður tekin um hið Evrópska efnahagssvæði eður ei. Það breytir engu um það því að við þurfum að búa við afar skýrar reglur og skýr lög þar í þessum efnum vegna þess að það er nauðsynlegur hluti af þeirri samkeppnisstöðu sem íslenskt atvinnulíf þarf að búa við að þessar reglur séu sem skýrastar og sambærilegastar við það sem gerist erlendis svo að okkar vara geti af þeim sökum a.m.k. keppt við vöru og framleiðslu annarra þjóða.
    Ég tel hins vegar ástæðu til að nefna áhyggjur mínar út af því að hér erum við að fjalla um stofnun sem er í eðli sínu opinber eða hálfopinber og er í sömu stöðu og margar slíkar stofnanir að þeim er nánast selt sjálfdæmi um verðlagningu sinnar þjónustu. Nú vil ég taka fram áður en lengra er haldið að ég er mjög eindregið í hópi þeirra sem telja að atvinnulífið eigi að standa að mestu leyti undir þjónustu af því tagi sem hér er verið að veita. Mér finnst ósköp eðlilegt að atvinnulífið greiði fyrir þetta og það sé ekki verið að kosta til þess af almannafé. En þá verður auðvitað að ganga úr skugga um það að gjaldtaka sé hófleg og rekstri slíkra stofnana sé veitt eitthvert aðhald. Að mínum dómi hefur mikið skort á það að þessi tvö skilyrði séu uppfyllt því á sama tíma og sú stefna hefur réttilega verið mörkuð að atvinnulífið sjálft taki meiri þátt í kostnaðinum við rekstur stofnunarinnar, þá hefur aðhaldið að rekstri stofnunarinnar ekki verið fyrir hendi. Möguleikar atvinnulífsins til þess að fylgjast með hvernig tekjum stofnunarinnar hefur verið varið hafa engir verið og þess vegna hefur Löggildingarstofan auðveldlega getað skammtað sér tekjur nánast að eigin vild.
    Ég nefni þetta hér vegna þess að nú er að koma vor og þegar vorar birtast okkur vorboðanir með ýmsum hætti. Í útvarpinu var sagt frá því að einn af helstu vorboðunum væri lóan sem væri að gera sér hreiður um þessar mundir og það var ótvírætt merki um að vorið væri í nánd. En fyrir okkur úti á landi birtist vorið líka með öðrum hætti. Það birtist í formi alls konar eftirlitsmanna, eftirlitssveita hins opinbera og hálfopinbera, sem fylla þjóðvegina af sérmerktum bifreiðum og inn í fyrirtækin streyma menn með harðar töskur og reikningseyðublöð sem þeir rita á háar kostnaðartölur fyrir ýmiss konar viðvik. Eitt af þessum viðvikum er það að löggilda vogir og hv. 1. þm. Vesturl. nefndi t.d. í því sambandi hafnarvogir.
    Það er auðvitað ljóst að Löggildingarstofan hefur margs konar annað hlutverk með höndum. Hún hefur m.a. það hlutverk með höndum að löggilda allar vogir í frystihúsum, mælitæki olíufélaga út um allar þorpagrundir, vogir í verslunum og síðast en ekki síst, svo ég nefni helsta vaxtarbroddinn m.a. hér í atvinnulífi höfuðborgarsvæðisins, þarf hún að löggilda alla sjússamæla og er þá fátt eitt nefnt. Fyrir þetta viðvik sendir Löggildingarstofan auðvitað háan reikning, þar með talinn ferðakostnað af ýmsu tagi, sem fyrirtækin úti um land þurfa síðan að greiða. Ef menn heimsækja frystihús er eitt af því sem þeir kvarta hvað sárast undan í rekstri þeirra einmitt kostnaður af þessu tagi og kostnaður vegna löggildingar voga, ekki vegna þess að hér sé um að ræða svo gríðarlega þungan kostnaðarlið í sjálfum sér, heldur hitt að mönnum blöskrar að fyrir ekki stærra viðvik en löggildingu voganna er séu menn að borga í meðalfrystihúsi tugi ef ekki hundruð þúsunda. Þetta er náttúrlega alveg sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að gjaldskrár Löggildingarstofunnar hafa verið að hækka ár frá ári og núna sérstaklega milli ára um prósentur sem eru gersamlega út í hött miðað við kostnaðarþróunina í landinu svo það tekur engu tali.
    Samtök fiskvinnslustöðvanna könnuðu, svo að ég taki dæmi, kostnað fiskvinnslufyrirtækja vegna löggildingar á vogum. Þá kom í ljós að kostnaður sautján fiskvinnslufyrirtækja víðs vegar um landið hefur hækkað að meðaltali um 76%. Og það eru dæmi um allt að 257% hækkun á löggildingarkostnaði á milli ára á sama tíma og við erum að tala um það að hér séum við ekki einungis að stefna að eins stafs verðbólgutölu heldur verðbólgu á bilinu 0--2%. Við erum sífellt að klifa á því að hér eigi að tryggja stöðugt gengi og ekki megi auka kostnað og ekki megi auka á byrðar fyrirtækjanna vegna þess að við ætlum að tryggja stöðugt gengi og þar með stöðugt verðlag. Síðan gerist það að hálfopinbert fyrirtæki af þessu tagi kemst upp með það í skjóli sinnar einokunar og í skjóli þess að viðskiptavinurinn er háður löggildingunni að senda reikning sem hækkar um 257% milli ára á sama tíma og við höfum nánast enga verðbólgu í landinu. Það er auðvitað ekki að furða þótt mönnum blöskri þetta og menn séu farnir að setja ærið stór spurningarmerki við starfsemi af þessu tagi.
    Nú er mér mætavel ljóst að það var gert ráð fyrir því í í fjárlögunum sem við samþykktum um jólin að sértekjur Löggildingarstofunnar ættu að hækka til þess að mæta því að ætlunin er að draga úr fjárveitingum hins opinbera til stofunnar. Út af fyrir sig, eins og ég sagði hér áðan, geri ég engar athugasemdir við það. En fyrr á nú rota en dauðrota og það er alveg ljóst að sú ákvörðun að breyta taxta Löggildingarstofunnar í samræmi við það sem fjárlögin gera ráð fyrir átti ekki að hafa í för með sér annað en það að sértekjur Löggildingarstofunnar hækkuðu um 23,6%. Við erum hins vegar að tala um að meðaltalskostnaður þessara sautján fiskvinnslufyrirtækja víða um landið hafi hækkað að meðaltali um 76% og þetta rímar auðvitað alls ekki saman.
    Ég tel með öðrum orðum, virðulegi forseti, að þegar við erum að ræða um þetta mál verði það að liggja mjög skýrt fyrir, ekki bara það hver kostnaðurinn verður fyrir ríkissjóð heldur ekki síður hitt hvort frv. í sjálfu sér sé liður í þeim ásetningi stjórnvalda að draga úr tilkostnaði fyrirtækjanna og treysta þannig verðlagsforsendur þær sem við byggjum hugmyndir okkar um gengisfestuna á. Við byggjum okkar hugmyndir um það að festa gengið á því að við getum náð raungengislækkun með því að verðbólgan hér innan lands verði verulega lægri en í samkeppnislöndum okkar. En þetta framferði Löggildingarstofunnar, sem ég kýs að kalla svo, gengur auðvitað þvert á yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar. Ég sé í rauninni ekki að í þessu frv. sjái menn fyrir endann á þessu og ég sé ekki að í frv. komi það nægilega skýrt fram með hvaða hætti þetta kostnaðaraðhald eigi að nást við framkvæmd laga um vog, mál og faggildingu. Ég tel þess vegna, virðulegi forseti, að í þeirri nefnd sem fær þetta mál til endurskoðunar og meðhöndlunar þurfi að ganga úr skugga um að kostnaðaraðhald verði tryggt til þess að Löggildingarstofan, eins og svo mörg opinber og hálfopinber fyrirtæki, geti ekki leikið þann leik í krafti sinnar einokunar að þvinga upp alla kostnaðarliði sem leggjast beint ofan á atvinnulífið og gera því erfiðara fyrir að mæta þeirri samkeppni sem nauðsynleg er og óhjákvæmileg er á erlendum mörkuðum.
    Það mun vera opnað fyrir það í frv., ef ég skil það rétt, að auka samkeppni og fjölga þeim aðilum sem geta tekið að sér núgildandi hlutverk Löggildingarstofunnar. Ég vil samt sem áður segja það, virðulegi forseti, að mér finnst þessi mál ekki nægilega skýr. Hér kemur að vísu fram bæði í 18. og 19. gr. tiltekin opnun á þessum málum en þegar við skoðum aftur á móti greinargerðina með þeim greinum virðist manni blasa við að ekki sé ætlunin að ganga ýkja langt í þessum efnum. Til að mynda varðandi 19. gr. er gert ráð fyrir því í frv. að Löggildingarstofan geti með samningi falið aðilum sem búa yfir sérþekkingu á sviði mælifræði að leysa afmörkuð verkefni sem falin eru stofnuninni samkvæmt 17. gr. Þegar við lesum athugasemdir við 19. gr. er þeirri hugmynd varpað fram að hér geti verið um að ræða stofnun eða deild innan Háskóla Íslands, Geislavarna ríkisins eða aðra slíka stofnun, eins og þar er sagt, þar sem sérþekking á tækjabúnaði er fyrir hendi. Hér er með öðrum orðum ekki verið að opna fyrir það, sem ég teldi eðlilegra, að þetta verði fært meira út í þjóðfélagið án þess að þar væri um að ræða opinbera stofnun, sem auðvitað er staðsett hér í Reykjavík vel að merkja, sem ætti að annast þetta hlutverk.
    Í sambandi við hugmyndina um faggildingu vil ég segja það að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér eru hér ekki nema um u.þ.b. átta fyrirtæki að ræða á ári sem þyrftu á þessari þjónustu faggildingardeildarinnar að halda eins og staðan er í dag. Það hefur verið reiknað út að kostnaðurinn við það að koma á þessari faggildingardeild er mikill. Auðvitað ber að taka undir það að úr því að menn eru

að burðast við að koma upp þessari faggildingardeild til þess að mæta eðlilegum kröfum, þá verður að gera það mjög myndarlega þannig að hægt sé að treysta því starfi sem þar fer fram. En eftir því sem ég hef komist á snoðir um hefur rekstrarkostnaðurinn við það að koma þessari deild á haft í för með sér hækkun á rekstrarliðum stofnunarinnar úr rúmlega 28 millj. í fyrra í 40 millj. í ár eða 41% hækkun. Auk þess stóð stofan í umtalsverðum fjárfestingum á síðasta ári sem áformað er að halda áfram í ár eftir því sem ég hef upplýsingar um. Fjárfestingar Löggildingarstofunnar verða því orðnar liðlega 20 millj. á þessum tveimur árum. Hér virðist mér að verið sé, svo að ég noti nokkurs konar líkingu, að reyna að skjóta skógarþröstinn með vélbyssu eða fallbyssu, að það sé verið að byggja upp gríðarlega deild til þess að annast tiltölulega litla þjónustu, þótt hún sé í sjálfri sér mikilvæg, og þess vegna hlýt ég að varpa fram þeirri spurningu hvort ekki sé eðlilegt að nema nú staðar og huga að því að sækja þessa þjónustu út fyrir landssteinana, nýta sér þá sjálfsögðu hluti í nútímaþjóðfélagi sem heitir verkaskipting. Við vitum að starfsemi af þessu tagi er til staðar erlendis, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra, og mér fyndist þess vegna ekki óeðlilegt að við skoðuðum þann möguleika að minnsta kosti hvort ekki væri hægt að fá faggildingu leysta af hendi af aðilum utan lands sem gætu þar með létt kostnaði af okkar atvinnulífi. Ég er sammála því sem hæstv. iðn.- og viðskrh. sagði og ég veit að hann hefur ríkan skilning á því að öll lög og allar reglur fyrir atvinnulífið þurfa að vera mjög skýrar og einfaldar til að starfsemin geti gengið sem greiðast fyrir sig. Það er líka kórrétt sem hæstv. ráðherra sagði að hér þarf að vera samræmi í hlutunum til þess að atvinnulífið innan lands geti keppt á erlendum vettvangi á sem sambærilegustum grundvelli við það sem erlend fyrirtæki eru að keppa á. En þá þarf líka jafnframt að gæta að því að sá kostnaður sem fellur á atvinnulífið af þessum sökum sé sem allra minnstur svo við séum ekki að hlaða óeðlilegum og ónauðsynlegum pinklum á atvinnulífið í landinu sem rýrir svo aftur möguleika til þess að halda uppi góðum lífskjörum og treysta verðlagsforsendur sem við öll viljum keppa að.
    Ég held þess vegna, virðulegi forseti, þó að ég sé fyllilega sammála því að hér sé um að ræða tímabæra endurskoðun á lögunum, að það þyrfti að skoða það miklum mun betur hvort með frv. sé það tryggt að horfið verði af braut sjálfvirkra hækkana á öllum kostnaði eins og hefur verið landlægt í starfsemi Löggildingarstofunnar á síðustu árum og horfið að því að skapa hér eðlilegan starfsramma. Jafnframt þarf að athuga hitt hvort ekki megi kveða skýrar á um það í frv. að fela megi aðilum utan stofnunarinnar þau verkefni sem gert er ráð fyrir að hin nýja löggildingarstofa hafi.
    Ég vek athygli á því að við erum ekki að fjalla um neitt smámál. Það mætti ætla miðað við það fámenni sem hlýðir á umræðurnar að hér sé ekki um að ræða mál sem komi mjög mörgum við. En ég held þvert á móti að svo sé. Við þurfum ekki annað en að lesa 5. gr. frv. til að sjá að hér verið að taka á gríðarlega stórum hlutum. Í 5. gr. segir að löggildingarskyld séu ,,öll þau mælitæki og búnaður, sem notuð eru til að mæla stærðir, sem hafa áhrif á verð eða gjald fyrir hvers konar viðskipti með vörur eða þjónustu og skattlagningu,`` þó með tilteknum undantekningum. Við erum með öðrum orðum að tala um hluti sem snerta flesta þætti viðskiptalífs landsins, flesta þætti atvinnulífsins, framleiðslunnar í landinu og það líður ekki sá dagur að við séum ekki hvert og eitt að nota þjónustu sem snertir verksvið Löggildingarstofunnar. Þess vegna held ég að það þurfi að skoða þessi mál afar vel og af mikilli gaumgæfni í miklu og nánu samstarfi við atvinnulífið sjálft og huga sérstaklega að því með hvaða hætti megi ná því meginmarkmiði að gera reglurnar skýrar, aðgengilegar og einfaldar en um leið að létta af kostnaði til þess að við getum bætt lífskjörin í landinu en um það væntanlega snýst allt þetta mál.