Sala ríkisfyrirtækja og reglur um eignaraðild

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 13:36:00 (5198)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Ég verð að hafa þann inngang að mínu svari að þau mál, sem nú eru rædd á vegum ríkisstjórnarinnar og þingflokka hennar og lúta að því hvernig réttast sé að breyta ríkisbönkunum í hlutafélög og e.t.v. orkufyrirtækjum eins og t.d. RARIK, snúa eingöngu að því verkefni sem ég hef þegar nefnt, þ.e. að breyta rekstrinum í hlutafélagsform. Í þeim frv. sem rædd eru um þessi mál á vettvangi ríkisstjórnar og flokka hennar er ekki verið að tala um sölu á hlutum í þessum félögum, a.m.k. ekki að svo stöddu. Reyndar get ég látið þá skoðun í ljós að ég tel að sala á hlutum í ríkisbönkunum komi naumast til greina á næstu árum nema e.t.v. fyrir annan bankann og þá að hluta til. Einkum mundi koma til greina að gefa út nýtt hlutafé vegna þessara stofnana. Sama gildir í enn ríkari mæli um Rafmagnsveitur ríkisins.
    Hér er fyrst og fremst rætt um það hvort megi finna áhrifaríkara og hagkvæmara rekstrarform fyrir þennan ríkisrekstur. Ef að því kæmi einhvern tímann að hlutaféð yrði boðið til sölu er ekkert í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sem leggur band á það að eigandinn geti sett skilyrði fyrir sölunni um dreifingu hlutanna. Ég tek reyndar fram að þær hugmyndir hafa enn ekki verið mótaðar en yrðu að sjálfsögðu ræddar og reifaðar mjög nákvæmlega því það er mikilvægt sjónarmið að efnahagslegt vald þjappist ekki á fárra hendur við það að seldar eru ríkiseignir. Að þessu máli er enn ekki komið. Að endingu get ég svarað því skýrt að ekkert í þessum málatilbúnaði skaðar íslenska hagsmuni eða íslensk yfirráð yfir orkulindum landsins.